Heiðursfélagar Chelsea klúbbsins á Íslandi

Frá stofnun Chelsea klúbbsins á Íslandi þann 16. mars 1997 hafa níu einstaklingar orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera útnefndir heiðursfélagar í Chelsea klúbbnum. Um val á heiðursfélögum eru lög og reglur stjórnar sem má lesa um hér.

Heiðursfélagar eru hér taldir upp og eru þeir eftirfarandi:

Guðjón Sigurðsson og Karl Emil Gunnarsson 2023

Guðjón Sigurðsson er Vestmannaeyingur og hefur haldið með Chelsea allar götur frá unglingsárum. Hann er pípulagningameistari og starfaði sem slíkur þar til MND sjúkdómurinn gerði honum það ómögulegt um 2005. Síðan þá hefur hann barist fyrir mannréttindum sjúklinga á Íslandi og alþjóðlega. Hann er formaður MND á Íslandi, situr í stjórn Evrópusamtakanna og alþjóðasamtaka MND félaga. Hann er í dag starfsmaður ÖBÍ, réttindasamtaka og hefur með aðgengismál að gera. Hann fékk Fálkaorðuna árið 2007 fyrir baráttu fyrir bættum hag sjúklinga.

Góð stund með Höllu og Tambling á hótelbarnum.

Guðjón gekk til liðs við Chelsea klúbbinn árið 2005 og hefur verið dyggur félagi og stuðningsmaður klúbbsins æ síðan, hefur m.a. frá árinu 2019 gegnt trúnaðarstörfum fyrir bæði Chelsea klúbbinn á Íslandi sem og annarra erlendra stuðningsmannaklúbba hjá Chelsea Football Cub sem fulltrúi Disabled Members og sótt sem slíkur nokkra fundi hjá móðurfélaginu í London.


Þá hefur Guðjón verið einstaklega duglegur við að sækja fundi og aðra mannfagnaði hjá Chelsea klúbbnum á Íslandi.

Karl Emil Gunnarsson er Húsvíkingur að uppruna og hefur haldið með Chelsea síðan hann fór að fylgjast með enska boltanum á sjöunda áratug síðustu aldar. Rysjótt gengi félagsins næstu áratugi á eftir náði ekki að deyfa áhugann. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1972 og nam íslensku og ensku við Háskóla Íslands á árunum 1973-1977. Síðan þá hefur Karl Emil fengist við kennslu, þýðingar og prófarkalestur á dagblöðum. Hann settist í helgan stein í árslok 2019 og hefur lítið gert síðan annað en að horfa á leiki Chelsea í sjónvarpinu.


Um aldamótin síðustu komst Karl Emil í kynni við tvo ágæta stuðningsmenn Chelsea sem héldu úti stuðningsmannatímariti eða „fanzine“ ásamt vefsíðu, Matthew Harding´s Blue and White Army og fyrir áeggjan þeirra skrifaði hann eitt og annað í tímaritið um skeið undir nafninu Cool Blue. Tímaritið er enn gefið út en heitir nú CFCUK og er selt á eitt pund á sölubás gegnt Fulham Broadway jarðlestastöðinni. Cool Blue heyrir þó sögunni til.

Þrátt fyrir langa samleið með Chelsea fór Karl Emil ekki á Stamford Bridge fyrr en árið 2002 en síðan þá hafa ferðirnar verið nokkrar, stundum í samfylgd Rannveigar dóttur hans sem einnig er eldheitur stuðningsmaður Chelsea Football Club.

Karl Emil gekk til liðs við Chelsea klúbbinn árið 2001 og hefur ekki misst úr ár síðan, hann hefur verið formanni og stjórn klúbbsins innan handar á ýmsan máta, tók t.d. eftirminnilegt viðtal við Kerry Dixon er hann heimsótti Chelsea klúbbinn hér um árið auk þess að skottast eftir honum út á Keflavíkurflugvöll við sama tækifæri fyrir okkar hönd.
Þá hefur hann einnig lagt okkur lið varðandi þýðingar yfir á enskan texta þegar mikið hefur legið við svo eftir hefur verið tekið.

