Vonir og væntingar – Leiktímabil Chelsea 2014-2015

Nú stendur yfir eitthvert leiðinlegasta landsleikjahlé í manna minnum, enska úrvalsdeildin var loksins komin á fullt og þrjár skemmtilegar umferðir búnar. Þá er ágætt að nýta tímann og velta aðeins komandi tímabili fyrir sér. Líkt og síðastliðin tvö ár ætla ég að meta stöðuna,  andstæðingana og Chelsea liðið í heild sinni en það er ágætt að gera þetta núna þegar leikmannaglugginn er lokaður og komin endanleg mynd á liðin í deildinni. 

Síðasta tímabil
Hver einasti Chelsea maður getur rifjað upp hversu glaður hann var þegar hann sá Jose Mourinho stíga fæti inn á Stamford Bridge þann 18. ágúst 2013. Hinn Sérstaki var mættur aftur – hann var kominn heim.

Síðasta tímabil í heild sinni var þó alls enginn dans á rósum fyrir okkur stuðningsmennina, okkur tókst að styrkja okkur vel sumarið 2013 með mönnum eins og Willian og Schurrle en það var ekkert leyndarmál að Jose Mourinho þráði það að ná í eitt nafn í viðbót, Wayne Rooney. Jose lagði allt í sölurnar til þess að ná í Rooney sem hafði farið að rífast við Sir Alex Ferguson rétt áður en sá síðarnefndi hætti sem stjóri Man Utd. Að lokum varð þó ekkert úr þessum kaupum og undir lok leikmannagluggans fengum við til okkar Samuel Eto‘o. Kaupin á Eto‘o urðu svo til þess að Romelu Lukaku fór á lán til Everton – sú leikflétta átti eftir að bíta okkur í rassinn þar sem Lukaku skoraði 15 mörk og leiddi línuna í sterku liði Everton sem endaði í 5. sæti. Eftir á að hyggja hefði verið betra að halda Lukaku og sleppa því að fá Eto‘o, þó hann hafi átt fína spretti inn á milli síðastliðinn vetur.

Við munum öll eftir síðasta tímabili og því óþarfi að greina það í öreindir. Stutta sagan er sú að liðið lék sína bestu leiki gegn „stóru“ liðunum en átti svo í erfiðleikum með að sigra hina svokölluðu minni spámenn – sérstaklega þegar fór að líða á leiktímabilið. Töpuð stig gegn Crystal Palace, West Brom, Sunderland og Norwich kostuðu okkur einfaldlega titilinn. Það sást best þegar okkar menn voru á síðasta korteri leikja að reyna ná inn þessu dýrmæta sigurmarki hvað okkur þyrsti í heimsklassa sókarmann sem gat fengið lélega fyrirgjöf inn í vítateiginn en samt náð að breyta henni í mark á ögurstundu – rétt eins og Didier Drogba gerði fyrir okkur í átta ár.

Mögulega er þetta einföldun á stærra vandamáli því oft á tíðum var sóknaruppbygging Chelsea alltof hæg og fyrirsjáanleg, annað vandamál var svo að liðið treysti alltof mikið á Eden Hazard. Ef þetta er skoðað út frá tölfræði  þá skoruðu framherjar Chelsea einungis 19 mörk í 38 leikjum á síðasta tímabili. Ef við berum þetta saman við Man City (Aguero, Dzeko, Negredo) þá skoruðu framherjar þeirra 42 mörk og framherjar Liverpool (Suarez, Sturridge, Sterling) gerðu með sér 61 mark!

Niðurstaða síðasta tímabils var 3. sæti í Úrvalsdeildinni og undanúrslit í Meistaradeild þar sem við fórum illa að ráði okkar í heimaleiknum gegn Atletico Madrid. Það voru batamerki á liðinu frá árinu áður en engu að síður ljóst að það þyrfti að spassla rækilega í nokkur göt í leikmannahópnum ef við áttum ekki að upplifa annað titlalausa tímabilið í röð.

Leikmannaglugginn

Allir aðdáendur Chelsea vita að Jose Mourinho er snillingur og hann sýndi það enn og aftur í sumar. Móri eyddi engum tíma í vitleysu og þegar júlí var rétt rúmlega hálfnaður var Chelsea búið að gera þrjú virkilega góð kaup í þeim Diego Costa, Cecs Fabregas og Filipe Luis. Verðum að hrósa Emenelo, Gourley og co. fyrir þá vinnu.

