Vonir og væntingar

Vonir og væntingar tímabilið 2013- 2014

3. júní 2013 var virkilega góður dagur fyrir okkur Chelsea menn, kóngurinn snéri aftur, “Hinn sérstaki” varð “Hinn hamingjusami”, Jose Mourinho kom heim. Þegar orðrómurinn fór að kvisast út snemma á þessu ári um að þessi endurkoma Móra væri einhver möguleiki þá þorði undirritaður aldrei að leyfa sér að vona of mikið. Því ef maður myndi vona og þetta myndi bregðast, þá yrðu það átakanleg vonbrigði.

Svo ég segi það strax að þá held ég að Chelsea hafi gert bestu kaupin á leikmannamarkaðinum þegar við fengum Móra heim. Það hefur verið mikil lyftistöng fyrir félagið í heild sinni að fá hann aftur í bílstjórasætið, það efast ENGINN um Mourinho og um leið og hann kom þá fóru veðbankar og spekingar að spá okkur titlinum – liði sem endaði 14 stigum á eftir meisturum síðasta tímabils.

Leikmannaglugginn
Strax og Mourinho tók við skútunni fóru leikmanna orðrómarnir af stað. Sjaldan hafa jafn mörg nöfn verið orðuð bæði við Chelsea og frá Chelsea. Nöfn á borð við Modric, Khedira, Sergio Ramos, Neymar, Sneijder, Falcao, Cavani, Lewandowski og jafnvel Cristiano Ronaldo voru á einhverjum tímapunkti orðuð við okkar frábæra félag! Að sama skapi var fullyrt að David Luiz, Mata, Mikel, Demba Ba, Torres og Ivanovic væru á leið frá félaginu.

Stærsta spurningamerkið í þessum leikmannaglugga var ekki hvort Chelsea myndi kaupa framherja, heldur hvern. Við reyndum bæði við Cavani og Falcao en þeir voru báðir yfirboðnir af öðrum félögum, annað hvort launalega (Falcao) eða verðmiðalega (Cavani). Það voru líka háværir orðrómar um Lewandowski en hann lét það strax í ljós að hann vildi ekki fara til Englands.

Þá kom að því að snérum okkur að Wayne nokkrum Rooney. Móri daðraði all svakalega við Rooney á blaðamannafundi á undirbúningstímabilinu eftir að Rooney hefði lent í enn einu rifrildinu við Ferguson. Ekki bætti það ástandið þegar gamli þjálfari Rooney, David Moyes, var ráðinn stjóri Man Utd en hann og Rooney elduðu víst eitthvað grátt silfur saman fyrir dómstólum er ævisaga Rooney kom út fyrir nokkrum árum. Það var raunverulegur möguleiki að fá Rooney en eins og svo mörg önnur lið í þessum leikmannaglugga þá harðneituðu Man Utd að selja kappann og að lokum sættust hann og Moyes. Leiðindamál, því við hefðum svo sannarlega haft not fyrir Wazza.

Þegar þarna er komið við sögu var langt liðið á leikmannagluggann. Ljóst var að við myndum ekki ná að kaupa þessa stórstjörnu í framlínuna sem við reyndum svo oft. Okkur tókst þó að kaupa Samuel Eto‘o eftir að einn besti vinur Romans Abramovich ákvað að selja allar sínar stærstu stjörnur hjá Anzi á einu bretti. Eto‘o er risanafn í fótboltaheiminum og hefur verið einn besti framherji heims sl. 7-8 ár. Það má hins vegar ekki líta framhjá því að leikmaðurinn er orðinn 32 ára og það sést best á því að hann fékk bara eins árs samning, að þetta er skyndilausn en ekki framtíðarleikmaður.

Ef við skoðum gluggann í heild sinni þá höfum við engu að síður styrkt okkur mjög mikið.

Inn:
Marco van Ginkel
Andre Schurrle
Mark Schwarzer
Willian
Samuel Eto‘o
Christan Atsu
Kevin de Bruyne (til baka úr láni)
Michael Essien (til baka úr láni)
Tomas Kalas (til baka úr láni)

Út:
Christan Atsu (lán)
Patrick Bamford til MK Dons (lán)
Billy Clifford til Yeovil (lán)
Adam Coombes til Notts County
Thibaut Courtois til Atlético Madrid (Spáni) (lán)
Cristian Cuevas til Vitesse (Hollandi) (lán)
Ulises Davila til Cordóba (Spáni) (lán)
Paulo Ferreira, hættur
Sam Hutchinson til Vitesse (lán)
Todd Kane til Blackburn (lán)
Milan Lalkovic til Walsall (lán)
Romelu Lukaku til Everton (lán)
Florent Malouda til Trabzonspor (Tyrklandi)
Victor Moses til Liverpool (lán)
Daniel Pappoe til Colchester (lán)
Oriel Romeu til Valencia (Spáni) (lán)
George Saville til Brentford (lán)
Ross Turnbull til Doncaster
Sam Walker til Colchester (lán)
Wallace til Inter Mílanó (Ítalíu) (lán)
Leystur undan samningi: Yossi Benayoun.

