Keppni: Úrvalsdeildin – 2. umferð
Tími, dagsetning: Föstudagur 22. ágúst kl:19:00
Leikvangur: London Stadium, Lundúnir
Dómari: Michael Oliver
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Bjarna Reynisson



Ef að við tökum inn í myndina £27 milljón punda skuldina við UEFA fyrir brot á reglum þeirra er varða fjármála sanngirni þá er heildar uppgjörið, samkvæmt mínum útreikningum, neikvæðar £82.9 milljónir punda. Það er ekki furða að helmingur stuðningsmanna Chelsea hafi neyðst til að gera viðskiptafræðingar og hinn helmingurinn endurskoðendur til þess að geta farið með rétt mál á kaffistofum landsins. Nálgunin út félagsskiptagluggann virðist vera einn út, einn inn. Af þeim sökum er biðin eftir Xavi Simons búinn að vera löng enda veltur hún á því að Nkunku verði seldur. Svo er það garmurinn hann Garnacho sem virðist ætla að skipta yfir til Chelsea þrátt fyrir takmarkaðan áhuga aðdáenda. Áhuginn á Nico Jackson er mikill og ritað hefur verið að framtíð hans skýrist í þessari viku. Hans fyrrum stjóri, Unai Emery, hjá Aston Villa vill ólmur vinna með honum aftur en þeir eru, líkt og við, í vandræðum hjá UEFA og geta þar af leiðandi ekki keypt hann á beinni sölu í þessum glugga. Þá eru Nottingham Forest, Newcastle, Milan liðin tvö og Juventus öll áhugasöm. Ég leyfi mér að fullyrða að það hafi komið öllum á óvart að Chelsea tryggði sér undirskrift Julio Enciso í skjóli nætur, aðfaranótt fimmtudags. Engir orðrómar voru á sveimi um þessi félagsskipti. Klúbburinn hyggst lána hann út tímabilið til Strasbourg en fréttir herma að hann muni svo verða partur af aðalliðinu hjá Chelsea á næsta tímabili. £17.3 milljónir reyndist of gott markaðstækifæri enda hæfileikaríkur 21 árs gamall miðjumaður sem að er með 57 leiki undir beltinu í ensku Úrvalsdeildinni. Sex mörk og sjö stoðsendingar þykir þá ágætis tölfræði fyrir ungan mann. Það glæsilegasta kom líklega á móti Chelsea 22/23 tímabilið á Brúnni þegar hann smurði boltann snyrtilega upp í vinstri samskeytin af 32 metra færi. Hlakka til að sjá hann skora sambærileg mörk fyrir okkur.
Wesley Fofana er á milli tannana á mörgum um þessar mundir í kjölfar þess að hann eyddi öllu Chelsea tengdu af Instagram aðganginum sínum. Öll erum við sammála um að tímasetningin á þessum verknaði er stórfurðulegur og túlkuðu flestir þetta sem að kauði væri hreinlega á útleið enda meiðslapési á háum launum þarna á ferð. Ég hef miklar mætur á honum og fannst hann og Colwill mynda sterkt miðvarðapar á síðustu leiktíð í þeim fáu leikjum sem að þeir léku saman. Það gladdi mig því að Fofana birti mynd í sögunni sinni til að sefa múginn með yfirskriftinni “einbeitum okkur að föstudeginum”. Maresca tók í sama streng og sagði að Fofana er ánægður hjá Chelsea og þó að stjórinn er með efasemdir um ágæti Fofana til að leysa stöðuna hans Colwill þá trúir hann að Wes sé mikilvægur leikmaður fyrir klúbbinn.
Það var erfitt áhorfið á fyrsta leik tímabilsins þar sem að gífurlega vel skipulagt lið Crystal Palace náði að knýja fram markalaust jafntefli. Það var ekki mikil vigt í sókninni enda lokuðu vængmenn Palace, Eze og Sarr vel á sendingarleiðirnar frá bakvörðum okkar upp á Cucurella og Enzo. Þá lokaði Mateta sendingarleiðinni á Caicedo og fyrir vikið náði Palace að neyða okkur mikið út á kantana þar sem þeir áttu auðvelt með að tvöfalda á Neto og Gittens. Leikurinn var heilt yfir bragðdaufur, en vottaði af kryddi þegar að Estevao og Delap komu inn á af bekknum. Alltaf gott að halda hreinu og sér í lagi þegar það vantar okkar besta miðvörð. Hinn ungi Josh Acheampong fékk það verkefni að fylla í hans skó og gerði það þokkalega að mínu mati. 93% hlutfall af heppnuðum sendingum (81/87), fimm hreinsanir, vann níu af 12 einvígjum sínum og fimm af sjö skalla einvígjunum. Hann á klárlega bjarta framtíð fyrir sér en þrátt fyrir fína frammistöðu þá söknuðum við Colwill og getu hans í að brjóta línurnar með hárfínum sendingum. Maresca gerði sína fyrstu skiptingu snemma í leiknum þegar hann tók Gittens útaf fyrir Estevao en taktísktlega séð fann hann ekki lausnir til að brjótast gegnum vörn Palace. Pattstaða í refsskákinni gegn Glasner.
