Chelsea Women, stolt Chelsea Football Club

Það eru engar ýkjur að kvennalið Chelsea Football Club er stolt félagsins um þessar mundir, þvílíkar afrekskonur!
Í dag tryggðu þær sér Englandsmeistaratitilinn fjórða árið í röð með sigri á Reading á útivelli, lokatölur 0-3 hvar tvö mörk frá Sam Kerr og eitt frá Guro Reiten innsigluðu titilinn og var það vel við hæfi enda hafa þær stöllurnar farið á kostum á keppnistímabilinu.

Englandsmeistarar 2022-2023

Og fyrir 13 dögum urðu Chelsea Women enskir bikarmeistarar þriðja árið í röð er þær unnu Manchester United Women 1-0 í úrslitaleik á Wembley leikvanginum að viðstöddum tæplega 80 þúsund áhorfendum sem er sjötta mesta aðsókn í sögu kvennaknattspyrnunnar og erum við þá að tala um á heimsvísu.

Bikarmeistarar 2023
Í mars síðastliðnum léku Chelsea Women til úrslita í ensku deildarbikarkeppninni en urðu að lúta í lægra haldi í leik þar sem þær náðu sér aldrei á strik.
Og í Meistaradeild Evrópu náði liðið alla leið í undanúrslit en töpuðu með minnsta mun fyrir Barcelona en þess má geta að með jafntefli liðanna á Camp Nou var 80 leikja samfelld sigurganga heimaliðsins stöðvuð!
Já, Emma Hayes og stúlkurnar hennar í liði Chelsea Women eiga allt hrós skilið, hvílíkt knattspyrnulið!
Innilegar hamingjuóskir Chelsea Women með frábært keppnistímabil.
Stjórnin.

Upp