Hvað í andskotanum er í gangi?

01Það er krísa hjá Chelsea. Þegar það er krísa þá eru margir hlutir að fara úrskeiðis á sama tíma – í þessum pistli verður reynt að kryfja hvers vegna besta lið Englands er með 8 stig eftir 8 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

 

Síðasta tímabil

Hinn 3. maí 2015, eftir 1 – 0 sigur á Crystal Palace á Stamford Bridge var það loksins ljóst, Jose Mourinho hafði tekist ætlunarverk sitt, að vinna enska meistaratitilinn í þriðja sinn. Það verður að segjast alveg eins og er að Chelsea var búið að tryggja sér þetta töluvert áður. Nánast allt tímabilið var liðið í efsta sæti deildarinnar og Manchester City, okkar verðugustu keppinautar, virtust alltaf taka upp á því að gera jafntefli eða tapa leikjum í þau fáu skipti sem við sjálfir misstigum okkur. Í lokin enduðu okkar menn með 87 stig, 8 stigum á undan Machester City. Það verður að teljast býsna gott m.v. það tempó sem liðið spilaði á síðustu þrjá leikina. Markahlutfallið var mjög gott, skoruðum 73 mörk (næst mest) og fengum á okkur 32 (fæst allra liða).tafla

Þrátt fyrir þessa miklu yfirburði var tímabilið okkar nokkuð tvískipt. Liðið byrjaði tímabilið stórkostlega og fótboltinn sem Chelsea var að spila frá ágúst – nóvember er líklega sá besti sem greinarhöfundur hefur séð sitt ástkæra lið spila. Af fyrstu sex leikjunum unnum við fimm, þetta eina jafntefli kom á útivelli gegn Man City. Í lok september vorum við með 16 stig af 18 mögulegum og markatöluna 19 -7. Þeir sem voru að spila hvað best í upphafi móts voru auðvitað nýliðarnir í liðinu, Diego Costa sem ekki mátti koma við boltann inni í vítateig andstæðinga án þess að það kæmi mark upp úr því og Cech Fabregas sem virtist gefa stoðsendingar að vild. Þar að auki var vörnin virkilega þétt með glorhungraðan John Terry fremstan í flokki. Byrjunin var sem sagt frábær og það má segja að við höfum kórónað hana með því að sigra Arsenal í byrjun október mjög sannfærandi 2 – 0. Wenger karlinn var svo pirraður í þeim leik að hann tók upp á því veitast að Mourinho sem var ekki á þeim buxunum að láta Wenger vaða neitt uppi. Að lokum uppskar Wenger gult spjald, sællar minningar.mor-we

Liðið tók smá dýfu í upphafi nýja ársins. Eftir jafntefli við Southamton og tap gegn Spurs var Man City búið að jafna okkur að stigum. Þá má segja að Mourinho hafi ákveðið að þétta leik liðsins sem hafði verið mjög flæðandi framan af móti. Við það uppskárum við marga 1-0 og 2-1 iðnaðarsigra í anda Mourinho sem að lokum leiddi okkur til þessa frábæra árangurs. Skýringin fyrir lakari spilamennsku liðsins má líklega rekja til þess að Móri notaði bara 13-14 leikmenn mest allt tímabilið og var liðið orðið mjög þreytt undir lok tímabilsins. 

Eden Hazard, John Terry, Thiobaut Courtois, Nemanja Matic og Branislav Ivanovic voru þeir leikmenn sem náðu að halda frábærum dampi allt tímabilið sem endaði með því að Eden Hazard var kjörinn leikmaður ársins af bæði blaðamönnum og leikmönnum deildarinnar. Hazard sprakk endanlega út í fyrra og tók mjög mikla ábyrgð á sóknarleik liðsins. Þegar Chelsea var komið með bakið upp við vegg í leikjum þá steig Hazard iðulega upp með stoðsendingu eða mark. Það hjálpaði honum líka mjög mikið að hafa Fabregas fyrir aftan sig og Diego Costa fyrir framan sig, þar sem sá fyrrnefndi gat látið hann hafa boltann í réttum svæðum, ofarlega á vellinum og hinn síðarnefndi gat klárað þau færi sem Hazard bjó til – eitthvað sem var ekki sjálfsagður hlutur tímabilið 2013-14. Í millitíðinni hafði liðið svo farið alla leið og unnið Carling Cup keppnina eftir 2-0 sigur á Tottenham á Wembley. Chelsea kláruðu því tímabilið 2014-15 með tvo bikara af fjórum mögulegum og óumdeilanlega sem besta lið Englands.