En það hafa ekki bara leikmenn komið, það má segja að það séu ákveðin kynslóðaskipti sem séu endanlega að taka yfir á þessu tímabili. Chelsea horfir á eftir sennilega  besta leikmanni í sögu félagins í Frank Lampard. Höfundur gæti skrifað heila mastersritgerð um dálæti sitt á þeim leikmanni en ætla að láta það næga að þakka honum kærlega fyrir allar gleðistundirnar. Auðvitað hryggir það mann örlítið að þurfa horfa á Super Frank í Man City búningi en svona er nú þessi blessaði fótbolti og gleymum ekki að það er ekki varanlegt ástand, Lampard fer þangað einungis í nokkra mánuði. Lampard er og verður alltaf Chelsea legend.

Einnig missum við besta vinstri bakvörð í sögu félagsins en Ashley Cole náði sér aldrei á strik í fyrra og fékk þar af leiðandi ekki nýjan samning, óskum honum góðs gengis í Rómarborg.

Þeir leikmenn sem Chelsea hefur svo selt til annara liða eru nokkrir, helst ber þar að nefna hinn litríka David Luiz sem maður var annað hvort að elska eða pirrast út í allan hans leikferil með Chelsea. Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst okkur að selja hann á 48 milljónir punda til PSG – sannarlega góður díll þar.

Við fengum svo 28 milljónir punda fyrir Lukaku sem verður að teljast ásættanlegt.

Ef við skoðum heildarviðskiptin í sumar að þá lítur þetta svona út (lán ekki innifalin nema í tilfelli Torres):

Leikmenn inn:

  • Diego Costa – £32 milljónir
  • Cesc Fabregas – £27 milljónir 
  • Filipe Luis – £15.8 milljónir
  • Loic Remy – £10.5 milljónir
  • Mario Pasalic – £1.5 milljónir
  • Didier Drogba – £0 (free)

Leikmenn út:

  • David Luiz – £48 milljónir
  • Romelu Lukaku – £28 milljónir
  • Demba Ba – £4.8 milljónir
  • Fernandi Torres – (Tveggja ára lán)
  • Ashley Cole – £0 (free)
  • Frank Lampard – £0 (free)
  • Samuel Eto’o – £0 (free)
  • Michael Essien – £0 (free)

 

Ef við greinum aðeins þessi viðskipti að þá erum við að kaupa leikmenn fyrir £86,8 milljónir en selja fyrir £ 80,8 milljónir punda. Fyrir mér er þetta nánast lyginni líkast því það blasir við að við erum að styrkja liðið umtalsvert og hópurinn í ár sterkari en árin undan, þess ber líka að geta að Chelsea kom einnig út í hagnaði í janúarglugganum með sölum á Kevin De Bruyne og Juan Mata. Inn í þessi viðskipti spila hinar nýju FIFA reglur sem kveða á um „Financial fair-play“, en með þessum sölum er Chelsea í einkar góðum málum, ólíkt t.d. PSG, Barcelona og Man City.

Eins og fyrr segir er hópurinn í dag er sterkari en sá sem hóf leik haustið 2013 því ofan á þessi kaup bætast svo Thibaut Courtois og Kourt Zouma sem snúa til baka úr láni auk þess sem við gerðum frábær kaup í janúar í Nemanja Matic og fengum þá einnig spennandi vængmann í Mo Salah.

Á lokadögum leikmannagluggans fóru svo viðskipti í gang sem sáu Fernando Torres fara á tveggja ára láni til AC Milan og mun þá enda samning sinn við Chelsea í Milan treyju. Í staðinn var gengið frá kaupum á franska framherjanum Loic Remy. Remy er ekki dýr kaup, aðeins 10 milljónir punda, en hann var með klásúlu í samningi sem gerði þessi kaup að veruleika.

Að lokum verðum við svo að minnast á þau stórkostlegu tíðindi að sjálfur Didier Drogba sé kominn aftur á Stamford Bridge. Auðvitað er hann orðinn nokkuð gamall og líklega mun hann ekki skora nærri því jafnmikið af mörkum og hér áður fyrr en persónuleikinn, sigurviljinn og Chelsea hjartað skín úr Drogba sem aldrei fyrr svo hann er ekki síður mikilvægur í búningsklefanum eftir að stórir karakterar eins og Lampard og Cole eru horfnir á braut.