Það koma átta nýjir leikmenn inn í hópinn hjá okkur sem verður að teljast nokkuð mikið. Að vísu er þar með talinn Michael Essien en hann stóð sig vel á láni hjá Móra í fyrra og var nokkuð brattur á undirbúningstímabilinu, virkaði í góðu formi og meiðslalaus. Annars eru okkar stærstu kaup fólgin í brassanum Willian sem við svo skemmtilega rændum beint fyrir framan nefið á Villa Bóasar og öðrum Spursurum – ekki leiðinlegt það. Hann fær hins vegar mikla samkeppni þar sem fyrir eru leikmenn á borð við Hazard, Mata og Oscar. Einnig bættist þjóðverjinn Schurrle við sem og de Bruyne sem kom til baka úr láni. Við höfum mikla breidd í þessar þrjár stöður fyrir aftan framherjann í leikkerfinu 4-2-3-1.

Á kostnað þess að Willian kom þá var Victor Moses settur á lán til Liverpool. Ég verð eiginlega að viðurkenna að mér mun hundleiðast að sjá hann spila fyrir Rauða herinn en hann hefur ábyggilega sjálfur viljað fara þangað. Ég tel hins vegar að mikil mistök hafi verið gerð í því að lána Lukaku til Everton, ástæðan er einföld, hann er betri en bæði Demba Ba og Torres, sýndi það bæði í fyrra og á undirbúningstímabilinu. Einhverra hluta vegna hefur Móri ekki viljað treysta honum of mikið eftir að tímabilið byrjaði og líklega finnst honum hann vera of ungur. Kannski er þessi lánsamningur því góður fyrir hann en slæmur fyrir Chelsea. Ég bind miklar vonir við Lukaku og sé hann fyrir mér sem okkar markahæsta mann tímabilið 2014-2015.

Ef við gerum upp leikmannagluggann þá bætti liðið við sig miklum gæðum og sérstaklega meiri breidd í lykilstöður framarlega á vellinum. Hazard, Mata og Oscar voru allir mjög þreyttir undir lok síðasta tímabils en með þennan mannskap þá á að vera hægt að halda þeim öllum ferskum þegar álagið fer að segja til sín. Einnig bind ég miklar vonir við van Ginkel en þar er leikmaður sem virkilega getur orðið hörkufótboltamaður.
Það er ekki hægt að skilja við þetta viðfangsefni án þess að minnast aðeins á þennan Juan Mata farsa. Einhverra hluta vegna byrjaði strax orðrómur um að Mata væri ekki í plönum Mourinho. Þrátt fyrir að bæði Mata og Mourinho hafi sífellt neitað þessu fengum við í sífellu fregnir af því að Arsenal, Man Utd, Valencia og PSG ætluðu sér að reyna klófesta kappann.

Þvílíkt bull!

Að mínu viti hefði CFC þó getað verið harðari í þessari afstöðu sinni, það var ekki fyrr en í blálokin að Móri kom fram og varð frekar pirraður á þessum endalausu spurningum um Mata. Mata er einn af 10 bestu knattspyrnumönnum veraldar að mínu mati og á að vera í Chelsea treyjunni um ókomin ár.

Byrjunarlið og taktík
Mourinho er einhver taktíkasti þjálfari í bransanum. Fyrir honum er hver andstæðingur ólíkur, með sína styrkleika og sína veikleika og þannig nálgast hann leikina. Hann er líka varkár þjálfari sem ber virðingu fyrir öllum liðum. Það hefur því verið gaman að sjá þessar ólíku tegundir af fótbolta sem við höfum spilað í þessum fyrstu fjórum leikjum tímabilsins. Í öllum leikjunum höfum við spilað sama leikkerfið, 4-2-3-1, en nálgast alla leikina á ólíkan hátt.

Í Hull leiknum pressuðum við liðið upp allan völlinn og héldum pressunni, misstum aðeins taktinn í seinni hálfleik en ekkert stórmál.

Gegn Aston Villa spiluðum við „possession“ fótbolta sem skilaði sér ágætlega, lentum í töluverðu veseni með háar sendingar og mikinn hraða sóknarmanna Villa, sýndi sig í þeim leik að þegar Cahill og Terry eru aftastir þá mega þeir ekki skilja eftir mikið pláss fyrir aftan sig.

Gegn Man Utd sýndi Móri að hann hefur engu gleymt. Hann spilaði upp á jafntefli og fékk nákvæmlega þau úrslit. Liðið lá aftarlega og hann lét fljótustu mennina í liðinu spila fremst á vellinum til að eiga möguleika á hröðum skyndisóknum. Varnarlega var sá leikur frábær hjá okkur, sóknarlega fundum við ekki taktinn.

