Forkaupsréttur og Loyalty Points reglan

Þessi síða er í vinnslu!

FORKAUPSRÉTTUR & LOYALTY POINTS REGLAN

Við erum mikið spurðir út í hvernig Loyalty Points reglan hjá Chelsea Football Club virkar gagnvart félagsmönnum okkar, hér á eftir verður reynt að gefa sem gleggsta mynd þar um.

Hvernig ávinnur maður sér Loyalty punkta hjá Chelsea Football Club?

Í fyrsta lagi fá allir þeir er greiða árgjald til Chelsea klúbbsins (sem rennur að mestu óskipt til Chelsea Football Club) fyrir tiltekna dagsetningu á sumri hverju 5 Loyalty punkta, í ár miðast þessi dagsetning við 21. júlí n.k. en þar sem það getur tekið allt að 48 klst að skráning og endurnýjun nái í gegn hjá Chelsea Football Club er vissara að ganga frá slíku í síðasta lagi þann 19. júlí.

Í öðru lagi öðlast félagsmenn Loyalty punkta í hvert skipti er þeir kaupa miða á leiki með Chelsea fyrir tilstilli Chelsea klúbbsins, mismarga eftir hvaða leiki er um að ræða, leikir gegn Arsenal, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham Hotspur gefa af sér 1 punkt hver, leikir gegn öðrum liðum í Úrvalsdeildinni gefa af sér 3 punkta hver, mögulega gefa leikir í ensku bikarkeppnunum fleiri punkta, þá 5 eða jafnvel 8.

Rétt er að taka fram að kaupi félagsmaður miða í gegnum Ticket Exchange kerfið fást ekki Loyalty punktar í þeim tilfellum.

Fyrnast Loyalty punktar á einhverjum tímapunkti?

Uppsafnaðir Loyalty punktar fyrnast í lok hvers tímabils, þó áskilur Chelsea Football Club sér rétt til að styðjast við punktafjölda liðins keppnistímabils í byrjun næsta keppnistímabils á eftir mæli sérstakar aðstæður með því. Í ár gildir þetta um heimaleikinn gegn Liverpool og útileikinn gegn West Ham United.

Í hvaða tilfellum krefst Chelsea Football Club Loyalty punkta?

Á hverju keppnistímabili eru tilteknir leikir hvar Chelsea krefst þess að miðakaupendur ráði yfir ákveðnum fjölda Loyalty punkta, er þá keppnistímabilinu skipt í tvennt, þ.e. fyrir áramót og svo eftir áramót, okkar félagsmenn þurfa að ráða yfir 5 punktum vegna leikja í Loyalty punktakerfinu er fram fara fyrir áramót en 10 punkta þarf vegna leikja í Loyalty punktakerfinu er fram fara eftir áramót.

Þessi regla gildir einungis um kaup okkar félagsmanna á miðum á þessa tilteknu leiki í forkaupsréttinum, eftir það er krafist mun fleiri punkta er miðarnir fara í almenna sölu til félagsmanna, því er mikilvægt að hafa forkaupsréttinn ávallt í huga.

Rétt er að taka fram að þegar miðar eru keyptir í Ticket Exchange kerfinu er ekki krafist Loyalty punkta, sama hvaða leikir eiga í hlut, þó ber að geta þess að framboð miða í Ticket Exchange getur verið mjög breytilegt.

Hvaða leikir falla undir Loyalty punktakerfið á komandi keppnistímabili?

Heimaleikir Chelsea gegn Arsenal, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham Hotspur falla undir þessa reglu, 5 punkta þarf til fari leikirnir fram fyrir áramót, 10 punkta ef leikirnir eru á dagskrá eftir áramót.

Þá er yfirleitt krafist 10 punkta vegna kaupa á miðum á síðasta heimaleik liðsins á hverju keppnistímabili, að þessu sinni Chelsea vs Bournemouth sunnudaginn 19. maí 2024.

Vegna miðakaupa á aðra leiki með Chelsea þarf 5 punkta þegar kemur að miðakaupum á útileikina gegn Fulham er fram fer fyrir áramót og svo 10 punkta er kemur að útileiki Chelsea gegn Crystal Palace og Brentford eftir áramót.

Hvað varðar leiki Chelsea í ensku bikarkeppnunum áskilur Chelsea sér rétt til að beita Loyalty punktareglunni eftir atvikum hverju sinn.

ATH. Reglan „One ticket per member“ gildir í öllum tilfellum þegar kemur að miðapöntunum hjá Chelsea-klúbbnum.

Upp