Í heildina er þetta einhver besti leikmannagluggi sem Chelsea hefur náð í gegn undanfarin ár. Það er greinilega að Móri fór með skýr markmið inn í sumarið, vann hratt og vel sem að lokum skilaði þessari niðurstöðu. Þetta sést best á því að allir þrír framherjar síðasta tímabils eru horfnir á braut og aðrir þrír komnir í staðinn.

 

Byrjunarlið og taktík

Það er alveg ljóst að Mourinho þarf að hafa sig allan við til þess að halda leikmannahópnum sæmilega ánægðum. Mourinho hefur líka yfirleitt verið þannig stjóri að hann gerir ekki miklar breytingar á sigurliði, hópurinn er það breiður og mikið af gæðaleikmönnum að það munu einhverjir leikmenn verða hundfúlir, t.d. var Mo Salah ekki einu sinni í 18 manna leikmannahóp liðsins gegn Leicester City á dögunum.

Ef við byrjum á markmannsstöðunni að þá hefur Mourinho þegar tekið eina risavaxna ákvörðun. Tékkneska goðsögnin, Petr Cech, er kominn á bekkinn. Hinn efnilegi Thibaut Courtois fékk traustið og ef marka má fyrstu leikina er hann ekki að fara gefa þessa stöðu neitt eftir. Sagan á það til að endurtaka sig, fyrir 10 árum síðan, er Mourinho var á sínu fyrsta tímabili með CFC vorum við með frábæran byrjunarliðsmarkmann í Carlo Cudicini. Það sumar kom Petr Cech til Chelsea, 22 ára gamall, frekar óþekktur og aðeins með reynslu úr miðlungsliði (Rennes) í frönsku deildinni. Þá tók Mourinho þessa sömu ákvörðun – að gefa yngri markverðinum traustið. Eflaust spilar þarna inn í að Courtois  á ekki nema tvö ár eftir að samningi sínum við CFC og ef hann hefði tekið annað tímabil á láni hefði það líklega þýtt að við hefðum neyðst til að selja hann næsta sumar. Höfum samt í huga að þó Courtois sé ungur þá er hann afar farsælll og reynslumikill miðað við aldur. Hann hefur unnið bæði La Liga á Spáni og Evrópudeildina auk þess sem hann spilaði á HM með Belgíu og úrslitaleik Meistaradeildarinnar sl. vor.  

Í vörninni er ekki minni samkeppni, sérstaklega um stöðu bakvarðanna. Cesar „Dave“ Azpilicueta átti stórkostleg tímabil í fyrra og tókst að slá út sjálfan Ashley Cole þrátt fyrir að vera réttfættur. Í sumar splæsti svo Chelsea í Filipe Luis, vinstri bakvörð, sem spilaði frábærlega með Atletico Madrid í fyrra. Margir spáðu því að Dave myndi fara í hægri bakvörð og Luis í þann vinstri og sjálfur Ivanovic færi á bekkinn. Ef eitthvað er að marka þessar fyrstu umferðir mótsins  þá er þetta ekki að fara að gerast. Ivanovic er búinn að vera frábær í fyrstu leikjum liðsins og ætlar ekki að gefa sitt sæti eftir án baráttu – svo má ekki gleyma því að Ivanovic var sá leikmaður sem byrjaði flesta leiki allra leikmanna Chelsea í fyrra, hann er maðurinn hans Mourinho og verður meira og minna í liðinu í vetur, sérstaklega í ljósi þess að hann getur leyst stöðu miðvarðar þegar svo ber undir. Talandi um miðverðina að þá höfum við sjálfvalið fyrsta miðvarðapar í Terry og Cahill. Þeir voru klárlega besta varnarhjartað á síðustu leiktíð og er skilningurinn á milli þeirra frábær. Terry er hins vegar að eldast og þarf sína hvíld reglulega, þegar svo ber undir höfum við þann valkost að gefa Kourt Zoma sénsinn eða þá færa títtnefndan Ivanovic í miðvörðinn. Zouma er efnilegur leikmaður en ansi hrár, það sást best á undirbúningstímabilinu að hann á svolítið í land til þess að geta axlað mikla ábyrgð. Andreas Christiansen og Nathan Ake munu svo verða aukaleikarar í vetur og koma líklega ekki til með að spila marga leiki, nema kannski í Deildabikarnum.

