Stamford Bridge er, og verður, okkar heimavöllur. Hann er ástæða þess að Chelsea Football Club var stofnað. Eigendur vallarins þurftu að nýta hann betur og því var brugðið á þetta ráð eftir að Fulham höfnuðu því að leigja hann. Von bráðar munum við fara ítarlega yfir sögu Stamford Bridge og leiðbeina fólki meðal annars með hvar er best að sitja og svo framvegis.
Völlurinn tekur 42.360 manns og er það allt í sæti eins og lög í Englandi segja til um. Völlurinn hefur verið í endurbyggingu frá 8. áratug síðustu aldar til loka síðasta áratugar. Það var í raun endurbygging austurstúkunnar sem nánast setti félagið á hausinn. Liðið var að spila fyrir framan tómt byggingasvæði þar sem stærsta stúkan hafði verið og félagið rambaði á barmi gjaldþrots þar til Ken Bates kom inn og keypti félagið á 1 pund árið 1982. Hann hafði sína hugsjón um hvernig félagið skyldi rekið og sú hugsjón varð að veruleika rétt áður en hann seldi félagið til Roman Abramovich, þó svo að það hafi kannski ekki gengið upp á þann hátt sem hann hafði vonast til.
Ken Bates sá alltaf fyrir að Stamford Bridge yrði sannkölluð miðstöð fyrir allt sem stuðningsmenn vildu gera. Hann vildi að völlurinn og umhverfi hans væru að græða peninga fyrir rekstur félagsins dag og nótt. Hann kom þessu öllu af stað en á endanum varð það honum að falli. Fátt af því sem hann setti í gang á Stamford Bridge, eða Chelsea Village eins og hann kallaði það var að sýna gróða og á endanum seldi hann allt saman til milljarðamæringsins rússneska.
Við Stamford Bridge er heilmikið hægt að gera. Þar eru tvær hótelbyggingar eins og flestir vita, þar að auki eru nokkrir veitingastaðir og íþróttabar. Chelsea Megastore er stærsta Knattspyrnufélagsbúðin í Englandi, nokkrum fermetrum stærri en búðin í Manchester. Nýlega opnaði svo Chelsea-safnið í tilefni af 100 ára afmæli félagsins. Eins og hjá öðrum félögum þá býðst stuðningsmönnum að skoða völlinn með leiðsögumanni. Þá er hægt að skoða búningsklefa leikmanna og VIP-stúkuna auk fjölmargra annarra hluta.
HVERNIG KEMST ÉG Á STAMFORD BRIDGE?:
Það er svosem ekki flókið að komast á Stamford Bridge en það er alltaf gott að hafa leiðbeiningar í höndunum ef einhver vafi er á. Byrjunarreitur er ávallt Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem menn taka þá annað hvort flug með Icelandair eða WOW Air til London, Heathrow eða Gatwick.
Frá Heathrow: Héðan eru tveir mögleikar sem eru bara misdýrir fyrir utan að taka sér mjög dýran leigubíl eða rútu inni í London. Langheppilegasti ferðamátinn er að taka „Túbuna“ (London Underground/the tube) eða að taka Heathrow Express. Heathrow Express lestirnar fara frá Heathrow og beint á Paddington Station og tekur það 15-20 mínútur. Slíkar ferðir kosta ferðalanga 13 sterlingspund eða um 1500 kr. Heathrow Express fer 4 sinnum á klst. svo að þetta er langfljótasti og þægilegasti ferðamátinn til að komast inn í London. En frá Paddington verða ferðalangar að taka Túbuna til að komast á Stamford Bridge. Þá er tekið Grænu Línuna (District Line) suður í átt að Wimbledon. Þetta þýðir að þið verðið að finna lestarpallinn og svo stendur á skiltum og á lestinni sjálfri „Wimbledon“ því það er endastöðin. Miði með Túbunni ætti að kosta einhvern 200-300 kall í viðbót en líklega kýs fólk einhver nokkurra daga kort eða eitthvað slíkt. Þegar þið eruð komin um borð í Grænu Línuna í átt að Wimbledon er það bara að fylgjast með og það er einfalt þar sem það eru einföld kort af leiðinni sem verið er að fara inni í lestunum og þið farið út á Fulham Broadway. Þar komið þið upp í stóran verslunarklasa og labbið einfaldlega út um hann og á vinstri hönd er allt Chelsea-hverfið. Það tekur í mesta lagi 10 mínútur að Stamford Bridge en þetta er ekki eins og í öðrum Evrópulöndum þar sem leikvangar eru byggðir á auðum svæðum í úthverfum. Þið verðið að líta til vinstri allan tímann og svo kemur að því að þið sjáið hliðið að Vesturstúkunni og þið getið farið þar inn og að vellinum og þá getið þið labbað til hægri við völlinn og fylgt vegg gömlu Shed-stúkunnar sem hefur verið friðaður og komið þá að Chelsea Megastore og svo framvegis.
Ef þið kjósið að ferðast alla leið með Túbunni er það tæplega klukkustundardæmi en mjög einfalt dæmi. Þið takið Bláu Línuna (Picadilly Line) sem er eina Túbuleiðin frá Heathrow. Hún fer inn í London og þið getið farið út á fjölmörgum stöðum en ef þið eruð ekki á ferðinni rétt fyrir leik þá er best að fara út á Earl´s Court og taka Grænu Línuna sem við nefndum hérna fyrir ofan niður í átt að Wimbledon og út á Fulham Broadway eins og áður. Þetta er sáraeinfalt og hér að neðan getið þið smellt á tengil á kort af Túbuleiðarkerfinu til að æfa ykkur í fluginu.
Frá Gatwick: Í tilfelli Gatwick flugvallar er erfitt að horfa framhjá Gatwick Express möguleikanum. Þessi flugvöllur er lengra frá London heldur en Heathrow og er því enginn túbumöguleiki og að taka rútu þarna er mjög leiðingjarnt og tímafrekt og þegar upp er staðið, ekki mikið ódýrara. Því bendum við fólki á að halda sig við Gatwick Express sem fer, eins og Heathrow lestin, á 15 mínútna fresti og skýst með ykkur inn í London á 45 mínútum. Farið með Gatwick Express kostar einhverjum 160 kalli meira en með Heathrow Express. Það er mjög varasamt að taka ekki bókstaflega nöfn lestastöðvanna. Þegar til London er komið er í raun hægt að fylgja svipuðum túbu leiðbeiningum og hér að ofan
Þetta hljómar allt voðalega flókið við fyrstu sýn en um að gera að ná í kortið af London Underground kerfinu hér fyrir neðan og skoða þetta sjálf. Svo eru starfsmenn mjög hjálpsamir ef maður spyr þá til vegar. Vonandi hjálpar þetta mönnum í jómfrúarferðinni sinni.
London Underground Kortið: http://www.tfl.gov.uk/tfl/pdfdocs/colourmap.pdf