Úrslitaleikur við PSG

    Keppni: FIFA Club World Cup

    Tími, dagsetning: Sunnudagur 13. júlí  kl: 19:00

    Leikvangur: MetLife Stadium, New Jersey 

    Dómari: Alireza Faghani (Íran/Ástralía)

    Hvar sýndur: DAZN

    Upphitun eftir: Hafstein Árnason

    Það er alltaf nóg að vera í kringum Chelsea. Leikmannamarkaðurinn er virkur og framundan er síðasti leikur tímabilsins. Þær fréttir bárust núna í gær að Noni Madueke verður ekki með í næsta leik, þar sem hann er á leiðinni til Lundúna í læknisskoðun, til að formalísera vistaskipti til Arsenal fyrir 50 milljónir punda og mögulega tveggja annara í formi klásúlubónusa. Það er einhver kaldhæðni fólgin í því að missa af titli og fara til Arsenal. Þeir á skrifstofuni hafa einnig verið uppteknir að klára sölu á serbneska blóminu, Dordje Petrovic, en þó ekki til Sunderland, eins og áður var talið, heldur til Bournemouth fyrir litlar 25 milljónir punda. Það færir hagnað í bókhaldið stuðningsmönnum annarra lið til ómældrar óánægju. Marc Guiu hefur svo hafnað því að fara til Ipswich eins og það leit út fyrir. Hann vill ekki leika í Championship deildinni sem pistlahöfundur telur misráðna ákvörðun, sérstaklega í ljósi þess hversu deildin er sterk, þrátt fyrir að vera næsta deild undir Úrvalsdeildinni. Aðrir frambærilegir framherjar gengu í gegnum þann ágæta skóla, og þar má nefna Harry Kane. Filip Jörgensen hafnaði því einnig að fara til Strasbourg sem segir okkur í raun, að Maresca metur hann ekkert sérstaklega vel. Það hefur þó þýtt að Mike Penders fer í staðinn, sem í sjálfu sér er mjög jákvætt, því þessi efnilegi markvörður þarf mínútur á leikvellinum.

    Það bárust einnig fréttir í vikunni að AC Milan væru að kanna möguleika á því að kaupa Nicolas Jackson. Því var svarað strax að hann myndi kosta 100 milljónir, með litla fingur að neðri vör, eins og Dr. Evil í Austin Powers myndunum. Við vitum öll að Nico Jackson er ekki þess virði, en þetta sendir út þau skilaboð, að hann hafi hlutverk í liðinu á næsta tímabili. Líklega hefur tölvupósturinn til Milan innihaldið skilaboðin „non si tocca“, sem þýðir – ekki snerta. Af öðrum leikmönnum er lítið að frétta, nema fabúleringar að Tyrique George og Josh Acheampong eru spekúleraðir fyrir lánsdvalir en það er ekkert fast í hendi með það, eins og staðan er nú.

    Á MetLife-leikvangi í New Jersey, þar sem sólsetrið brennur í bláum og gullnum litum eins og ævaforn spádómur, mun 13. júlí 2025 verða dagurinn þegar Chelsea, bláa hjarta Lundúna, mætir Paris Saint-Germain, glóandi stjörnu Frakklands, í úrslitaleik FIFA Club World Cup. Þessi leikur er ekki aðeins barátta um bikar, heldur töfrandi saga, ofin úr þrá, örlögum og minningum, þar sem hver leikmaður er persóna í epískri frásögn sem nær yfir áratugi og heimsálfur, eins og vindurinn sem ber sögur um hetjur og harmsögur. Chelsea, liðið sem ber í brjósti sínu arfleifð sigursælu og sársaukafullra augnablika, kemur til leiksins undir stjórn Enzo Maresca og óvæntrar hetju síðasta leiks, João Pedro. Hann nýkominn frá Brighton, stimplaði sig all rækilega inn með tveimur „golazo“ mörkum gegn Fluminense í undanúrslitum. En skuggi óvissunnar svífur yfir – Moises Caicedo, meiddur í ökkla og óvíst er með þátttöku hans í leiknum. Valið á sóknarmanni – Pedro, Delap eða Jackson – er eins og spurning sem svífur í loftinu, ósvöruð, eins og fjarlægt þrumuveður. Chelsea er lið sem berst með hjartanu, en hjartað er fullt af gömlum sárum og nýjum draumum, og í þessu blæði töfra og trega, liggur fegurð þeirra. Á móti þeim stendur Paris Saint-Germain, lið sem virðist smíðað úr stjörnudufti og gulli, hefur Luis Enrique sem alkemistinn, skapað þann ofurbræðing.