Sölvi Sveinsson og Þórður Óskarsson 2022

solvi-thordur


Sölvi Sveinsson og Þórður Óskarsson, endurskoðendur klúbbsins, voru gerðir að heiðursfélögum á aðalfundi Chelsea-klúbbsins á Íslandi þann 1. október 2022. Þeir hafa gefið sér tíma í að sinna þeim mikilvæga þætti að fara yfir ársreikninga klúbbsins í áratugi og vel að því komnir að fá þakklæti og hrós frá okkar ástkæra klúbbi.

Sölvi er sagnfræðingur að mennt, fæddur á Sauðárkróki. Hann lauk BA prófi í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands og cand mag prófi frá sama skóla. Hann starfaði hjá Alþingi og síðan við kennslu í Hagaskóla, Laugalækjarskóla og Fjölbrautaskólanum við Ármúla frá stofnun hans og var skóla­meistari þar frá árinu 1998 til ársins 2005 þegar hann varð skólastjóri Verzlunarskóla Íslands. Hann lét af störfum 2008 og fór að vinna hjá menntamálaráðuneytinu. Þá var hann kallaður til starfa hjá Landakotsskóla og var skólastjóri þar í fjögur ár.

Sölvi hefur verið dyggur stuðningsmaður Chelsea Football Club um áraraðir og félagi í Chelsea-klúbbnum á Íslandi nánast frá stofnun klúbbsins og annar af tveimur endurskoðendum hans í hartnær tuttugu ár.

heidursf

Þórður er fæddur í Reykjavík 1940. Lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands 1960. Sótti námskeið í Siglingafræði, flugumsjón og flugumferðarstjórn 1962. Hóf störf í flugumsjón Flugfélags Íslands 1962 og starfað þar til ársins 1991 og síðustu árin sem yfirflugumsjónarmaður. Tók próf hjá Bandarísku flugmálastjórninni sem gaf honum réttindi til þess að starfa sem flugumsjónarmaður í Bandaríkjunum. Lauk stúdentsprófi frá MH 1990 og á árunum 1991 til 1993 stundaði hann nám í sagnfræði hjá HÍ og lauk BA prófi í sagnfræði í janúar 1993 en þá hof hann störf hjá Frímúrarareglunni sem skrifstofustjóri og starfaði þar uns hann fór á eftirlaun 2009.

Þórður hefur verið stuðningsmaður Chelsea frá 1968. Uppáhalds leikmaður hans frá þeim árum er Ron Harris „The Chopper“ . Á árinu 2005 hitti hann goðið á barnum á hótelinu á Brúnni og átti ánægjulegt spjall við hann. Má segja að það hafi verið toppurinn á tilverunni.

Þórður hefur verið annar af endurskoðendum klúbbsins í um tuttugu ár

Eiður Smári Guðjohnsen 2022

eidur-smari

Þennan kappa þarf vart að kynna fyrir lesendum. Eiður Smári Guðjohnsen gekk til liðs við Chelsea Football Club sumarið 2000 fyrir tilstilli Gianluca Vialli, þáverandi knattspyrnustjóra Chelsea.

Eiður var leikmaður Chelsea næstu sex keppnistímabil, lék alls 262 leiki með Chelsea og skoraði í þeim 78 mörk auk þess að leggja upp 32 mörk að auki. Samvinna Eiðs Smára og Jimmy Floyd Hasselbaink var rómuð og mynduðu þeir eitt skæðasta sóknarpar sem um getur í ensku knattspyrnunni.

Eiður er enn í dag mikils metinn af stuðningsmönnum Chelsea um allan heim, sannkallaður „Chelsea legend“.

Eiður var sæmdur nafnbótinni heiðursfélagi Chelsea klúbbsins á 25 ára afmælishátíð Chelsea klúbbsins á Íslandi er fram fór á Grand Hótel Reykjavík þann 18. mars 2022 og er hann sjötti einstaklingurinn er nýtur þessa heiðurs.

Jóhann Sigurólason 2022 

Jóhann Sigurólason var útnefndur heiðursfélagi í Chelsea klúbbnum á Íslandi á 25 ára afmælishátíð klúbbsins er fram fór á Grand Hótel Reykjavík 18. mars 2022 en Jóhann er yfirmaður gistisviðs og bókunarstjóri á því sama hóteli.