West Ham skrapp í heimsókn til Sunderland í fyrsta leik tímabilsins og voru rassskelltir með þremur mörkum gegn engu. Alvöru skellur í kjölfar af ágætis fimm leikja undirbúning tímabili hjá Hömrunum þar sem þeir höfðu betur gegn Everton, Bournemouth og Grasshoppers, gerðu jafntefli við Lille en lutu lægra haldi gegn Manchester United. Meirihluti þessa leikja var partur af Sumarseríu Úrvalsdeildarinnar, en West Ham endaði í öðru sæti. Þess má til gamans geta að okkar menn unnu þessa keppni síðast þegar hún var haldin, sumarið 2023. Það var mikill missir fyrir Hamrana að missa Mohammed Kudus til Spurs í glugganum og einnig var fjölmörgum samningum leikmanna, sem höfðu verið í mikilvægum hlutverkum innan klúbbsins, leyft að renna út. Þar má helst nefna Vladimir Coufal, Kurt Zouma, Danny Ings, Michail Antonio, Aaron Cresswell og Lukasz Fabianski. Til að fylla í þessi skörð fengu þeir inn framherjann Callum Wilson og einnig styrktu þeir sig mikið hægra megin í vörninni með komu Jean-Clair Todibo, Kyle Walker-Peters og El Hadji Malick Diouf. Á milli stanganna hjá þeim hlaut nýji maðurinn Mads Hermansen traust okkar gamla stjóra, Graham Potter. Það kom á kostnað Areola sem er án efa með mest kynæsandi nafn í ensku deildinni. Þrátt fyrir að Hermansen féll með Leicester á síðustu leiktíð þá á ég súrar minningar af honum að eiga stjörnu leik gegn Chelsea þar sem hann varði meðal annars vítaspyrnu frá Cole Palmer, fyrstur manna í Úrvalsdeildinni. Okkar menn verða áfram þunnskipaðir í miðvarðastöðunni en Badiashile, Colwill og Tosin verma allir meiðsla listann ásamt Romeo Lavia. West Ham verður þá einungis án tveggja leikmanna, Guilherme og Summerville. Því liggur mikið móð á Jarrod Bowen að láta hlutina gerast fyrir Hamrana, en hann er klárlega þeirra skeinuhættasti maður. Annar sem við þurfum að varast er aukaspyrnu sérfræðingurinn James Ward-Prowse sem er einu aukaspyrnu marki frá því að jafna met David Beckham sem situr á 18 stykkjum. Mikilvægt fyrir varnarlína að vera skynsamir og spila ekki upp í styrkleika West Ham.
Þegar hæfileikarnir eru augljósir, sjálfstraustið í botni og hungrið mikið þá á að hamra járnið meðan það er heitt. Ég trúi því heilshugar að Estevao sé tilbúinn og ætti að byrja inná gegn Hömrunum. Þrátt fyrir að vera yngri heldur en Gittens þá tel ég hann vera betur í stakk búinn til að keppa í ensku Úrvalsdeildinni. Að því sögðu þá myndi ég einungis gera þessa einu breytingu á uppstillingunni á liðinu frá síðasta leik. Estevao á hægri kantinum og Pedro Neto á þeim vinstri, á kostnað Jamie Gittens sem tekur sæti á bekknum. Sanchez á sínum stað í markinu, Reece James, Acheampong, Chalobah og Cucurella honum til halds og trausts. Caicedo og Enzo þar fyrir framan með Cole Palmer í tíunni og Joao Pedro uppi á topp. Mín spá er 3 – 0 sigur þar af tvö frá Palmer og að Estevao skori sitt fyrsta Úrvalsdeildar mark fyrir klúbbinn. Takk fyrir lesninguna og áfram Chelsea!!
Við viljum svo minna fólk á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi, sérstaklega ef þið lesendur góðir hafið áhuga á að fara á leiki með Chelsea í vetur, þá er Chelsea klúbburinn besti milligönguliðurinn með að útvega miða. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is
Að lokum viljum við minna á að vinir okkar í Blákastinu settu í loftið sinn fyrsta þátt á tímabilinu í vikunni. Þar var farið vandlega yfir sumarið og það sem er framundan, bæði hjá Chelsea, en einnig hjá Chelsea klúbbnum og Blákastinu, en framundan er ferð á Chelsealeik. Við hvetjum ykkur öll til að hlusta og fylgjast vel með. Þið finnið Blákastið á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Birt með góðfúslegu leyfir cfc.is
https://www.cfc.is/post/west-ham-gegn-chelsea