Í kvöld leika Chelsea Ladies gegn Bristol City Women í WSL 1 deildinni (Úrvalsdeild kvenna) og tapi okkar stúlkur ekki leiknum tryggja þær sér Englandsmeistaratitilinn í ár en stúlkurnar eru nýbakaðar bikarmeistarar, unnu Arsenal fyrir skemmstu í bráðfjörugum leik á Wembley ( 3-1 ) að viðstöddum yfir 45000 áhorfendum, þar á meðal voru nokkrir Íslendingar. Leikurinn er sýndur beint á BT Sport og hefst hann kl. 18:00.
Minnum svo á að vorhappdrætti Chelsea klúbbsins er nú í fullum gangi og líkt og undanfarin ár er það sama gamla góða fyrirkomulagið, fyrir hvern fimm hundruð kall sem þú leggur inn á reikning Chelsea klúbbsins færðu nafn þitt skráð einu sinni í happdrættispottinn góða en að sjálfsögðu er þér heimilt að reiða eins marga fimm hundruð kalla af hendi og þér lystir, t.d. færðu nafnið þitt skráð einu sinni ef þú greiðir kr. 500.-, fimm sinnum ef þú greiðir kr. 2500.-, tíu sinnum ef þú greiðir kr. 5.000.- o.s.frv.
Reikningsnúmer klúbbsins er 0117-26-003840, kt. 690802-3840, vinsamlegast tilgreinið HAPPDRÆTTI í tilvísun og kennitölu ykkar í GREIÐANDI.
Á meðal vinninga má nefna Yokohama dekkjaumgang undir bílinn í boði Dekkjahallarinnar, Chelsea keppnistreyju, árituð af leikmönnum Chelsea, einnig Chelsea fótbolta, sömuleiðis áritaður af leikmönnum Chelsea, gjafabréf frá Gaman Ferðum, gjafabréf frá Kjötsmiðjunni, Chelsea varning frá Marko-Merkjum, gjafabréf frá Kormáki & Skildi, gjafabréf frá American Bar o.fl. o.fl.
Dregið verður í happdrættinu á félagsfundi sem verður haldinn í Ölveri laugardaginn 26. maí n.k.
Nánar um vinninga og félagsfundinn á næstunni.
Minnum einnig á að nú hefur verið opnað fyrir endurnýjanir og nýskráningar í Chelsea klúbbinn!