 

Sumarglugginn

Chelseamenn flýttu sér hægt í síðasta leikmannaglugga sem eru klárlega mistök. Í fyrra var liðið búið að tryggja sér þjónustu Filipe Luis, Diego Costa og Fabregas áður en undirbúningstímabilið hófst, eitthvað sem klárlega hjálpar liðinu inn í tímabilið. Reyndar var það þannig að Mourinho sagði undir lok síðasta tímabils að hann ætlaði ekki að gera miklar breytingar á leikmannahópnum, hann teldi hann mjög sterkan og það þyrfti einungis að fylla í þau skörð sem myndu óhjákvæmilega myndast og kannski bæta við 1-2 leikmönnum. Það er hreint og klárt vanmat að hálfu Móra því hann notaði að mestu leyti um 13-14 leikmenn allt síðasta tímabil. Það hefði átt að auka breiddina umtalsvert. 

Við byrjuðum samt „gluggann“ á að kveðja tvær goðsagnir en Didier Drogba og Petr Cech ákváðu að róa á önnur mið. Cech skiljanlega vildi spila fótbolta enda alltof góður til að sitja á bekknum, það er samt pínu sárt að hann valdi Arsenal en líka skiljanlegt þar sem við vorum búnir að bekkja hann og hann vildi áfram búa í London.

Drogba tókst að reynast okkur vel og markið sem hann skoraði á Old Trafford í fyrra minnti á markið hans í Munchen 2012 – það verður samt að segjast að hann var aðeins farinn að láta á sjá og hefur sennilega áttað sig á því sjálfur. Drogba hjálpaði samt mikið til í klefanum enda fæddur sigurvegari og slíkt framlag skal ekki vanmeta.

Einnig yfirgaf Filipe Luis liðið. Það er ekki annað hægt en að hálfvorkenna honum, hann kom með hjá hátt orðspor til okkar eftir frábær ár hjá Atlectico Madrid en tókst ekki að ýta Azpilicueta úr liðinu og fór því aftur til Madridar.
Nokkuð snemma í glugganum tókst okkur að fylla í tvö af þessum þremur skörðum. Við fengum Asmir Begovic frá Stoke til að leysa Cech af hólmi. Þar eru mjög góð kaup og hann hefur þegar sýnt að hann er frábær markmaður sem getur staðist pressuna á hæsta leveli. Radamel Falcao kom svo að láni frá Monaco eftir vægast sagt dapra dvöl hjá Man Utd. Fyrir þremur árum hefðu þessi „kaup“ þótt stórfengleg en núna eru þau umvafin efasemdum. Getur Falcao aftur orðið eins góður og hann var fyrir meiðslin, það er hæpið – alla vega m.v. árið í fyrra og upphaf þessa tímabils.

Þegar mótið var nýhafið keypti liðið svo leikmann sem var búið að orða okkur þráfaldlega við mánuðina á undan, Baba Rahmann frá Ausburg. Baba, eins og hann er kallaður, er 21 árs og kemur frá Gana og á að leysa af hólmi skarðið sem Filipe Luis skildi eftir sig. Hann var aðeins búnn að vera eitt tímabil hjá Ausburg en hann sló í gegn í Bundesligunni í fyrra er Ausburg náði frábærum árangri og lenti í 5. sæti. Hann mun berjast við Dave Azpilicueta um stöðu vinstri bakvarðar Það verður erfitt fyrir hann að koma sér í liðið þar sem „Dave“ er einn allra stöðugasti leikmaður sem við eigum. En m.v. byrjunina á þessu tímabili verður að teljast líklegt að Ivanovic gæti misst sæti sitt í liðinu og Dave færi þá í hægri bakvörðinn og Baba fengi tækifærið í vinstri bakverðinum, nánar um það síðar.baba

