Keppni: Enska Úrvalsdeildin – 5. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagur 20. september kl: 16.30
Leikvangur: Old Trafford, Manchester
Dómari: Peter Bankes
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Snorra Clinton

Maður getur ekki neitað því að maður fékk gæsahúð og fiðring í magann við það að horfa á okkar ástsæla Chelsea lið, stíga inn á grasið með Champions league lagið spangólandi í bakgrunni. Loksins vorum við komnir þangað sem við eigum heima, á stærsta sviðinu. Það var fátt sem kom á óvart við byrjunarliðið í þeim leik kannski fyrir utan það að Reece James var troðið á miðjuna og Gusto í hægri bakverðinum. Veit ekki alveg hvað Maresca var að meina með því, en það er svo sem ekkert í fyrsta skiptið sem ég klóra mér í hausnum yfir því hvernig hann stillir upp liðinu. Því miður riðum við ekki feitum hesti þann daginn þar sem þar sem við fengum á okkur þrjú mörk í grímuna. Það var súr biti að sætta sig við þar sem heilt yfir spiluðum við bara nokkuð vel og náðum að leggja upp nokkrar beittar sóknir. Tvær slíkar sóknir uppskáru mark frá Cole Palmer en því miður var annað tekið af honum vegna rangstæðu og niðurstaðan því 3-1 tap í fyrsta meistaradeildarleik Enzo Maresca ásamt flestum okkar leikmönnum. Það er kannski erfitt að líta í baksýnisspegilinn og benda á hvað Maresca hefði getað gert betur, mörkin sem við fáum á okkur eru með ódýrari útgáfunni. Sjálfsmark, víti og skelfileg sending sem Bæjern fullnýtti sér og rassskelltu okkur á beran bossann. Ég hefði kannski viljað sjá Maresca gera breytingar fyrr, en hann hreyfði ekki við liðinu fyrr en að Lederhosen liðar höfðu skorað þrjú mörk.
Það voru kannski einhverjir sem ofpeppuðust við það að sjá Ellen Degeneres rejectið koma inn á og með fulla trú á að hann myndi ná að skapa eitthvað en hann var álíka gagnslaus og fjúkandi poki á bílaplaninu í Smáralind. Aðrir varamenn náðu því miður ekki heldur að setja svip sinn á leikinn. Estevao fær 10 mín undir lokin, en mitt mat er að hann hefði átt að fá mun stærra hlutverk í þessum leik.

Annað sem ég og líklega aðrir stuðningsmenn hafa ekki húmor fyrir, er að Maresca nær bara alls ekki að spila tvo góða hálfleiki í leik. Maður spyr sig því hvort að það haldi áfram í dag? Það virðist vera lykillinn að sækja stig gegn okkur er að spila low block og vera þolinmóður því liðið okkar á engin svör við slíku uppleggi andstæðinga. Persónulega finnst mér okkar lið spila hvað mest beittan sóknarleik þegar við mætum liðum utan Englands. Ensku liðin henda í lágblokkina og eiga séns, en á móti öðrum liðum þá náum við að búa eitthvað til og vera ekki einhverjum hundleiðinlegum “klappa boltanum og hliðar saman hliðar” bolta. Ef menn vilja endalaust vera í einhverju klappi þá eiga þeir bara að hoppa á bland.is og ættleiða kött eða eitthvað.
Jæja rennum yfir byrjunarliðið. Það verður ekki hjá því komist að Sanhcez muni standa á milli stanganna. Öftustu fjórir verða Cucurella, Chaloba, Fofana og Reece James. Á miðjunni standa þeir Caicedo og Enzo Fernandez. Cole Palmer verður í holunni fyrir aftan Joao Pedro, Pedro Neto á vinstri og Estevao á hægri. Þetta er uppskriftin krakkar mínir. Það dreymir eflaust mörgum um að sjá Garnacho mæta og skora á móti sínum gömlu félögum, en það þykir mér því miður fjarstæðukennt miðað við að hann hefur fátt nýtt að bjóða þessu liði er í besta falli B-útgáfa af Mudryk. En ég bíð hann velkominn að sokka mig.
Ef allt er eðlilegt í þessum heimi þá förum við aftur heim til London með stigin þrjú og bros á vör. Þetta fer 1-2 fyrir okkur. Mörkin koma frá Joao Pedro og Palmer en Estevao mun leggja þau bæði upp. Við skulum enda þetta á kaldri kveðju frá Amorim til Garnacho.

P.s. Við minnum lesendur enn og aftur á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Betri miðaverð fást á leiki með Chelsea í vetur, og hópferðir verða farnar í vetur, m.a. sú fyrsta eftir nokkrar vikur á Benfica leikinn. Við hvetjum ykkur öll til að skrá ykkur á www.chelsea.is