Lög og reglur félagsins

I. kafli – Heiti félagsins, heimili og hlutverk.

1.grein:
Félagið heitir “Chelsea klúbburinn á Íslandi”, á ensku “The Chelsea Supporters Club of Iceland”. Félagið er viðurkenndur stuðningsmannaklúbbur af Chelsea Football Club (hér eftir nefnt CFC) og lýtur sem slíkur þeim lögum og reglum er CFC setur aðildarfélögum sínum.

2.grein:
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

3.grein:
Hlutverk félagsins er að vera vettvangur fyrir stuðningsmenn CFC á Íslandi, efla samstöðu og samvinnu þeirra á meðal með stuðningi við CFC að leiðarljósi auk þess sem stjórn félagsins sér um samskipti þess við CFC samkvæmt reglum þeim er CFC setur erlendum stuðningsmannaklúbbum sínum á hverjum tíma.

4. grein:
Félagið er áhugamannafélag og rekið sem slíkt. Það skal ekki undir neinum kringumstæðum stunda atvinnurekstur né fjárhagslega starfsemi umfram það sem er nauðsynlegt til að tryggja tilveru þess, rekstur og markmið.

5. grein:
Tilgangi sínum hyggst félagið ná, m.a., með eftirfarandi:
a) Rekstri heimasíðu, Chelsea.is
b) Með útgáfu fréttabréfs eftir því sem ástæða þykir, einnig skal stjórn Chelsea klúbbsins senda félagsmönnum tilkynningar og fréttir með tölvupósti eftir atvikum auk þess að birta slíkt á Chelsea.is þegar það á við.
c) Efna til ferða á leiki með CFC, eitt sér eða í samvinnu við samstarfsaðila.
d) Hafa milligöngu um og auðvelda félagsmönnum miðakaup á leiki CFC.
e) Aðstoða félagsmenn við kaup á gistingu á hótelinu á Stamford Bridge, The Millennium & Copthorne Hotels at Chelsea Football Club.
f) Aðstoða félagsmenn vegna kaupa á varningi af Chelsea Megastore.
g) Hvetja félagsmenn e. atv. til að koma saman og fylgjast með leikjum CFC.
h) Standa fyrir uppákomum ýmiss konar er kunna að efla samkennd og samstöðu á meðal félagsmanna, svo sem árshátíð, afmælisfagnaði o.þ.h.

II. kafli – Félagsmenn, árgjald og félagsskírteini.

6. grein:
Félagsmaður getur sá einn orðið sem skráir sig í félagið, skilar til þess umbeðnum skráningargögnum og greiðir árgjald það sem í gildi er hverju sinni. Aðild að félaginu telst ekki fullgild fyrr en ákvæði þessi hafa verið uppfyllt.

Heimilt er að víkja félagsmanni úr félaginu ef hann hagar sér með svo ótilhlýðilegum hætti að félagið og orðstír þess beri skaða af. Gildir þetta bæði um hegðan í ferðum á vegum félagsins, samkomum á vegum þess svo og á öðrum vettvangi er félagið kemur að sem slíkt. Stjórn félagsins skal ákveða um slíka brottvikningu telji hún ástæðu til. Viðkomandi félagsmaður getur áfrýjað ákvörðun stjórnar til félagsfundar og þarf 2/3 hluta atkvæða fundarmanna til að ógilda ákvörðun stjórnar félagsins.

7. grein:
Árgjald skal ákveðið á fyrsta stjórnarfundi hvers starfsárs eða svo fljótt sem auðið er, skal það vera innan þeirra marka er CFC ákveður hverju sinni.

8. grein:
CFC gefur út félagsskírteini til handa viðkomandi félagsmanni. Glati félagsmaður skírteininu skal hann láta stjórn félagsins vita um slíkt svo fljótt sem auðið er.

III. kafli – Stjórn félagsins og stjórnskipulag.

9. grein:
Með stjórn félagsins fara:

a) Aðalfundur félagsins.
b) Almennir félagsfundir.
c) Stjórn félagsins.

10. grein:
Aðalfundur Chelsea klúbbsins á Íslandi er æðsta vald félagsins og skal stjórn félagsins sjá svo um að samþykktir hans séu í heiðri hafðar. Aðalfund skal halda á tímabilinu september – nóvember ár hvert og til hans boða með minnst 7 daga fyrirvara á heimasíðu félagsins og með tölvupósti. Rétt til að sitja aðalfund hafa þeir félagsmenn er greitt hafa árgjald yfirstandandi starfsárs til félagsins við upphaf aðalfundar. Stjórn félagsins er heimilt að leyfa öðrum en fullgildum félagsmönnum að sitja aðalfund, mæli sérstakar ástæður með því, t.d. endurskoðendum félagsins komi þeir ekki úr röðum félagsmanna, gestum er eiga erindi við félagið, fulltrúum fjölmiðla o.s.frv. Þá hafa fulltrúar CFC rétt á að sitja aðalfund félagsins sem og aðra fundi þess.