Jóhann gekk til liðs við Chelsea klúbbinn árið 2001 og hefur ætíð síðan verið dyggur stuðningsmaður klúbbsins og Chelsea Football Club og nokkrar eru ferðirnar orðnar á Stamford Bridge. Jóhann hefur reynst Chelsea klúbbnum drjúgur félagsmaður í rúm 20 ár, ætíð verið boðinn og búinn til hjálpar er komið hefur að því að útvega húsnæði fyrir samkomur á vegum klúbbsins, þá hefur hann greitt götu margra félagsmanna varðandi gistingu í Reykjavík og auðveldað stjórnarmönnum aðgengi að leikmönnum Chelsea er gist hafa á hótelinu er þeir hafa komið hingað til lands með landsliðum sínum til keppni.

Þá hefur Jóhann ósjaldan lagt Chelsea klúbbnum til vinninga til nota í happdrættum á vegum klúbbsins. Jóhann er sá sjöundi í röð heiðursfélaga Chelsea klúbbsins á Íslandi. 

Páll Ásmundsson 2021

palli-asmunds

Páll Ásmundsson (Vialli) hefur verið mikill stuðningsmaður Chelsea í langa tíð og ötull stjórnarmaður fyrstu fjögur ár Chelsea klúbbsins á Íslandi. Hann sýndi þar óeigingjarnt starf sem stjórnarmaður og var öflugur í verkefna- og skipulagsstjórnun. Láði hann, m.a. stjórn klúbbsins fundarstað í fyrirtæki sínu og var gjöfull á bæði tíma og vinnu og sjaldan fóru stjórnarmenn tómhentir heim af stjórnarfundum . Páll er án efa einn af duglegustu stuðningsmönnum félagsins og ófáar ferðir farið á Brúnna og æfingasvæði Chelsea. Honum var sýnd sú virðing að verða fimmti heiðursfélagi á aðalfundi Chelsea klúbbsins á Íslandi þann 6. nóvember á Grand Hóteli 2021.

Birgir B. Blomsterberg 2019

birgir

Blommi er einn af stofnendum Chelsea klúbbsins á Íslandi og var ritari klúbbsins í fjölda ára. Hann hefur alla tíð verið drjúgur stuðningsmaður Chelsea klúbbsins, m.a. hvað varðar að útvega vinninga til nota í happdrættum á vegum klúbbsins. Blommi var útnefndur heiðursfélagi á aðalfundi Chelsea klúbbsins 2. nóvember 2019.

Ingvar J Viktorsson 2013

ingvar

Ingvar hefur verið sjálfskipaður fundarstjóri Chelsea klúbbsins á Íslandi nánast frá upphafi og varla misst úr fund, stjórnað þeim af mikilli röggsemi eins og hans er von og vísa. Jafnframt hefur Ingvar verið drjúgur stuðningsmaður klúbbsins þegar komið hefur verið að fjáröflun ýmiss konar. Ingvar var útnefndur heiðursfélagi á aðalfundi Chelsea klúbbsins þann 19. október 2013.

Eyjólfur Þ. Þórðarson 2007

eyjo

Eyjó var aðalhvatamaður að stofnun Chelsea klúbbsins á Íslandi og fyrsti formaður klúbbsins, lofsvert framtak á sínum tíma og stendur klúbburinn í mikilli þakkarskuld við Eyjó fyrir framtakið. Eyjó varð fyrstur til að hljóta þann heiður að vera útnefndur heiðursfélagi Chelsea klúbbsins á Íslandi, var sú ákvörðun kunngerð á 10 ára afmælishátíð klúbbsins á Grand Hótel Reykjavík 17. mars 2007.

Ríkharður Chan (03.06.1946 – 16.01.2008)

rikki

Ríkharður heitinn Chan, sem hér sést ásamt Önnu Gretu eiginkonu sinni, í London Underground á leið út á Harlington Training Ground, þáverandi æfingasvæði Chelsea liðsins, var einlægur stuðningsmaður Chelsea Football Club og mikill velgjörðarmaður Chelsea klúbbsins á Íslandi, nokkuð sem eftirlifandi fjölskylda hans hefur haft í heiðri allt frá andláti Rikka. Rikki var útnefndur heiðursfélagi á aðalfundi Chelsea klúbbsins þann 8. september 2007.
Blessuð sé minning Rikka Chan.

Upp