Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Sunnudagur 17. ágúst kl: 13:00
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Darren England
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Björgvin Óskar Bjarnason

Það er ekki amalegt að hleypa Chelsea-skútunni af stokkunum í komandi vetrarvertíð þegar hún getur flaggað fínum seglum og svo mörgum sigurfánum frá glæstum sigrum síðast tímabils. Þar á meðal titilinn Heimsmeistarar félagsliða eftir glæsilega 32 liða keppni FIFA í Bandaríkjunum í júní og júlí sl. Einnig sigur í Conference League UEFA í maí. Ekki síst góður endasprettur Chelsea í Úrvalsdeildinni þar sem fjórða sætið var tryggt og þar með þátttaka í Evrópukeppninni í vetur. Sigur Chelsea á Evrópumeisturum PSG í úrslitum sýndi okkur alveg nýja taktíska hlið á Maresca, og Chelsea sem kom PSG og held ég öllum íþróttaspekúlöntum á óvart. En Chelsea gerði eins og góður judókappi. Að nýta styrkleika andstæðingsins gegn honum sjálfum og breyta í veikleika. Hinir “flottu”, “léttleikandi”, “ósigrandi” og “glæsilegu” PSG-leikmenn vissu hreinlega ekki hvaðan á þá stóð veðrið í samskiptum við okkar menn sem hefði hæglega átt að skora fimm til sex mörk, en leikurinn endaði 3-0. Þarna sýndi Maresca meistaratakta í leikskipulagi sem leikmenn Chelsea túlkuðu af fullkomnun. Fremstur meðal jafningja var Cole Palmer sem og Joao Pedro sem keyptur nokkrum dögum áður. Einnig Pedro og Gusto í að hemja hraða og leikna bakverði og kantmenn PSG. En allir leikmenn okkar stóðu sig vel. Ekki síst Sanchez markmaður sem fékk töluvert uppreist æru eftir frekar köflótt leiktímabil.

Varðandi Sanches þá gerði ég samanburð á kallinum og Maignan og Donnarumma á FBREF (sem byggir á Optagögnum sl. heilt ár). Þar kemur Sanchez mun betur út (tölfræðilega) en hinir tveir leika í Serie A (#2) og Ligue 1 (#5) sem eru langt frá því að vera eins sterkar deildir og Premier League (#1). Það eru sennilega ævintýralegu mistökin hjá Sanchez sem sitja í okkur og lita okkar dómgreind varðandi markmanninn. Mér sýnist þó Maresca vera leyfa honum ýmislegt sem hann virtist ekki ánægður með í fari markmanna fyrir ári. Og Sanchez er að fá meira sjálfstraust. Maður er samt á nálum… eða þannig.
Undirbúningstímabilið.
Eftir þriggja vikna hvíld snéru leikmenn Chelsea aftur til Cobham í byrjun mánaðar og hófu undirbúningstímabilið. Allt annar bragur var á æfingaleikjum fyrir komandi tímabil en fyrir rúmu ári þar sem við unnum varla leik og allt leikskipulag var í tómu tjóni. Við lékum fyrri leikinn við Bayern Leverkusen og unnum hann auðveldlega 2-0 og seinni leikinn gegn AC Milan og unnum hann 4-1. Hvorugur leikurinn var leikinn sem “æfingaleikur” því ákefðin og harkan var slík að það hálfa væri nóg. Dómararnir í báðum leikjunum voru daprir. Og sá sem dæmdi AC Milan leikinn eyðilagði hann með því að reka miðvörð þeirra út af fyrir tæknibrot. Ekki það að hann dæmdi ekki eftir reglunum (samt réttilegur brottrekstur) heldur vegna þess að þetta er “vináttuleikur” en ekki keppnisleikur og ströng aðvörun hefði dugað. Mér fannst brotið hjá Quansah á Palmer í Leverkusen leiknum mikið groddalegra og ÞAÐ réttlætti brottvikningu. En það þarf líka að læra að leika manni fleiri svo æfingin nýttist.
Í þessum æfingaleikjum hafa nýir leikmenn fengið að reyna sig. Allt ungir og “efnilegir” leikmenn með framtíðina fyrir sér. Ég heillaðist mikið af Estavao í vetur en hugsaði með mér að brasilíska deildin væri ekki eins hörð og hröð og bolti leikinn í Evrópu. Club World Cup sannfærði mig um annað og brasilísku liðin voru engir eftirbátar evrópuliðanna. Estavao sýndi og sannaði í keppninni að hann er mjög hæfileikaríkur unglingur. Hann sýndi það enn frekar í þessum tveimur æfingaleikjum fyrir viku þar sem vakti athygli fyrir þroskaðan leik (og greinilegan hugsanaflutning milli hans og Palmers). Einnig fannst mér Gittens, Santos, Essugo, Hato, Joao Pedro og Delap eiga góða leiki. Nú er ég að tala um “nýju” leikmennina. Þeir “gömlu” klikkuðu ekki frekar en vanalega.


