Forráðamenn ítalska knattspyrnufélagsins Inter Mílanó vilja ólmir halda markaskoraranum Romelu Lukaku en gætu þó þurft að selja hann í sumar.
Belgíski framherjinn kom til Inter frá Manchester United sumarið 2019 og hefur verið einn besti leikmaður liðsins síðan þá, hefur skorað 59 mörk í 85 leikjum í öllum keppnum. Fari hins vegar svo að eitthvert félag bjóði um 120 milljónir evra í leikmanninn myndi félagið nauðbeygt þurfa að selja hann vegna slæmrar fjárhagsstöðu.
Þetta segir ítalski miðillinn Corriere dello Sport en þar segir að Inter hafi komið afar illa út úr kórónuveirufaraldrinum. Segir einnig að Manchester City hafi áhuga á Lukaku enda gæti hann verið arftaki Sergios Agüeros sem yfirgefur Manchester eftir tímabilið.