    Gianluigi Donnarumma, risinn í markinu, ver skot með viðbragði villidýrs. Miðjan með Vitinha, Fabián Ruiz og Joao Neves, er hjartað sem slær taktinn. Vitinha stýrir leiknum með liprum sendingum, eins og listamaður sem málar með boltanum; Ruiz heldur jafnvægi með nákvæmni og er akkeri liðsins. Neves brennur af ungæðislegum eldmóði, knýr liðið áfram með óþrjótandi orku. Achraf Hakimi, bakvörður og vængmaðurinn, flýgur upp og niður kantinn með þannig hraða að hann virkar eins og hann spili tvær stöður á vellinum. Sendingar hans eru vopn sem skapa tækifæri úr engu. Sóknartríóið, Dembélé, Doué og Kvaratskhelia, er óbeislaður sprengikraftur og töfrar. Dembélé sprengir leiki upp með ótrúlegum hraða, Doué ákaflega lipur og kvikur í teignum og Kvaratskhelia skapar hættur í hvert skipti sem hann snertir boltann. Vandinn við að kljást við PSG er sá, að þeir bregðast mjög vel gegn öllum aðferðum. Ætlum við að bakka niður á teig með tvær þéttskipaðar varnarlínur líkt og við gerðum gegn Bayern 2012? Þeir frönsku eru svo kvikir og liprir að þeir finna alltaf lausnir á því. Á að beita hápressu gegn þeim? Vörn og miðja hafa einstaka hæfileika og ekki síst hraða til að spila sig úr slíku, og við það opnast svæði aftast á vellinum sem Kvaratskelia, Dembele og Hakimi eru fljótir að bregðast við og refsa á augabragði. Leikurinn þeirra gegn Real Madrid var vitnisburður þess. Þeir gjörsamlega girtu niðrum Los Blancos á sirka 26 mínútum og slógu af bensíngjöfinni restina af leiknum – sem var í raun eins og kaffipása með sígó. Þegar tækifærin gefast gegn þeim er svo ítalski risinn í markinu, kvikur eins og köttur. Sá hefur bjargað PSG með svo ómannlegum markvörslum að maður verður orðlaus. Breiddin í liðinu er líka helvíti öflug þar sem ungir og efnilegir, í bland við reynslumikla leikmenn eru til taks. Bradley Barcola, Warren Zaire Emery, Kang-In Lee, Marco Asensio, Carlos Soler og Presnel Kimpempe eru engir aukvisar. Willian Pacho og Lucas Hernández missa af leiknum gegna rauðu spjaldanna sem þeir fengu beint, gegn Bayern Munchen í fjórðungsúrslitum, og taka því út seinna leikbannið í þessum leik. Það er þó við ramman reip að draga.

    Til þess að vinna lið alkemistans Luis Enrique þarf að stífla miðjuna og loka á sendingarleiðir og þvinga þá í kantspil. Liðið þarf að eiga sinn allra besta dag, og stíga ekki eitt einasta feilspor, sérstaklega í vörninni og Robert Sanchez skal betur skilja eftir silfurfatið sitt áður en á leikvöll er haldið. Marc Cucurella þarf að eiga stórleik. Levi Colwill þarf að stíga upp og sýna að hann sé þess verðugur að vera framtíðarleiðtogi liðsins, á svona mikilvægu augnabliki. Við teljum líklegra að Chalobah spili við hlið hans á kostnað Tosin. Moises Caicedo þarf að vera með og þarf að eiga stórleik sem og Enzo Fernandez. Það er líklegt að þeir byrji og Romeo Lavia verði klár af bekknum, eftir að hafa verið frá vegna meiðsla. Reece James ætti að byrja í hægri bakverðinum. Hann er okkar fyrirliði og leiðtogi, og í raun ómissandi sem hægri bakvörður liðsins. Cole Palmer þarf einnig að eiga stórleik til þess að geta ógnað og skapað. Það er erfitt að ráða í uppstillingu með framherja, en frábært start hjá Joao Pedro gæti kannski fært hann út á kant með Liam Delap frammi. Pedro Neto hlýtur að byrja vegna þess ógnarhraða sem býr í honum og skapar öflugt skyndisóknarvopn. Sennilega liggur tækifærið til að vinna PSG í skyndisóknum, föstum leikatriðum og föstum fyrirgjöfum. Maresca hefur úr mörgum möguleikum að velja. Þetta verður ekki aðeins taktísk viðureign, heldur heimspekileg. Leikur þar sem trú á eigið kerfi verður reynd til fulls. Enzo verður að sanna að jafnvel þegar andstæðingurinn vinnur með gull, geti járn unnið bardagann — ef það er vel smíðað.

    Hvernig fer leikurinn? Eigum við ekki að vonast eftir hörku og markaleik? 3-2 fyrir Chelsea. Mörkin koma frá Joao Pedro og Pedro Neto. Nico Jackson kemur af bekknum og setur óvæntan winner. Dembéle og Kvaratskhelia skora fyrir PSG. Látum okkur dreyma!

    Áfram Chelsea! KTBFFH!!

    P.S. Við Chelsea aðdáendur ætlum að hittast og horfa á leikinn. Í Reykjavík hafa Blákastliðar efnt til samkomu í Keiluhöllinni í Egilshöll. Boðið verður uppá á pubquiz sem Stefán Marteinn stýrir. Það hefst kl. 17:00 og vinningar eru frá Epicbet, Ofar, Keiluhöllinni, Flatbökunni og fleirum. Allir hvattir til að mæta í treyjum og verðlaun eru fyrir fallegustu treyjuna. Bókið borð á keiluhollin@keiluhollin.is

    Á Akureyri munu Chelsea aðdáendur safnast saman á Verksmiðjunni Glerártorgi. 20% afsláttur af matseðli og happy hour tilboð á lite bjór á meðan leik stendur. Leikurinn hefst kl 19.00 og eru gestir hvattir til að mæta í treyjum og koma örlítið fyrr á staðinn.

    Birt með góðfúslegu leyfi cfc.is

    https://www.cfc.is/post/%C3%BArslitaleikur-vi%C3%B0-psg

    Upp