Heimilt er að boða til framhaldsaðalfundar sé þess óskað af fundarheimi og fullgild rök færð fyrir slíku, þarf þá einfaldur meirihluti fundarmanna að samþykkja slíkt og skal fundartími og fundarstaður ákveðinn við sama tækifæri og til hans boðað með minnst sjö daga fyrirvara.

11. grein:
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

a) Kosning fundarstjóra.
b) Skýrsla stjórnar vegna nýliðins starfsárs.
c) Reikningar félagsins vegna nýliðins reikningsárs.
d) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
e) Lagabreytingar.
f) Kosning formanns.
g) Kosning sjö stjórnarmanna.
h) Kosning tveggja endurskoðenda.
i) Kosning í laganefnd
-Fundarheimur kýs tvo aðila í laganefnd og stjórn félagsins tilnefnir þann þriðja sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar.
j) Önnur mál.

Formaður félagsins setur aðalfund og stýrir kjöri fundarstjóra. Formaður félagsins kynnir skýrslu stjórnar og gjaldkeri félagsins skýrir út reikninga þess. Ritari félagsins sér um að halda fundargerð. Formaður félagsins slítur fundi er dagskrá hefur verið tæmd.

Framboð til formanns og stjórnar skal tilkynnt stjórn félagsins a.m.k. þremur dögum fyrir aðalfund félagsins, sitjandi stjórnarmenn eru ætíð sjálfkrafa í kjöri til áframhaldandi setu í stjórn nema að þeir hafi óskað eftir að víkja úr stjórn, skal það þá tilkynnt stjórn a.m.k. 7 dögum fyrir aðalfund.

Ef framboð til formanns og / eða stjórnar berast ekki fyrir tiltekinn frest er félagsmönnum heimilt að gefa kost á sér til stjórnarstarfa, þ.m.t. í stöðu formanns á aðalfundinum.

12. grein:
Starfsárið skal vera frá og með 1. júní ár hvert til og með 31. maí næsta ár, reikningsár skal fylgja starfsári. Félagsaðild gildir fyrir sama tímabil.

Starfstímabil stjórnarmanna, svo og endurskoðenda félagsins, er til eins árs í senn, sama gildir um aðra þá sem tilnefndir eru til starfa fyrir félagið.

13. grein:
Allar breytingar er kunna að verða á stjórn á starfsári skal tilkynna skriflega til CFC svo fljótt sem auðið er.

14. grein:
Almennir félagsfundir skulu haldnir a.m.k. tvisvar á ári, þ.m.t. aðalfundur félagsins. Til þeirra skal boðað með minnst 7 daga fyrirvara á heimasíðu félagsins, svo og með tölvupósti. Félagsmenn geta krafist þess að stjórn félagsins boði til almenns félagsfundar telji þeir brýna þörf á, þarf þá skriflegt samþykki fjórðungs fullgildra félagsmanna til. Er stjórn félagsins skylt að verða við slíkum kröfum berist henni þær og skal félagsfundur þá boðaður með löglegum fyrirvara á heimasíðu félagsins og með netpósti.

15. grein:
Dagskrá félagsfunda skal ávallt auglýst með fundarboði. Formaður félagsins setur félagsfundi og skipar fundarstjóra. Ritari félagsins les fundargjörð síðasta félagsfundar sem skal árituð af stjórnarmönnum félagsins er viðstaddir voru til staðfestingar á fundargjörðinni. Formaður félagsins slítur fundi að lokinni dagskrá.

16. grein:
Atkvæðisrétt á fundum félagsins hafa eingöngu fullgildir félagsmenn samkvæmt 6. og 10. grein. Þá hafa þeir og tillögurétt og málfrelsi. Aðrir fundarmenn hafa eingöngu tillögurétt og málfrelsi.

17. grein:

Á fyrsta stjórnarfundi skiptir stjórn með sér verkum og skal kjörinn varaformaður, gjaldkeri, ritari auk fjögurra meðstjórnenda. Jafnframt skal tilnefna menn í skemmtinefnd og rit- & heimasíðunefnd.

