Seinni leikur undirbúningstímabils

Keppni: Undirbúningstímabil 2025

Tími, dagsetning: Sunnudagur 10. ágúst  kl: 15:00

Leikvangur: Stamford Bridge, London 

Dómari: Einhver enskur

Hvar sýndur: Chelsea appið, Chelsea heimasíða og Livey events

Upphitun eftir: Hafstein Árnason

ree

Chelsea hófu sitt stutta undirbúningstímabil í liðinni viku. Það hófst hreint út sagt hörmulega á fyrstu æfingu. Levi Colwill varð fyrir meiðslum án þess að lenda í neinni snertingu og fréttir fóru að kvissast um í vikunni. Meiðsli án snertinga þykja yfirleitt ekki góð, og menn spenntu greipar um að þetta voru einungis vöðvameiðsli, en því miður, þá var þetta krossbandaslit. Levi Colwill missir væntanlega af öllu tímabilinu sem og HM með Englandi næsta sumar. Í besta falli gæti hann orðið leikfær í maí.

Það var þó mikil eftirvænting eftir fyrsta leik Chelsea á þessu stutta undirbúningstímabili sem tekur jú heila tvær vikur. Chelsea sigraði Bayer Leverkusen 2-0 í VisitMalta Weekender leiknum, fyrsta leik liðsins eftir að hafa unnið Heimsmeistaratitil félagsliða. Chelsea réði lögum og lofum í fyrri hálfleik, þrátt fyrir stuttan undirbúning. Cole Palmer og nýliðinn Estevao Willian mynduðu strax frábæra tengingu á vellinum. Það var ljóst að þeir leituðu að hvor öðrum í spili m.a. með hælsendingum. Palmer stýrði sóknarleiknum af miðjunni, með nákvæmum sendingum og snjöllum hlaupum, á meðan Estevao nýtti hraða sinn og tækni á hægri kantinum. Hápunkturinn kom á 18. mínútu þegar Palmer smellti skoti í slá, og Estevao fylgdi á eftir með glæsilegu marki í sínum fyrsta leik. Leverkusen átti í mikluk vandræðum, skapaði lítið og varðist nær eingöngu á eigin vallarhelming og leyfðu Chelsea að vera með boltann 65% af leiktíma.

Enzo Maresca stillti byrjunarliðinu upp þannig að Jörgensen var í marki, Cucurella vinstri, Malo Gusto í hægri og Chalobah og Acheampong í miðvörðum. Andrey Santos og Moises Caicedo voru djúpir á meðan Cole Palmer var í holunni, Estevao á hægri, Tyrique George á vinstri og Liam Delap á toppnum. Þetta lið spilaði hreint út sagt frábærlega. Caicedo og Andrey tengdu vel saman og vörnin var þokkaleg, þó svo það reyndi lítið á hana. Í hálfleik skipti Maresca Cucurella, Caceido, Cole Palmer og Chalobah útaf fyrir Jorrel Hato, Tosin, Dario Essugo og Pedro Neto. Við það hrókeraði hann vörninni og þá kom ákveðið taktleysi í uppspilinu frá vörnini og Bayern Leverkusen veittur örlítið meiri mótspyrnu. Estevao færðist í holuna á meðan Neto fór á hægri kantinn. Skömmu seinna komu Reece James, Jamie Gittens og Joao Pedro inná fyrir George, Liam Delap og Malo Gusto. Chelsea hélt stjórn, þótt tempóið lækkaði. Gittens bætti orku á vængnum, og João Pedro innsiglaði sigurinn á 90. mínútu með föstu skoti eftir stoðsendingu frá Genesis Antwi sem hafði komið inn á 75. mín ásamt Samuel Rak-Sakyi og Aron Anselmino. Í þetta litla korter sem Anselmino spilaði, þá var það nokkuð ljóst að hann virkaði ekki alveg eins og maður átti von á. Líklega er þetta level of mikið fyrir þann argentínska.

