Aðalfundur Chelsea klúbbsins 12. nóv.

Aðalfundur Chelsea klúbbsins var haldinn á Grand Hótel Reykjavík sunnudaginn 12. nóvember sl. og var mæting með ágætum.

Eftir að formaður klúbbsins hafði boðið gesti velkomna lagði hann til að Sölvi Sveinsson, í forföllum Ingvars Viktorssonar, sæi um fundarstjórn og var það samþykkt einróma, kann stjórnin Sölva bestu þakkir fyrir að hlaupa í skarðið með litlum fyrirvara.

Helstu málefni fundarins voru þessi:

  • Formaður klúbbsins las skýrslu stjórnar vegna starfsársins 2022 – 2023.
  • Gjaldkeri klúbbsins skýrði ársreikninga vegna sama tímabils.
  • Skýrsla stjórnar og ársreikningur klúbbsins samþykkt einróma af fundarmönnum.
  • Lagabreytingar; lagt var m.a. til að fjölga í stjórn klúbbsins úr fimm manns í átta líkt og verið hafði fyrir nokkrum árum, færði formaður klúbbsins rök fyrir tillögunni og var hún samþykkt einróma.
  • Formaður klúbbsins, Karl H Hillers, endurkjörinn en hann var einn í kjöri til formanns.
  • Sjö stjórnarmenn kjörnir, þeir Freysteinn G Jóhannsson, Helgi R Magnússon, Kristján Þór  Árnason Helguson og Pétur Pétursson voru endurkjörnir en þrír nýir stjórnarmenn eru Ómar F. Sævarsson, Starkaður Ö. Arnarson og Stefán M. Ólafsson, mun stjórnin skipta með sér verkum á næsta stjórnarfundi sem haldinn verður fljótlega.
  • Kjör tveggja endurskoðenda klúbbsins og voru þeir Sölvi Sveinsson og Þórður Óskarsson endurkjörnir.
  • Í laganefnd voru Birgir O. Hillers og Friðrik Þorbjörnsson endurkjörnir, stjórn klúbbsins mun svo skipa formann laganefndar á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar.

Að lokinni lögbundinni dagskrá fór svo fram tilnefning tveggja heiðursfélaga og voru þeir heiðursmenn Guðjón Sigurðsson og Karl Emil Gunnarsson tilnefndir, samþykktir einróma af fundarheimi enda báðir vel að heiðrinum komnir.

Þá var komið að drætti í happdrætti aðalfundar sem er fastur liður, alls hlutu 15 félagsmenn vinninga af ýmsum toga.

Og venju samkvæmt voru veitingar á boðstólum í boði Chelsea klúbbsins.

Rúsínan í pylsuendanum var svo ógleymanlegur leikur Chelsea vs Manchester City er sýndur var beint frá Stamford Bridge, sannkallaður naglbítur!

Willum Þór hafði í nógu að snúast þennan annars ágæta dag, útvarpsviðtal, ríkisráðsfundur og messa á dagskrá með Grindvíkingum. Hann fann sér þó tíma til að rýna með okkur í liðið.

Stjórn Chelsea klúbbsins færir öllum þeim er komu að fundinum með einum eða öðrum hætti bestu þakkir, fundargestum, gefendum vinninga, starfsfólki Grand Hótels Reykjavíkur og Willum Þór Þórssyni, leikrýni Chelsea klúbbsins.

Lifið heil, framtíðin er björt, framtíðin er blá!

Stjórnin.

Upp