Loyalty Points reglan hjá Chelsea Football Club

Við fáum oft fyrirspurnir frá félagsmönnum um „Loyalty Points“ regluna hjá Chelsea Football Club, þ.e. hvernig félagar ávinna sér punkta, hve marga hverju sinni og hvenær þeirra er krafist er kemur að miðakaupum hjá Chelsea og hvað þarf þá marga punkta til.

Okkur er bæði ljúft og skylt að svara þessum fyrirspurnum og vonum við að þið séuð einhverju nær eftir þennan lestur.

Hvernig vinna félagsmenn sér inn punkta?
Jú, í fyrsta lagi fá allir þeir er greiða árgjald til félagsins fyrir lok skrifstofu CFC síðasta vinnudags júlímánaðar 5 punkta, í ár er það kl. 16:00 að íslenskum tíma föstudaginn 28. júlí n.k. en væntanlega verður mikið álag á „kerfinu“ hjá Chelsea síðustu klukkutímana fyrir lokun og ráðleggjum við því þeim sem eiga eftir að greiða árgjaldið að gera það tímanlega!

Í öðru lagi fást punktar fyrir hvern aðgöngumiða sem viðkomandi félagsmaður („One ticket per member“)  kaupir á leik með Chelsea, leikir á hlutlausum völlum og á undirbúningstímabilinu þó undanskildir. Fjöldi punkta sem ávinnast hverju sinni fer eftir hver andstæðingurinn er og í hvaða móti er leikið, allt frá 1 punkti til 5 punkta. Leikir gegn Arsenal, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham Hotspur í Úrvalsdeildinni gefa 1 punkt hver, allir aðrir leikir í Úrvalsdeildinni gefa 3 punkta hver, leikir í ensku bikarkeppnunum gefa svo 5 punkta hver. Ekki liggur fyrir að svo stöddu um punkta fyrir leiki í Meistaradeildinni. Mögulega ávinnast fleiri punktar (8) í einhverjum tilfella, þá helst gegn liðum úr neðri deildum í bikarkeppnunum.

Athugið að ekki fást punktar vegna miðakaupa á Ticket Exchange!

Hvenær er krafist punkta og hversu marga hverju sinni?
Punktatímabilinu er skipt í tvennt, leikir fyrir áramót annars vegar og leikir eftir áramót hins vegar. Fyrir áramót er krafist 5 punkta vegna miðakaupa á leiki gegn Arsenal, Liverpool, Manchester City, Manchester United og útileikja gegn Crystal Palace og West Ham United, öðru máli gegnir reyndar um útileikinn gegn Tottenham Hotspur hvar krafist er 10 punkta!  Eftir áramót þarf 10 punkta vegna leikja gegn Arsenal, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Tottenham Hotspur sem og á útileikina gegn Watford og Newcastle United.

Chelsea áskilur sér svo rétt til að bæta leikjum við þennan lista eftir atvikum.

Hvar sé ég hversu marga punkta ég á hverju sinni?
Á heimasíðu Chelsea Football Club, www.chelseafc.com,  er linkur undir Tickets & Memberships sem heitir Buy tickets / My account, smellið á hann og síðan á linkinn Members undir First team, í glugganum sem þá birtist þurfið þið að tilgreina skírteinisnúmerið ykkar og aðgangsorð og skrá sig svo inn, smella síðan á linkinn My Account / Friends & Family og stofna þar ykkar eigin reikning (síðan leiðir ykkur áfram), þá birtist m.a. punktastaðan ykkar hverju sinni. Einnig getið þið sent fyrirspurn á chelsea@chelsea.is vegna þessa ef ofangreind leið vefst eitthvað fyrir ykkur.

Nánari upplýsingar má einnig fá í síma 864 6205.



Upp