Í janúarglugganum í fyrra ákvað Mourinho að gera leikmannafléttu sem fól í sér brotthvarf Mo Salah á lán til Fiorentina og sölu á Andre Schurrle til Wolfsburg. Í staðinn keypti liðið Juan Cuadrado frá Fiorentina, verðmiðinn var í kringum 23 milljónir punda. Þessi leikmannaskipti þóttu spennandi fyrir Chelsea þar sem orðspor Cuadrado var mjög gott á ítalíu og hann hafði verið frábær í sterku liðið Kolembíu á HM sumarið áður. Það er skemmst frá því að segja að Cuadrado náði sér engan veginn á strik – hann var eins og taugahrúga inn á vellinum sem gerði lítið annað en að tapa boltanum klaufalega frá sér, brjóta á mönnum eða klúðra dauðafærum. Auðvitað fékk hann ekki mikinn spiltíma en það var deginum ljósara að þessi skipti veiktu einfaldlega liðið, því Schurrle stóð alltaf fyrir sínu þó hann hafi verið dapur framan af síðasta tímabili. Það sem Cuadrado átti að færa hópnum var alvöru samkeppni og breidd – hann gerði hvorugt því liðið veiktist umtalsvert með hann innanborðs. Móri reyndi auðvitað að halda andliti og framan af sumri leit það út fyrir að Cuadrado myndi vera áfram hjá okkur en eftir dapra byrjun liðsins sem hreinlega hrópaði á einhvern ferskleika í sóknarlínuna var ákveðið að lána kappann til Juventus. Í þann mund sem það lán gekk í gegn tókst okkur að stela Börsungnum Pedro af Manchester Utd fyrir framan nefið á Ed Woodward. Það var allt saman pínu fyndið.

Chelsea virkjaði klásúlu í samningi Pedro sem hljómaði upp á 30 milljónir evra. Pedro er afskaplega farsæll leikmaður sem hefur unnið nánast alla bikara sem hægt er að vinna með Barcelona og Spáni. Hann hefur hins vegar alltaf verið í skugganum á bestu leikmönnum heims hjá Barca en nú er hans tækifæri til að skína og það verður að segjast að byrjunin hjá honum hefur verið ágæt. Hann er að tryggja okkur mjög gott jafnvægi og í raun fylla skarðið sem Schurrle skyldi eftir sig og vonandi gott betur en það.

Það er ekki hægt að skrifa um leikmannagluggann okkar án þess að minnast örlítið á ungan varnarmann að nafni John Stones. Um miðjan júlí bárust fregnir af því að við værum að undirbúa tilboð í kappann. Til að gera langa sögu stutta buðum þrisvar sinnum í hann, hæst 34,5 milljónir punda en Everton neituðu að selja. Það er í raun óskiljanlegt að Martínez og Co. hafi neitað slíku tilboði enda flestir sammála um að Stones sé ekki svo verðmætur, þó hann gæti svo sannarlega orðið það eftir 2-3 ár. Það var þó greinilegt að Mourinho vildi kaupa varnarmann enda liðið ansi þunnskipað aftast á vellinum. Þegar það var orðið ljóst að Everton ætluðu ekki að selja Stones voru hinir ýmsu menn orðaðir við Chelsea. Það kom þó eins og þruma úr heiðskíru lofti er við gengum frá kaupunum á frekar óþekktum varnarmanni frá Nantes að nafni Papy Djilobodji, 28 ára gömlum senegala fyrir litlar 2,8 milljónir punda.

Ef maður ætti að gefa þessum leikmannaglugga einkunn að þá myndi ég gefa honum 4,5 af 10 mögulegum. Kaupin á Pedro eru stærsti plúsinn þar sem hann er klárlega styrking í vængmannastöðurnar á kostnað Cuadrado. Papy Djilobodji og Kenedy eru svo hreinar viðbætur við hópinn sem auka breiddina. Kenedy er spennandi leikmaður sem líklega mun fá einhver tækifæri í sókninni en það er ekki hægt að ætlast til mikils af honum svona ungum.

Það sem vantaði í þennan leikmannaglugga voru ein risakaup og þá er ekki verið að tala um John Stones, heldur kaup sem bæta liðið strax og senda ákveðin skilaboð, eins og við sjálfir gerðum í fyrra og City er að gera í ár með kaupunum á Otamendi, Sterling og De Bruyne. Það var þrálátur orðrómur um að Roman hefði gert tilboð í Paul Pogba en Juventus hafi alfarið neitað öllum viðræðum. Það hefði svo sannarlega verið leikmaður sem hefði bætt byrjunarliðið og sett allan hópinn upp á tærnar – eitthvað sem við virkilega þurftum á að halda í upphafi móts. Vonandi reynum við aftur við hann í janúar!

 

Hvað hefur breyst frá því í fyrra?

Það er ekki einhver einn hlutur, heldur eru þetta röð atvika.

Fyrstu mistökin voru leikmannaglugginn og þessi litla styrking á liðinu, Man Utd, Man City og Arsenal bættu öll við sig leikmönnum sem hafa alla burði til þess að verða lykilleikmenn. 

