Það hljóp á snærið hjá Chelsea þegar félagið náði í danska landsliðsfyrirliðann Pernille Harder. Með Chelsea leikur María Þórisdóttir sem leikur fyrir norska landsliðið en er ættuð frá Selfossi. Pernille Harder kemur frá þýska stórliðinu Wolfsburg og lék þar með Söru Björk Gunnarsdóttur um tíma.
BBC telur að Chelsea greiði um 250 þúsund pund fyrir krafta Harder sem gerir þriggja ára samning við enska félagið. Harder var valin leikmaður ársins hjá UEFA árið 2018 og er almennt talin ein sú besta í heimi. Harder er 27 ára gömul og hefur skorað 61 mark í 118 landsleikjum fyrir Dani. Hún fór til Wolfsburg í byrjun árs 2017 en var áður hjá Linköping í Svíþjóð.