Stjórnarfundir skulu haldnir eftir þörfum og sér formaður félagsins um boðun þeirra.

Einfaldur meirihluti stjórnar getur krafist þess að boðaður sé stjórnarfundur og er formanni félagsins skylt að verða við slíku eins fljótt og auðið verður. Slíka kröfu skal leggja fram skriflega.

Á stjórnarfundum gildir einfaldur meirihluti atkvæða. Standi atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Sitji formaður hjá þarf meirihluta atkvæða hverju sinni.

Stjórnarfundur telst því eingöngu löglegur að á hann séu mættir a.m.k. fimm stjórnarmenn.

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum þess á milli félagsfunda og sér um daglegan rekstur félagsins.

18. grein:
Formaður félagsins og gjaldkeri hafa einir heimild til fjárhagslegra skuldbindinga í nafni félagsins en þó aldrei fyrir hærri upphæð en sem nemur 25% af tekjum þess hverju sinni. Samþykki stjórnar þarf fyrir öllum frekari fjárhagsskuldbindingum í nafni félagsins.

19. grein:
Formaður félagsins skal tilkynna CFC um aðalfund félagsins, svo og um almenna félagsfundi, stað og stund, svo fljótt sem auðið er.

20. grein
Stjórnarmenn skulu ávallt koma úr röðum félagsmanna. Heimilt er að ráða endurskoðendur utan raða félagsmanna, þá má og leita til utanfélagsmanna til að sinna fundarstjórn og öðrum störfum fyrir félagið, svo sem umsjón með heimasíðu þess.

IV. kafli – Lagabreytingar.

21. grein:
Lögum þessum verður eingöngu breytt á aðalfundi félagsins og þarf 2/3 hluta atkvæða til að svo megi verða. Þó gildir einfaldur meirihluti um breytingu á einstökum dagskrárliðum aðalfundar.

22. grein:

Breytingartillögur við lög þessi skulu berast stjórn félagsins minnst 7 dögum fyrir aðalfund og skulu þær berast skriflega eða með tölvupósti, áritaðar af viðkomandi félagsmanni.

V. kafli – Ýmis ákvæði.

23. grein:
Stjórn félagsins skal ráða vefstjóra að heimasíðu félagsins, Chelsea.is, í ólaunað starf, stjórnin hefur hins vegar heimild til að umbuna viðkomandi með einu eða öðru móti fyrir vinnuframlag hans. Rit- og heimasíðunefnd skal vera umsjónarmanninum til aðstoðar. Þá hefur stjórn félagsins og heimild til að ráða starfsmenn til sérstakra verkefna er kunna að koma upp á.

24. grein:
Formaður félagsins ásamt ritara þess og gjaldkera skal annast öll samskipti við CFC fyrir hönd þess. Skulu félagsmenn jafnan upplýstir sem best um samskipti félagsins við CFC, ákvörðunartökur í þeim efnum skulu kynntar á heimasíðu félagsins, í netpósti til félagsmanna eða með fréttabréfi eftir því sem ástæða þykir til, að mati stjórnar félagsins.

25. grein:
Laganefnd skal yfirfara lög félagsins eftir því sem þörf þykir og gera tillögur um breytingar á þeim telji hún ástæðu til, yfirfara tillögur um lagabreytingar sem kunna að berast og skera úr um hvort þær hafi borist með lögbundnum hætti. Þá skal laganefnd og búa tillögur um lagabreytingar í það form sem tækt er, í samráði við flutningsmenn hverju sinni, ef þörf þykir.Laganefnd skal jafnframt vera umsagnaraðili um hverjar þær breytingatillögur sem kunna að koma fram við lög félagsins.

26. grein:

Ritnefnd skal vera vefstjóra innan handar með umsjón heimasíðu félagsins. Þá skal hún og hafa umsjón með ritun og útgáfu afmælis- og hátíðarrita komi til útgáfu þeirra.

27. grein:
Skemmtinefnd skal skipuleggja og hafa umsjón með árshátíð félagsins og afmælisfagnaði, einnig öðrum þeim mannfagnaði er félagið ákveður að efna til.

28. grein:
Félagið má ekki undir neinum kringumstæðum nota merki (logo/crest) CFC nema að fengnu leyfi CFC þar að lútandi. Skal það þá og gert samkvæmt þeim reglum er CFC setur um notkun merkisins.

29. grein:
Sé félaginu slitið skal eignum þess skipt samkvæmt reglum CFC þar að lútandi, þ.e. eignum félagsins skal skipt á milli félagsmanna þess.

Upp