Chelsea svæðið

chelseavillageThe Hotel at Chelsea er nýtt nafn gamla hótelsins sem áður hét The Chelsea Village Hotel. Þetta eru tvær byggingar sem innihalda 277 herbergi í 4 stjörnu klassanum. Allar ferðir Expressferða (áður Markmenn) á leiki Chelsea innihalda gistingu á þessu hóteli. Það sem er skemmtilegast er að lobbýbarinn Bridge Barinniheldur oft leikmenn, þjálfara, fyrrum leikmenn, eigendur og annað slíkt eftir leiki og þá gefst tækifæri til að hitta þá og spjalla, eitthvað sem ekki er lengur hægt að gera á æfingasvæði liðsins. Nú það er einnig alltaf bara gaman að búa í „Mekka“. Það er allt til alls í hverfinu og varla að menn þurfi að yfirgefa svæði gömlu stúkunnar til að lifa góðu lífi. Smellið hér til að sjá allt svæðið á myndbandi.

Shed Bar er hinn barinn og er hann til vinstri við inngang hótelsins (á mynd) og er hann opinn öllum gestum Stamford Bridge. Þetta er dæmigerður Sportbar og útileikir Chelsea eru iðulega sýndir á risaskjá þarna ásamt öllum öðrum íþróttaviðburðum. Þarna er gaman að labba um og skoða myndir af fyrrum leikmönnum og viðburðum, ekki eingöngu af Chelsea. Það er einnig hægt að fá sér í svanginn þarna.

Inni á hótelinu, gegnt Bridge Barnum er að finna The Brasserie veitingastaðinn sem er léttur vestrænn veitingastaður sem er opinn frá 18-23 á hverju kvöldi. Þetta er einnig staðurinn sem fólk borðar morgunverðinn ef það gistir á hótelinu. Það má einnig benda á það að fólki býðst að kaupa pakka með miða á leiki á þessu veitingahúsi. Þetta er sérstaklega heppilegt ef viðkomandi hafa ekki enn tryggt sér miða og eru ekki klúbbmeðlimir.

Þá er hægt að hringja í Hannah Harman í +44-(0) 20 7915 1924 og tryggja sér sæti í vesturstúkunni, 3ja rétta máltíð með hálfri flösku af húsvíni og vatni ásamt leikskrá á 150 pund plús vsk. á alla leiki nema gegn Arsenal, Manchester United eða Liverpool (á þá leiki er það 195 pund +vsk.). Ath. að ef þið ætlið að taka þennan kost þá gengur það sama fyrir þetta og venjulega miðasölu(að ársmiðahafar og klúbbmeðlimir ganga fyrir) en líklegt þykir að þessir pakkar seljist sjaldan upp og því vel þess virði að reyna ef buddan leyfir. Öll svona tilboð má kanna betur á http://www.thehotelatchelsea.com/cvh/home/match_day_hospitaility/default.jsp .

Le Bistro er kaffihús að frönskum sið og þar er opið frá 8-22 alla daga nema sunnudaga. Þarna er hægt að gæða sér á salatbar eða hefðbundnu bakarísfæði auk þess sem yfirkokkurinn er ávallt með rétt dagsins ef menn eru mjög svangir.

Harry Ramsden´s er heimsþekkt Fish & Chips (Fiskur og franskar) keðja og opnaði útibú þeirra á Stamford Bridge síðastliðinn ágúst við góðar undirtektir. Þessi staður er semsagt staðsettur þar sem Fishnets veitingastaðurinn var áður. Þarna er hægt að fá þjóðarrétt Englendinga á góðu verði og ef hinir veitingastaðir hótelsins eru of þungir fyrir budduna er um að gera að taka bara Harry Ramsden´s með sér upp á herbergi og glápa þar á íþróttafréttir í góðu yfirlæti.

Arkles er svo flottasti veitingastaðurinn að mati okkar háttvirta formanns, Karls Hillers. Þetta er staður sem getur tekið rúmlega 100 manns í mat og er hann í írskum anda. Morgunverðurinn á hótelinu er oft færður þangað þegar leikmenn og þjálfarar þurfa Brasserie staðinn til að undirbúa sig fyrir Meistaradeildina og annað slíkt.