Það er eins með miðjuna og vörnina, þar eigum mikið af flottum leikmönnum. Þeir sem koma til með að spila mest eru líklega Matic og Fabregas. Sá síðarnefndi hefur þegar sýnt snilli sína frá því að hann kom frá Barcelona og Nemanja Matic passaði við Chelsea eins og flís við rass er hann kom aftur til félagins frá Benfica í janúar síðastliðnum. Þá er ein laus staða eftir á miðri miðjunni – um hana berjast líklega Ramires og Oscar. Í raun má segja að sú barátta ráðist af því hvaða leikkerfi við spilum eða þá hver andstæðingurinn er. Ef t.d. við erum að spila við Man City á útivelli er líklegra að Ramires fái kallið en ef við eigum leiki eins og á móti Leicester City um daginn að þá eru meiri líkur á að Oscar verði fyrir valinu. Stórvinur okkar allra, John Obi Mikel, veitir svo aðhald fyrir þessa leikmenn en er býsna fjarri því að komast í liðið þegar þetta er ritað. Það skal samt enginn vanmeta Obi Mikel, á hverju hausti spáir maður því að hann muni spila lítið á komandi tímabili en alltaf endar hann með að spila fullt af leikjum og oftast þá stærstu.

Í vængmannastöðunum er málið í raun mjög einfalt, við höfum 4 vængmenn, einn er stórkostlegur leikmaður og hinir þrír eru allir mjög góðir. Samkeppnin er því mikil en hafa ber í huga að þetta eru sennilega þær stöður sem „róterast“ hvað mest leik frá leik. Eden Hazard er þó með áskrift að byrjunarliðssæti, það er bara þannig – Heimsmeistarinn Schurrle hefur verið að fá kallið í upphafi móts  og staðið sig vel en Willian hefur verið að koma sprækur inn af bekknum. Mo Salah þarf svo að bíða þolinmóður eftir sínu tækifæri og grípa það er það kemur, hann sýndi það á síðasta tímabili að það er heilmikið í hann spunið.

Að lokum er það svo framherjastaðan. Þar er líklega minnsta samkeppnin. Diego Costa er og verður framherji nr. 1 hjá Chelsea. Hann hefur farið frábærlega af stað og eru þessar 32 milljónir punda gjafaverð fyrir framherja í þessum gæðaflokki. Það er ekki bara að hann skori mörk heldur skapar hann mikið pláss fyrir menn eins og Hazard og heldur boltanum mjög vel uppi á síðasta þriðjungi vallarins – eitthvað sem við höfum ekki haft síðan að Drogba fór. Einu áhyggjurnar sem maður hefur að honum er að við treystum sennilega of mikið á hann og að hann hefur verið í baráttu við meiðsli alveg frá því í vor.

Þá kemur inn leikmaður að nafni Loic Remy – þá má velta fyrir sér hvort Mourinho hafi reynt að losa sig við Torres eða hvort Torres hafi verið að reyna að komast í burtu undir lok gluggans, alla vega þá þróuðust málin þannig að Remy kom inn og á að berjast við Costa um framherjastöðuna. Það góða við Remy er að hann hefur sannað sig sem markaskorari í Úrvalsdeildinni. Hann skoraði 14 mörk í 26 leikjum í fyrra fyrir Newcastle og var þeirra besti maður. Hins vegar verður að setja spurningarmerki við þennan farsa sem var í kringum hann er Liverpool hætti við að kaupa hann á síðustu stundu fyrr í sumar og sögðu að hann hefði fallið á læknisskoðun og einhverjar orðrómar voru um að Remy væri með hjartagalla. Alla vega hafa læknar Chelsea gefið grænt ljós og verður gaman að sjá Remy koma inn í liðið og fá að sanna sig hjá risaklúbbi, eitthvað sem hann hefur stefnt að lengi.

Didier Drogba er svo auðvitað kominn aftur en það er spurning hversu mikið hann á eftir á tankinum, líklegt er að hann muni spila þessa „minni“ leiki en getur líka reynst mikilvægur að koma inn í leiki þegar við erum að „elta“ leiki og berjast við að ná inn jöfnunar- eða sigurmarki, því hættulegri framherji er vandfundinn inni í teig andstæðingana. 