Í það heila komust flestir leikmenn vel frá þessum leik, en það sem veldur manni töluverðu hugarangri er að vörnin er alls ekki eins beysin og hún var í heimsmeistarakeppninni fyrir mánuði síðan. Badiashile og Fofana eru enn meiddir og verða það út mánuðinn. Fyrir vikið eigum við engan tiltækan vinstri fótar miðvörð, nema klúbburinn taki 180° á Renato Veiga. Eins og staðan er núna stendur til að selja þennan portúgalska landsliðsmann. Hann lét skoðun sína í ljós í janúar að hann vildi fara, til þess að fá mínútur og spila miðvarðarstöðuna, sem hann fékk yfirleitt ekki, nema í hybridgjörningi Maresca. Hann fékk því prýðilega lánsdvöl hjá Juventus og spilaði þar alla leiki í byrjunarliðinu, vinstra megin í vörninni, nema þá örfáu leiki sem hann var meiddur. Hér má sjá myndskeið úr leiknum gegn Inter. Ef til vill þarf Maresca að gefa honum sénsinn sem vinstri miðvörður hjá Chelsea. Maresca gaf það strax út á blaðamannafundi eftir leik að Chelsea þyrfti að skoða markaðinn eftir nýjum miðverði, sem gefur það í skyn að hann sé ekki ánægður með uppspil eða varnarleikinn almennt. Þetta virkaði sannarlega ekki eins og taktfast og þegar Colwill var á velli. Höfum við efni á að kaupa nýja varnarmenn? Eitt stykki ætti að kosta ca. 40-50 milljón pund. Miðlar eru þegar farnir að spekúlera um Ronald Arujo hjá Barcelona og Ousmane Diomede hjá Sporting, en þeir eru réttfættir miðverðir. Chelsea skoðaði Murillo hjá Nottingham Forest sem er örfættur miðvörður, en eiga við feita gríska eiganda Forest verður ekki auðvelt, og verðmiðinn sennilega nær 70 milljónum punda, einkum í ljósi þess að Murillo fékk samningsuppfærslu í janúar. Það kann ekki góðri lukku að stýra að fara á markaðinn í einhverju óðagoti og kaupa leikmenn til skamms eða á of dýru verði. Við munum hvernig það endaði með Kepa.

ree

Það hefur þó verið nóg að gera á skrifstofum félagsins. Armando Broja og Lesley Ugochukwu fóru til Burnley á samtals 45 milljónir punda. Kiernan Dewsbury-Hall fór til Everton á 25 milljónir punda. Á sölulistanum eru þó eftir Raheem Sterling, Ben Chilwell, David Datro-Fofana, Christopher Nkunku, Nicholas Jackson, Axel Disasi og Carney Chukwuemeka. Samkvæmt okkar heimildum hefur Nicholas Jackson óskað eftir að tala við önnur lið til að skoða sín mál. Hann hefur verið nefndur í tengslum við dramatík í Newcastle, en hann og Nkunku geta líklega veitt mestar tekjur fyrir félagið ef af þeirra skiptum verður. Renato Veiga átti að rakleiðis til Atletico Madrid fyrir ca 30-40 milljónir evra, en þau skipti féllu niður og nú er Sádarnir sagðir vera áhugasamir. Horfandi á stöðuna á hópnum og markaðnum, verður það líklega teljast skynsamlegasta lausnin að halda Renato Veiga og leyfa honum að spreyta sig á miðvarðastöðunni sem hann vill spila. Carney er sagður vera nánast kominn til Dortmund, bara spurning hvar klúbbarnir lenda um kaupverð. Lítið hefur heyrst með aðra leikmennn hvert þeir séu að fara.

Það sem er vitað nú þegar um hverjir séu á radarnum hjá Chelsea eru Alejandro Garnacho hjá Manchester United og Xavi Simons hjá Leipzig. Það er víst búið að ganga frá samningsmálum við Garnacho og Xavi Simons vill ólmur koma til Chelsea. Klúbbarnir eru því í virku samtali um kaup og kjör, en Chelsea þurfa samt að trimma niður hópurinn áður en þeir koma. Þetta skýrist því líklega á næstu vikum. Ef þeir koma báðir, verður útlitið helvíti vont fyrir leikmann eins og Tyrique George, sem hefur staðið sig býsna vel hjá liðinu. Undirritaður er lítið hrifinn af því að fá Garnacho, með vísan til þess hversu óþroskaður einstaklingur hann er. Ef hann kemur, þá þurfa fyrirliðarnir að vera með hann í liðveislu allt tímabilið líklegast. Chelsea mætir AC Milan á Stamford Bridge í seinni leik þessa undirbúningstímabils. Milan spiluðu í gær við Leeds á hálfgerðu varaliði þannig að skammt er á milli leikja. Við getum fastlega búist við því að öllu byrjunarliðinu verður skipt út hjá báðum liðum. Liðið hjá Chelsea verður líklegast Sanchez í markinu. Reece James í hægri bakverði. Tosin og Anselmino í miðvörðum. Vinstri bakvörður Jorrel Hato. Miðjan verður Essugo og Enzo (ef hann er heill). Jamie Gittens á vinstri, Pedro Neto á hægri. Estevao eða Cole Palmer verða líklega í holunni og Joao Pedro uppá topp. Hvað AC Milan varðar, þá fáum við að hitta gamla vin eins og Ruben Loftus Cheek, Fikayo Tomori, Christian Pulisic og væntanlegan vin Mike Maignan? Svo má ekki gleyma Luka Modric sem ákvað að framlengja ferilinn örlítið meira hjá il Rossoneri. Hvernig fer leikurinn? Ætli það verði ekki 2-0? Cole Palmer og Estevao með mörk? Vonum að enginn meiðist.

Góða skemmtun og áfram Chelsea!

Færslan er birt með góðfúslegu leyfi CFC.is

https://www.cfc.is/post/seinni-leikur-undirb%C3%BAningst%C3%ADmabils

Upp