Chelsea Club er líkamsræktar og Spa-klúbburinn á Stamford Bridge. Það var hvergi til sparað þegar þetta opnaði og alveg hreinar línur að enginn verður fyrir vonbrigðum með heimsókn þangað en það væri gott ráð að hafa samband við starfsfólk móttökunar áður en menn vaða inn í þennan einkaklúbb og ætla að skella sér til sunds. Tilvalið fyrir konuna á meðan kallinn er að missa sig í Chelsea Megastore.

museum04Þeir sem ekki hafa farið Skoðunarferð um Stamford Bridge verða einfaldlega að gera það ef þeir vilja kalla sig alvöru Chelseamenn. Það eru ýmis afbrigði af hinum hefðbundna túr og það er til dæmis hægt að taka túrinn með þekktum fyrrum leikmönnum. Í þessumtúrum er farið með fólk á varamannabekkinn, inn í búningsklefa leikmanna og allt sem þessu fylgir. Ef þú ert á leið á Stamford Bridge og vilt fá að vita strax hvenær og hvernig túrinn verður er um að gera að hafa samband við skrifstofuna á tours@chelseafc.com en annars er yfirleitt farinn allavega einn túr á dag og ekkert mál að bóka sig í hann í Chelsea Megastore. Chelsea Museum er safnið sem gerir góða grein fyrir sögu félagsins og er hægt að kaupa miða á það sem rúsínan í pylsuenda skoðunarferðarinnar. Það kostar 13 pund að fara skoðunarferðina og á safnið. Ef menn vilja bara skoða safnið kostar það 5 pund og er það opið frá 10:30-17:00 á virkum dögum og 11:30-16:00 um helgar. Safnið inniheldur meðal annars risalíkan af Stamford Bridge svæðinu fyrir 50 árum og núna. Svo eru vaxmyndir af Feita-Willie, Roy Bentley og þeim félögum Lampard og Terry. Bikararnir eru þarna inni líka og er hægt að kaupa myndir af manni með þeim, eins eru alls kyns myndbönd og myndir af ýmsum tímabilum í sögu félagsins ásamt minjagripum frá hverju tímabili. Þetta er mikil skemmtun fyrir alla þá sem hafa einhvern áhuga á að vita hvernig Chelsea kom til og árin fyrir rússnesku byltinguna. Athugið að safnið og skoðunarferðir standa ekki til boða á leikdögum svo það er um að gera að skipuleggja ferð fyrir eða eftir leikdag. Góða skemmtun.

cfc stadium planChelsea Megastore er félagsbúð Chelsea þar sem allt er merkt Chelsea. Þegar Ken Bates byggði þessi húsakynni hafði hann aðeins eitt markmið og var það að gera félagsbúð sem yrði stærri en sú sem Manchester United eru með. Það tókst, um einhverja nokkra fermetra, en við erum semsagt stærstir og bestir þar líka. Þar er ótrúlegt úrval af Chelseavörum og oft hafa dömurnar gert grín af því að þetta er eina búðin þar sem hlutverk kynjanna virðast snúast við, mennirnir yfirkeyra kreditkortin og allt frá Chelseasleikjó til skellinöðru er hægt að setja á innkaupalistann. Ef þetta er budget-ferð er um að gera að sniðganga þessa búð. Leikmenn heimsækja þessa búð líka reglulega til að árita bækur og annað slíkt en það er yfirleitt auglýst á fréttasíðuni í Englandi. Svo er annað minna útibú Megastore við Fulham Road þar og inngang inn á hótelsvæðið. 

The Purple Club er eitt best geymda leyndarmál Chelsea Football Club. Þetta er næturklúbbur sem er á horni inngangsing inn í Shed End stúkuna og því vita ekki margir af honum nema af orðspori. Þetta er stórglæsilegur 600 manna klúbbur með VIP svæði og öllu heila klabbinu. Víðsfrægir plötusnúðar þeyta skífum þarna reglulega og þetta er vel þess virði að skoða ef menn sitja auðum höndum daginn fyrir leik eða eitthvað slíkt. Það er ekki staðfest hvenær klúbburinn er opinn en þá er bara að spyrja Joseph Reagan í Conciergedeildinni við inngang hótelsins. Yfirleitt er opið frá 22 til 2 um helgar. Stuttur en vel varinn tími eins og nokkrir klúbbmeðlimir komust að í október 2005. Aðgangseyrir er í hærra lagi, eða 15 pund en athugið að gestir hótelsins þurfa að borga aðeins 10 pund inn og svo eru verðin á barnum vel samkeppnishæf við aðra staði í London. Ef menn halda að þetta sé endastöð fyrir haugadrukkna stuðningsmenn þá er það misskilningur. Þarna er samankomið mikið af ungum og fallegum einstaklingum dansandi eins og þeir eigi lífið að leysa og hafa yfirleitt engan áhuga á knattspyrnu þótt ótrúlegt megi virðast. Vel þess virði fyrir menn að skoða ef þeir hafa áhuga á næturlífinu.

Það er semsagt nóg að hafa fyrir stafni þegar maður heimsækir Stamford Bridge og ljóst að ferð til Englands þarf ekki að snúast eingöngu um 90 mínútna skemmtun.

Upp