Undanfarið hefur staðið yfir kosning á leikmanni ársins hjá Chelsea FC á meðal félagsmanna um heim allan. Á því erum við á Íslandi engin undantekning og var þátttaka með hreinum ágætum. Alls skiluðu sér 66 atkvæðaseðlar fyrir auglýstan frest til atkvæðagreiðslu. Talning fór fram á föstudag eftir að fresturinn var liðinn.
Nú þegar hefur Chelsea FC verið tilkynnt um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hér á landi. Þá er nú orðið ljóst að verðlaunaafhending fyrir leikmann ársins hjá Chelsea mun fara fram á síðasta heimaleik okkar gegn Leicester þann 15. maí (Hvítasunnudag). Það verða tveir fulltrúar stuðningsmannaklúbba Chelsea sem veita verðlaunin. Tilkynnt verður um hverjir þeir heppnu verða á þakkarkvöldverði Chelsea FC, sem haldinn verður þann 19. mars, að loknum leik Chelsea og West Ham og fundi meðal fulltrúa Chelsea FC og stuðningsklúbba félagsins
Atkvæðin skiptust í upphafi nokkuð jafnt á þrjá leikmenn, þá Willian, Diego Costa og John Terry. Fljótlega skildi þó verulega á milli – á endanum var um að ræða öruggan kosningasigur – með fáheyrðum yfirburðum. Það má þó segja að samkeppnin í ár hafi ekki verið eins hörð og stuðningsmenn vonuðust eftir. Þrátt fyrir það er Willian vel að sigrinum kominn. Niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar má sjá á meðfylgjandi mynd.
Þá er þetta tilefni notað til þess að kynna í örfáum orðum niðurstöðu könnunar sem var gerð hér á Chelsea.is. Hún fólst í því að kjósa ,,ekki” leikmann ársins. Þar má sjá að þrátt fyrir að einn leikmaður fær duglega kosningu í ,,efsta sætið” þá er hún ekki eins afgerandi og sú um leikmann ársins. Það eru einhverjir fleiri sem fá á baukinn frá lesendum Chelsea.is. Niðurstöður þeirrar könnunar má sjá á meðfylgjandi mynd.