Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Sunnudagurinn 11. maí 2025 kl: 11:00
Leikvangur: St. James’ Park, Newcastel
Dómari: John Brooks
Hvar sýndur: Síminn sport
Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson

Baráttan heldur áfram – stórleikur gegn Newcastle um helgina
Næstkomandi sunnudag mætum við Newcastle á útivelli í 36. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og það má með sanni segja að leikurinn sé gífurlega mikilvægur í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu. Eins og staðan er í dag eru Chelsea og Newcastle jöfn að stigum í 4. og 5. sæti, bæði með 63 stig og +21 í markatölu. Við erum aðeins stigi á eftir Manchester City í þriðja sæti og höfum tveggja stiga forskot á Nottingham Forest sem er í sjötta sæti. Þar sem bæði City og Forest eiga leiki gegn lélegum liðum sem þegar hafa fallið, Southampton og Leicester, er algjört lykilatriði að við náum í öll stigin á St. James’ Park.
Við förum inn í þennan leik með góðan meðbyr eftir frábæra viku. Síðasta sunnudag lögðum við nýkrýnda Englandsmeistara Liverpool 3-1 á Stamford Bridge og það með nokkuð sannfærandi hætti. Það var sérstaklega gleðilegt að sjá Cole Palmer komast aftur á blað eftir erfiðan kafla hvað markaskorun varðar.
Þá tryggðum við okkur einnig sæti í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu með 1–0 sigri á Djurgården í síðari leik undanúrslitanna, þar sem heildarniðurstaðan var 5-1. Maresca nýtti tækifærið og hvíldi lykilmenn, en ungu leikmennirnir stigu vel upp og stóðu sig af mikilli prýði. Dewsbury-Hall skoraði glæsilegt sigurmark í fyrri hálfleik með skemmtilegri afgreiðslu, stöngin inn. Real Betis bíður okkar í úrslitaleiknum, en við skoðum þá viðureign nánar þegar nær dregur.
Aftur að deildinni, verkefnið í Newcastle verður mikil prófraun á okkar menn. Við höfum tapað síðustu þremur leikjum okkar á St. James’ Park og síðasti sigur okkar þar kom í október 2021, gegn mun ólíkara liði en því sem Eddie Howe stýrir í dag. Howe hefur byggt upp skemmtilegt og árásargjarnt lið sem hefur skorað 12 mörk í síðustu þremur heimaleikjum sínum. Þó þeir vanti leikmenn eins og Jamaal Lascelles, Joelinton, Lewis Hall og Matt Targett, sem eru á meiðslalista, þá eru enn næg gæði í þeirra liði. Alexander Isak hefur raðað inn mörkum og kantmenn á borð við Anthony Gordon, Harvey Barnes og Jacob Murphy eru ógnandi á góðum degi.
Í síðasta deildarleik stillti Maresca upp Moisés Caicedo í hægri bakverði og leyfði Roméo Lavia að spila með Enzo á miðjunni. Allir þrír stóðu sig vel og því má gera ráð fyrir að hann haldi sig við sömu uppstillingu. Ég ætla því að spá því að byrjunarlið okkar verði svona sunnudaginn: Sanchez verður í markinu. Chalobah og Colwill miðverðir. Caicedo verður hægra megin og Cucurella vinstri. Lavia og Enzo verða á miðjunni með Palmer fyrir framan sig. Á köntunum verða þeir Neto og Madueke og Jackson byrjar fremstur.
Að lokum ætla ég að leyfa mér að spá því að þetta verði sannkallaður sjónvarpsslagur, opinn, hraður og skemmtilegur leikur. Lokatölur: 3–4 fyrir okkar mönnum! Cole Palmer með tvö mörk, Madueke með eitt og Chalobah með skallamark úr föstu leikatriði.
Áfram Chelsea!
Birt með góðfúslegu leyfi cfc.is