Heilt yfir hefur Chelsea á að skipa frábærum leikmannahópi með mikla breidd og ógnarsterku byrjunarliði. Miðað við fyrstu umferðir mótsins hefur leikur liðsins breyst töluvert frá því í fyrra og á Cesc Fabregas mestan heiðurinn af því. Uppspilið fer nánast allt í gegnum hann og stjórnar hann „tempóinu“ í leik okkar af mikilli list.  Þetta hefur þýtt að spil okkar er orðið töluvert hraðara á síðasta þriðjungi vallarins og skapað þar með meiri hættu þegar „minni“ lið koma og pakka í vörn á móti okkur – eitthvað sem við réðum illa við í fyrra.

1Í fyrstu tveimur leikjum í deildarinnar, gegn Burnley og Leicester, vorum við með um 60-65% ball possesion og um 600 sendingar í hvorum leik og mjög hátt hlutfall sendinga á vallarhelmingi andstæðinga. Svo höfum við núna góðan odd á spjótinu í Diego Costa sem virðist geta klárað hvers lags færi. Kaupin á Costa og Fabregas hafa tekið ábyrgð af herðum Eden Hazard sem mun væntanlega þýða að hann fær meira pláss á vellinum og verður ennþá hættulegri fyrir vikið, en þetta eru leikir sem við eigum að vinna og í þeim leikjum lítur liðið líklega út einhvern veginn svona:

Leikaðferðin er í þessu tilfelli 4-2-3-1 þar sem Hazard, Schurrle og Oscar mynda þriggja manna sóknartengliliðs línu fyrir aftan Costa. Fabregas stjórnar svo spilinu á miðjunni á meðan Matic verndar fjögurra manna varnarlínu. Ekki amalegt það.

En Chelsea mun ekki bara spila „auðvelda“ leiki í vetur. Á Anfield, Etihad, Emirates og jafnvel White Hart Lane og Old Trafford munum við líklegast spila öðruvísi og þá meira varnarsinnað. Við sáum öll hvað Móri gerði á Anfield á síðasta tímabili og í fyrri leiknum gegn Atletico í Meistaradeildinni, hann drap tempóið í leikjunum, lét liðið verjast mjög aftarlega og freistaði þess að sækja hratt á fáum mönnum. Einn okkar besti leikur á liðnu tímabili var gegn Man City á Etihad, þar vorum við „underdogs“ og mættum til leiks með varnarsinnað lið sem meðal annars innihélt Ramires á hægri vængnum. Þó að leikurinn hafi bara endað 1-0 áttum við sigurinn mjög skilið og áttum í raun að skora fleiri mörk en þá gekk leikplanið fullkomlega upp. Það hefur svo verið æðislega gaman að pirra hvern einasta Liverpool mann frá því að við mættum á Anfield með mjög laskað lið – vörðumst eins og ljón og sigruðum Poolarana örugglega 2-0. Fyrra markið var sérlega eftirminnilegt því þá gerðist þetta –> 2

En að öllu gríni slepptu að þá megum við alveg búa okkur undir það að Mourinho liggi til baka og beiti skyndisóknum í stóru leikjunum líkt og hann gerði á síðasta tímabili, höfum það líka hugfast að Chelsea náði frábærum árangri á síðasta tímabili gegn hinum „stóru“ liðunum og t.d. unnum við bæði heima- og útileikina  gegn Man City og Liverpool. Þegar svo ber undir mun Chelsea líklegast mæta svona til leiks:

3Breytingin er í raun að Fagregas fer efst á miðjuna og Ramires dettur fyrir aftan hann með Matic, sú breyting gefur liðinu auðvitað meiri vigt í vörninni þar sem Ramires er þessi box to box miðjumaður sem verst mjög vel. Þetta er nokkurn veginn það lið sem spilaði á móti Everton í þriðju umferðinni og þá sáum við að liðið lá oft mjög aftarlega (sérstaklega í fyrri hálfleik) og sótti hratt þar sem lið eins og Everton vill verjast hátt á vellinum og hafa mikið „ball possesion“. Reyndar er mjög erfitt að dæma nokkuð af þessum Everton leik því hann var auðvitað alveg sturlaður eins og markaskorið í þeim leik segir til um eða 3-6.