Gegn FC Bayern Munchen spilaði svo liðið mjög vel. Við pressuðum Bayern þegar þeir voru aftast á sínum vallarhelmingi en duttum svo í skotgrafirnar þegar þeir komust yfir miðju með boltann. Við framkvæmdum svo tvær stórfenglegar skyndisóknir í þeim leik sem skilaði tveimur mörkum. Það var bara fáranleg óheppni að við skyldum ekki vinna þann leik, eitthvað sem við áttum svo sannarlega skilið. Bayern (besta lið heims) fékk rosalega fá færi á okkur og og réðu ekkert við hraðann á ákveðnum leikmönnum okkar liðs. Móri leyfði þeim að spila boltanum sín á milli en þeir sköpuðu sér lítið og fengu svo hraðar sóknir í andlitið. Mjög vel útfærður leikur hjá okkar manni.

Að lokum held ég að við munum spila leikkerfið 4-3-3 (gamla kerfið hans Móra) einstaka sinnum þegar við förum á virkilega erfiða útivelli og þá með Mikel sem akkeri. Við sáum í Madridarleiknum á undirbúningstímabilinu að þá byrjaði hann í því kerfi, það er að sjálfsögðu þéttara varnarlega og er greinilegt að hann er að búa liðið undir það kerfi líka.

Þegar kemur að því að velja fyrstu 11 hjá Chelsea þá fær maður bara ákveðinn valkvíða. Hingað til hefur Móri notast við það sem hann þekkir og veit að virkar. T.d. hefur Terry spilað hverja einustu mínútu í Úrvalsdeildinni í leikjunum þremur og Lampard alltaf verið í byrjunarliðinu. Cech er öruggur í búrinu og Cole og Ivanovic eru búnir að stimpla sig í bakverðina. Ég held að við munum sjá Terry og Luiz spila miðverðina í stærstu leikjunum þó að Cahill muni að sjálfsögðu leika stórt hlutverk á tímabilinu en fyrir mér eru Luiz og Terry miðvarðapar númer eitt.

Í þessar aftari miðjumannsstöður virðist Ramires vera alveg ósnertanlegur og það með réttu. Það kemur að því að Lampard þurfi hvíld og þá vil ég sjá Ginkel fá sénsinn. Svo höfum við bæði Essien og Mikel í þessar stöður. Hér mun Mourinho þurfa dreifa álaginu til þess að halda öllum glöðum og ég er nokkuð viss um að Obi Mikel sé pínu fúll eftir fyrstu fjóra leikina, hann hefur lítið spilað.

Þá kemur aðal valkvíðinn. Fyrir mér eiga bæði Hazard og Mata alltaf að eiga fast sæti í liðinu séu þeir í 100% standi, þeir eru bara það góðir. Svo er Oscar að koma mjög vel út í þessum fyrstu leikjum tímabilsins. de Bruyne er öðruvísi leikmaður sem ég er mjög hrifinn af og Schurrle sýndi það á móti FC Bayern að hann getur vel spilað fótbolta, er mjög hraður og beinskeyttur. Þá er bara Willian eftir, sá kauði kostaði okkur 32 milljónir punda og afgreiddi okkur með Shaktar í fyrra, eitthvað hlýtur hann að geta.

Eins og fyrr segir er ég með valkvíða. Ég myndi samt velja Oscar með Hazard og Mata og hafa Willian sem fyrsta mann af bekk.

Framlínan hjá okkur er svo aftur svolítið spurningamerki og kannski þar sem mestu efasemdirnar eru. Ég held að Eto‘o fái sénsinn til að byrja með þó svo að Torres verði aldrei langt undan. Demba Ba þarf svo að nýta sína sénsa þegar þeir koma – eitthvað sem hann gerði alls ekki í leiknum á móti Aston Villa.

Vonum bara að Eto‘o hafi engu gleymt og komi eins og stormsveipur inn í deildina og verði okkar +20 marka maður.

Spá
Fyrir mér er Chelsea með besta byrjunarliðið og sterkasta hópinn ásamt Man City. Við eigum að stefna á titilinn og ekki sætta okkur við neitt minna, Mourinho gerir það ekki sjálfur, fyrir honum er 2. sætið tap. Ég vil sjá okkur leggja allt í sölurnar í Deildarbikarnum og Bikarnum þar sem leikmenn eins og de Bruyne, Essien, Demba Ba, Ginkel og Bertrand geta blómstrað.

Þá er það bara Meistaradeildin, við urðum alveg hrikalega heppnir með drátt og eigum að rúlla upp þessum riðli okkar þar. Síðan eru þessi úrslit eins og þau eru, einn slakur leikur getur eyðilagt fyrir þér þann draum eins og Mourinho fékk að kynnast í fyrra gegn Dortmund.
Heilt yfir vil ég þó helst sjá okkur vinna ensku úrvalsdeildina, þá yrði ég alveg hrikalega hamingjusamur maður, en það verður ekki auðvelt verk.
Þetta er orðið alltof langt!

Keep the blue flag flying high!
Jóhann Már Helgason

Upp