Leikmannamál.
Ég ætla ekki að tjá mig alvarlega um stöðu leikmannamála hjá félaginu fyrr en öll kurl eru komin til grafar en lauslega er staðan þannig að fjöldi leikmanna hafa verið seldir svo sem: Kepa, Petrovic, Bettinelli, Ugochukwu, Dewsbury- Hall, Amougou, Humphreys, Madueke, Felix og Broja.
Síðan eru nokkrir sem settir hafa verið á sölulista eða: Sterling, Chillwell, Disasi, Veiga, D. Fofana, Nkunku og Chuchwuemeka. Tyrique George og Jackson eru ekki beint á sölulista en verða seldir ef hagstæð tilboð berast. Síðan eru nokkrir ungir leikmenn þegar lánaðir eða verða lánðir: Penders, Sarr, Wiley, Paez, Guiu og Washington en Anselmino og Gilchrist fara á lán. Talað er um að kaupa vængmann og sóknarmiðjumann. Eins er orðrómur um kaup á miðverði en Colwill verður frá lungan af vetrinum. Allir vita að lítið er að treysta á Fofana og Badiashile er svipur hjá sjón eftir meiðsli. En eins og börnin segja, kemur í ljós.
Við sjáum því hvernig málin þróast þar til 1. september.
Veturinn framundan.
Chelsea er vel mannað fyrir veturinn svo fremi sem hinir hefðbundu meiðslapésar haldist þokkalega heilir og engir bætist við. Maresca hefur komið skikki og skipulagi á vörnina þannig að allt annar bragur er á henni en fyrir einum eða tveimur árum síðan. Maresca hefur einnig skerpt verulega á miðjuspilinu og sókninni og er nú með 2-3 menn í hverri stöðu. Þá er einfaldast að spyrja. Munum við skora fleiri mörk vegna fleiri marktækifæra og/eða betri skotnýtingar (xG)? Munum við skora fleiri mörk úr föstum leikatriðum en undanfarna vetur en þar eru við með þeim lélegustu í Deildinni? Spurningin er hvenær fara galdrar “sértæks leikatriðatæknis ”, sem ráðinn var, að virka. Rugbykappinn sem ráðinn var til að stappa stálinu í leikmenn og styrkja þá andlega er greinilega að vinna vinnuna sína. Andlegur styrkur okkar manna og samkennd er greinilega mun meiri en áður. Síðan kemur þessa einfalda spurning sem þarfnast svara. Hvernig bregst Chelsea við lágblokkarvörn eins og fjöldi liða lék gegn okkur með góðum árangri og mun örugglega gera í vetur? Munu markmennirnir okkar gefa “hefðbundin” 5-6 mörk vegna klaufaskapar og mögulega 4-7 stig eða hafa þeir bætt sig? Hafa leikmenn Chelsea þroskast það mikið að gulum spjöldum fyrir pirring, kjaftbrúk og óþarfa brot fækki? Og að lokum. Hafa leikmenn andlegt og líkamlegt úthald í langhlaup þar sem barist er á fjórum vígstöðum. Úrvalsdeildin, Meistaradeildin, FA bikarinn og Deildarbikarinn. Einu áhyggjurnar sem ég hef er hið langa keppnistímabil sem endaði með CWC og stuttur hvíldartími fyrir þetta tímabil.
Smá hugleiðing frekar en andakt.
Því ekki má gleyma að Deildin er langhlaup frá ágúst til maí. Það dugar ekki að eiga góða kafla öðru hverju. Vélin þarf að damla og torka allan tímann. Í fyrra var Chelsea með 34 stig eftir 16 leiki og í öðru sæti um miðjan desember (15.12). Þann 25 febrúar hafði Chelsea aðeins bætt við sig 12 stigum og dottið niður í 4 sæti. Í byrjun apríl var Chelsea dottið niður í 6 sæti og um miðjan apríl í 6-7 (með Aston Villa) sæti þegar liðið átti eftir að leika við Fullham (úti) Liverpool, Newcastle, Nott. Forest ásamt Man United og Everton sem Chelsea gengur yfirleitt illa með. En Chelsea hefur leikið 14 leiki síðan um miðjan apríl (töpuðum að vísu glórulítið gegn Legia Warsaw á Brúnni 17.4) og aðeins tapað tveimur þeirra eða gegn Newcastle og síðan gegn Flamingo. Í báðum leikjunum var Jackson rekinn út af (beint rautt) fyrir virkileg kjánafólskubrot. Ég hafði orð á því á Chelseaþræðinum að nú hefði Jackson gert endanlega í brækurnar og yrði látinn fara. Og markatala á þessum tíma (frá miðjum apríl) er 30 skoruð mörk gegn 10. Þannig að væntingar okkar áhangenda Chelsea eru miklar fyrir komandi vetur.