Önnur mistökin var þetta aukafrí sem leikmenn Chelsea fengu, það var undarlegt að sjá að helstu andstæðingar okkar voru búnir að spila 2-3 æfingaleiki þegar okkar menn voru ekki byrjaðir. Ástæðan fyrir lengra leyfi var sú þreyta sem Mourinho upplifði á sínu liði undir lok síðasta tímabils, hann vildi s.s. fá menn extra vel hvílda til æfinga í sumar. Segja má að þetta hafi snúist upp í andhverfu sína því undirbúningstímabilið var afskaplega dapurt og byrjun tímabilsins hefur verið eftir því. Það mættu halda að leikmenn eins og Costa, Fabregas, Matic, Hazard og Ivanovic séu 15 kg þyngri en þeir voru í fyrra.
Annað sem breyst hefur er að lið eru búin að læra það að vinna inn á veikleika Chelsea. Ef skoðaðir eru allir þeir tapleikir sem Chelsea hefur tapað á þessu tímabili þá eru þeir eftirfarandi:

  • Man City
  • Crystal Palace
  • Everton
  • Porto
  • Southampton

Á þessum lista er í raun bara eitt lið sem Chelsea á mögulega, undir venjulegum kringumstæðum, að tapa stigum á móti – Það er Man City. Öll hin liðin ættum við að vinna – sérstaklega á heimavelli eins og í tilfelli Palace og Southampton. Það sem er merkilegt við þessa tapleiki er sú að liðinu hefur tekist að tapa þeim nokkuð sannfærandi, einungis Crystal Palace leikurinn hefði mögulega átt að enda sem jafntefli. Það sem er ennþá merkilegra er að öll þessi lið eru að beyta sömu taktíktinni gegn okkar mönnum og hún er að svínvirka.
Til þess að átta sig á þessu þurfum við aðeins að spóla til baka. Á síðasta tímabili, þegar við vorum að spila hvað best, vorum við að færa liðið mjög vel upp völlinn, þannig gat Chelsea ýtt liðum aftar og látið varnarlínu andstæðingsins vera við vítateig, og látið svo Hazard, Fabregas, Costa, Oscar og Willian um að þræða sig í gegnum þéttan varnarmúr andstæðinganna. Lykilmaðurinn okkar í þessu „kerfi“ var Nemanja Matic, hann bindur saman vörn og sókn og hefur þennan eiginleika að geta komið boltanum upp völlinn með skynsömum hætti, ekki ósvipað Michael Carrick og þveröfugt við það sem Obi Mikel gerir, en hann gefur bara til baka eða til hliðar.

Það sem ofangreind lið gerðu var að setja gríðarlega pressu á þessa tvo miðjumenn okkar sem „sitja“, það eru yfirleitt Fabregas og Matic (stundum Ramires) með þeim afleiðingum að liðið nær ekki upp neinum sóknartakti og örsjaldan að stilla upp í flæðandi sókn. Á móti kemur að við erum að tapa boltanum á afar slæmum stöðum á vellinum. Þannig geta lið keyrt á okkar menn og náð fram „einn á einn“ stöðum sem við virðumst vera orðnir sérfræðingar í að tapa. Þar hefur Branislav Ivanovic verið fremstur meðal jafninga – hann hefur verið hörmulegur í stöðu hægri bakvarðar og hver vinstri vængmaðurinn á fætur öðrum beinlínis labbað í gegnum hann. Það er auðvitað gríðarleg einföldun að tala bara um að pressa sé sett á Matic og þá hrynur liðið, því allt liðið er ekki í neinum takti. Fabregas hjálpar t.d. Matic ekkert varnarlega, hápressan hjá Oscar, Willian, Hazard og Costa hefur verið mjög slæm og gert það að verkum að við vinnum boltann afar sjaldan hátt uppi á velli andstæðinganna. Allt þetta verður til þess að leikur liðsins riðlast með fyrrgreindum afleiðingum.

ce-maticÞað hefur ekki verið fyrr en á síðustu 15-20 mín í þessum tapleikjum þar sem við höfum náð að sýna brot af okkar hæfileikum, en þá eru mótherjarnir yfirleitt viljandi farnir að bakka til að halda fengnum hlut og taka minni sénsa. Þá fyrst sjáum við brot af fótbolta sem liðið spilaði í fyrra.

Þá komum við aftur að þessum punkti með að liðið hafi einfaldlega ekki verið í formi í upphafi leiktíðar. Þó svo að Palace, Everton eða Southampton setji pressu á okkar menn þá eiga þeir einfaldlega að vera það góðir í fótbolta að það á ekki að skipta neinu máli – Chelsea á að geta brotið slíka pressu á bak aftur eða farið aðrar leiðir. Það hefur bara ekki verið að gerast og þá komum við að lokapunktinum í þessari upptalningu sem er andlega hliðin. Með hverri slæmri frammistöðunni sem líður, hverri lélegri sendingunni, hverri tapaðri tæklingunni og hverju auka stiginu sem við töpum dýpkar holan sem liðið er búið að grafa sér – leikmenn hafa einfaldlega EKKERT sjálfstraust. Þannig lið vinnur ekki marga leiki, hvað þá titla.