Að lokum held ég að Ivanovic muni alltaf byrja þessa stóru leiki. Eflaust væri líka hægt að ímynda sér að Obi Mikel gæti átt sæti í svona leikjum eins og hann hefur alltaf átt í fortíðinni. En þetta lið mun liggja aftar og Willian og Hazard eru duglegir að detta til baka og hjálpa til en um leið vera mjög snöggir fram í skyndisóknir þegar þau færi gefast.

Spá og væntingar

Það er nokkuð ljóst að Chelsea þarf ekki að óttast neitt lið, hópurinn er það sterkur að við eigum ekki að þurfa þess. Það er mikið lykilatriði að Diego Costa haldist heill og að Terry taki ekki upp á því að fá þursabit eða eitthvað álíka. Liðin sem eru okkar mestu andstæðingar eru ekki með betra byrjunarlið en við, mögulega jafngóð, en ekki betri.

Man City mun alltaf vera í efstu þremur sætunum en þeir hafa styrkt sig í sumar með kaupum á leikmönnum eins Mangala, Fernando, Sagna og Willy Caballero. Þeir misstu ekki mikið en þó fór Negredo til Valencia á lokadegi gluggans. City eru sterkari en í fyrra, alla vega á pappírnum. 

Liverpool misstu auðvitað Suarez en hafa aukið breidd sína verulega þrátt fyrir það, Balotelli, Lallana, Lovren, Moreno og Markovic eru allt mjög stór kaup en fróðlegt verður að sjá hvernig þeir höndla Meistaradeildina og fjarveru Suarez – sem var langbesti maður mótsins í fyrra.

Stórvinur okkar allra Arsene Wenger hefur loksins brotið odd af oflæti sínu og ákveðið að byrja að versla inn leikmenn. Hann gerði líklega frábær kaup í Alexis Sanchez og svo verður gaman að sjá hvernig Danny Welbeck mun standa sig hjá Gunners. Arsenal hafa lengi verið að glíma við mikið af meiðslum, það hefur oftar en ekki sett strik í reikninginn hjá þeim, ef lykilmenn eins og Ramsey, Özil, Walcott og Kosnielny haldast heilir þá ættu þeir að geta barist um titilinn í ár.

Man$chester United eru svo allt í einu orðnir svakalegt spurningarmerki. Byrjunin hjá þeim hefur verið mjög slæm en á móti voru þeir það lið sem eyddi mestum fjárhæðum í leikmannaglugganum og slógu meira að segja hið vafasama met okkar Chelsea manna um dýrustu kaup Bretlands með því að kaupa Angel Di Maria á 60 milljónir punda. Fyrir voru þeir búnir að kaupa Shaw, Herrera, Rojo og Daley Blind. Á lokadeginum drógu þeir svo kanínu upp úr hattinum og fengu engan annan en Radamel Falcao á láni frá Monaco í eitt ár.

Eins og fyrr segir er allt morandi í spurningamerkjum í kringum Man Utd en það verður mjög áhugavert að sjá hvort Louis van Gaal haldi sig við 3-5-2 og hvernig hann muni láta menn eins og Rooney, Persie, Mata, Di Maria og Falcao spila alla í sama liðinu.

Niðurlag

Mourinho hefur sjálfur sagt það að Chelsea liðið sé reiðubúið að slást um alla titla sem í boði eru og titill er klárlega það sem maður vill sjá á þessu tímabili. Það er engu að síður ósanngjarnt að skipa liðinu hreinlega að verða meistarar, samkeppnin er svo hörð, en þó verður að segjast að allt fyrir neðan efstu tvö sætin væri einfaldlega vonbrigði.

Hvað Meistaradeildina varðar að þá eru Barcelona, Real Madrid og Bayern líklega ennþá einu eða tveimur skrefum á undan okkur þegar kemur að leikmannahópnum. Meistaradeildin er nú samt bara þannig að allt getur gerst og oft vinnur ekki „besta“ liðið hana. Það væri í raun bara frábært að komast aftur í undanúrslit og sjá svo hvað myndi gerast. 

Að lokum er svo Chelsea mikið bikarlið og vil ég sjá okkur gera alvöru atlögu að bæði Deildabikarnum og FA bikarnum, mest að öllu vil ég þó að við vinnum ensku úrvalsdeildina – við eigum góða möguleika á því!

Eitt og hálft klapp til ykkar sem höfðuð þolinmæði í að lesa þetta allt saman.

Bara eitt að lokum – Keep the blue flag flying high.

Jóhann Már Helgason, stuðningsmaður Chelsea.

 
Upp