En það eru fleiri lið sem búist er við að standi sig vel í vetur þar sem þau hafa bætt við sig leikmönnum til að pússla upp í veikleika og endurnýja leikmannahópinn. Liverpool keyrði eiginlega á sjálfspilandi Kloppleikaðferðinn sl. vetur (með allri virðingu fyrir Slot) og var yfirburðalið í Deildinni. Nú er greinilegt að Slot ætlar að setja mark sitt á liðið með sínum aðferðum og leikmönnum en Liverpool hafa bætt við sig frábærum leikmönnum fyrir komandi vertíð. Það hafa Manchester City og Arsenal einnig gert þannig að baráttan um Evrópusæti hvað þá Englandsmeistaratitilinn verður hörð. Síðan má ekki gleyma að Manchester United er að púsla saman sterku liði. En öll lið verða erfið viðureignar eins og sýndi sig á líðandi vetri þegar “litlu” liðin voru hvað erfiðasti hjallinn fyrir Chelsea og mörg þeirra gerðu okkur skráveifur og jafnvel veittu alvöru skrokkskjóður.
Chelsea – Crystal Palace á Brúnni.
Crystal Palace var lengi vel meðal neðstu liða á töflunni á liðnum vetri. Eins og Chelsea þá girtu þeir sig í brók eftir miðjan apríl og unnu flesta leiki sína í deild og bikar eða gerðu jafntefli (í deild) gegn sterkum liðum eins og Liverpool og Arsenal. Þeir unnu síðan Manchester City í FA bikarúrslitum og hefðu með réttu átt að leika í Evrópudeild UEFA en blandað eignarhald meirihlutaeiganda félagsins (á einnig í Lyon sem vann sér rétt til að leika í Evrópudeildinni) kom í veg fyrir það. Crystal Palace var dæmt til að leika í sömu deild og Chelsea lék í í fyrra þ.e. Sambandsdeilinni. Báðir leikir okkar á síðasta tímabili við Crystal Palace enduðu 1-1 en ef ég man rétt þá fengu þeir góða aðstoð frá Jarred Gillet sem réttilega hefði átt að reka tvo Palace leikmenn (Kamada og Hughes) út af í leiknum á Brúnni, en dældi út gulum á Chelsea-leikmenn fyrir minnsta væl (út af dómgæslu). Crystal Palace var eiginlega jafn öflugt á útivelli sem og heimavelli og sýndu það enn og aftur í Góðgerðarskildinum á dögunum þar sem þeir unnu Liverpool í vítakeppni. Ég geri ráð fyrir að Góðgerðarskjöldurinn teljist ekki “alvöru” keppni eða “alvöru” bikar þegar maður reynir að ræða um fótbolta við púllaraskratta næstu mánuðina. Maður getur þó alltaf spurt þá álits á Heimsmeistarakeppni félagsliða.

En Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, hefur unnið gott starf með félagið þannig að ekkert félag getur bókað fyrirfram sigur gegn þeim. Þeir hafa leikmenn eins og Henderson, Guéhi, Lacroix, Sarr, Eze, Wharton, Lerma og tröllið Mateta. Kamata, Doucoure og Nketiah eru frá vegna meiðsla að mér skilst.
Í okkar ranni eru Colwill og Badiashile frá vegna meiðsla en Lavia og Fofana gætu verið á leiðinni til baka úr enduhæfingu. Chalobah hrelldi áhangendur Chelsea þegar hann hökti út af um miðjan leik gegn AC Milan. Í ljós kom að honum leið eitthvað illa í hitanum og var skipt út af. Ég geri því ráð fyrir að Maresca stilli liðinu þannig upp: Sanchez, James, Tosin, Chalobah, Cucurella, Caceido, Enzo, Neto, Palmer, Gittens og J. Pedro. Mögulega koma Estevao, Delap og Gusto eitthvað við sögu. Einnig einhver þeirra: Santos, Essugo og Hato.
Ég ætla ekki að spá um úrslit en vona að Chelsea haldi áfram á sinni sigurbraut. Geri þó ráð fyrir barningsleik. Dómari er Darren English. Ég held að þessi dómari hafi aldrei dæmt leik hjá Chelsea.
Áfram Chelsea!
Birt með góðfúslegu leyfi CFC.is
https://www.cfc.is/post/heimaleikur-gegn-crystal-palace