Það er sagt innan íþróttasálfræðinnar að eitt það versta sem lið/íþróttamaður geti lent í sé að vera of hræddur við að tapa. Leikmenn Chelsea eru þar. Þeir eru hræddir við að tapa fleiri stigum og sökkva neðar og neðar í töflunni.

Að lokum hefur svo X-factorinn okkar, stórstjarna liðsins, besti leikmaður deildarinnar – Eden Hazard ekki verið svipur hjá sjón. Ef Chelsea á að berjast um titla þá þarf hann að vera góður í 8 af hverjum 10 leikjum. Hann hefur átt einn góðan leik það sem af er tímabili.

Jose Mourinho – hvað er til ráða?

Jose Mourinho hefur þegar sagt að þetta gengi liðsins sé það versta sem hann hefur upplifað á sínum ferli. Það furðulega er að í öllu þessu öngþveiti hefur Móri þótt standa sig hvað best af öllum í klúbbnum. Liðsvalið hefur verið skynsamlegt (að mestu) og öll hans tilsvör og viðmót hafa verið með þeim hætti að þarna fer maður sem er gjörsamlega trylltur yfir gengi liðsins og ætlar sér að snúa því við með öllum tiltækum ráðum. Eftir hvert einasta viðtal sem hann gefur er undirritaður alltaf jafn sannfærður um að nú muni allt verða frábært og að liðið muni fara á 15 leikja sigurgöngu. Hér munu einhverjir vilja minnast á Evu Carneiro og allan farsann í kringum það en það mál var ótrúlega uppblásið og hefur umræðan í kringum það einkennst af fáfræði, liðið var að spila illa á undirbúningstímabilinu og í opnunarleiknum gegn Swansea, þessir erfiðleikar skrifast ekki á þá ágætu konu.

Janúarglugginn getur ekki komið of snemma og þarf Róman að opna veskið og reyna einu sinni enn við Paula Pogba, ef það er ekki hægt þá er vert að skoða leikmenn eins og William Carvalho, Antoine Griezman, Axel Witsel og Aymeric Laporte. Liðinu vantar styrkingu og breidd.
Fyrir rúmum 11 árum síðan sagði Jose Mourinho á sínum fyrsta blaðamannafundi sem stjóri Chelsea að hann væri sérstakur. Joe Tweeds sem er einn besti Chelsea bloggari heims ritaði um daginn að nú væri Móri í þannig brekku að hann þyrfti virkilega að sýna hversu sérstakur hann væri. Það er rétt.

morMourinho er fæddur sigurvegari og mun koma liðinu upp þessa brekku. Það sem Chelsea þarf núna eru sigrar. Þeir mega vera ljótir, ósmekklegir og jafnvel ósanngjarnir, svo framarlega sem þeir eru sigrar sem skila þremur stigum. Móri þarf að núllstilla allt liðið og byrja frá byrjun. Besta leiðin væri hreinlega að múra fyrir markið, stilla upp lágri varnarlínu þar sem John Terry nýtist best og beita svo skyndisóknum eins og hann er frægur fyrir. Hann þarf að gefa Ivanovic frí og gefa þar með Azpilicueta séns í hægri bakverði og Baba vinstramegin. Á miðjunni ætti hann að prófa að spila Loftus-Creek með Matic og sjá hvort eitthvað jafnvægi náist þannig á miðjuna, hafa svo Fabregas fyrir aftan þá Hazard, Costa og Willian/Pedro. Ef liðið nær að setja saman nokkra sigurleiki og komast á gott „run“ er aldrei að vita hvernig þetta mót mun enda. Deildin virðist vera jafnari en áður, sást best þegar City tapaði fyrir West Ham og Tottenham með viku millibili – allir eru að vinna alla.

Það er sennilega best að enda þessa langloku á orðum fyrirliðans okkar eftir tapið gegn Southampton, ég er honum hjartanlega sammála – Móri mun snúa þessu við:

„We have a big group of players and we have the best manager who we remain behind and we remain together. I have been here a long time and I have seen managers come and go and if anyone is going to get us out of this hole it is going to be Jose Mourinho.“
Keep the blue flag flying high!

Jóhann Már Helgason

Upp