Eins og ykkur er væntanlega flestum ljóst dróst Chelsea gegn Barcelona í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og hafa leikdagar nú verið ákveðnir en liðin leika heima og að heiman og það lið sem hefur betur samanlagt úr þeim tveimur viðureignum tryggir sér þátttöku í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar. Fyrri viðureign liðanna fer fram á Stamford Bridge þriðjudagskvöldið 20. febrúar 2018 en seinni viðureignin á Nou Camp í Barcelona miðvikudagskvöldið 14. mars 2018.
Það er ljóst að eftirspurn eftir miðum á þessa leiki verður gríðarleg, reyndar svo mikil að það er nánast öruggt að við munum ekki fá alla þá miða sem við komum til með að óska eftir, Chelsea mun að öllum líkindum fella leikinn á Stamford Bridge undir Loyalty Points kerfið og má reikna með að krafist verði minnst 10 punkta inneignar til að eiga möguleika á miða í forkaupsrétti okkar. Og EKKI er víst að það dugi til ef leikurinn verður „oversubscribed“, þ.e. eftirspurn verði meiri en framboð af miðum til þeirra er annars uppfylla bæði skilyrði um forkaupsrétt og punktafjölda!
Fari svo mun Chelsea úthluta stuðningsmannaklúbbunum miðum hlutfallslega miðað við framboð og eftirspurn en allt þetta á eftir að koma í ljós er nær dregur.
Það er því rétt að ganga úr skugga um hvort möguleiki á miða er raunhæfur áður en farið er í að kaupa flug og gistingu vegna leiksins til að fyrirbyggja einhver „slys og vonbrigði“.
Við bíðum hins vegar átekta eftir að heyra frá höfuðstöðvunum um fyrirkomulag vegna miðapantana á leikinn á Stamford Bridge og þá ekki síður á Nou Camp.
EF þið eruð í einhverri óvissu um punktafjölda ykkar getið þið sent okkur fyrirspurn um hann á netfang chelsea.is@simnet.is