Gianluca Vialli in memoriam- 1964 – 2023

Gianluca Vialli, fyrrum leikmaður og knattspyrnustjóri Chelsea Football Club, er látinn. Vialli hafði barist hetjulega við krabbamein í brisi undanfarin ár en þessi mikli keppnismaður varð að lokum að lúta í lægra haldi í þeirri baráttu, aðeins 58 ára að aldri.

Vialli fæddist í Cremona á Ítalíu 9. júlí 1964 og hóf feril sinn sem atvinnuknattspyrnumaður með heimaliðinu Cremonese hvar frammistaða hans vakti athygli ítalskra stórliða sem varð til þess að Sampdoria fékk kappann til liðs við sig og seinna meir var hann keyptur til Juventus.

Árið 1996 gekk Vialli til liðs við Chelsea Football Club og varð strax ákaflega vinsæll á meðal stuðningsmanna félagsins enda frábær knattspyrnumaður og mikill persónuleiki þar á ferð.

Þegar Ruud Gullitt var rekinn sem knattspyrnustjóri Chelsea í febrúar 1998 var Vialli ráðinn í hans stað, aðeins 33 ára að aldri og gegndi hann starfi knattspyrnustjóra félagsins ásamt því að leika áfram með liðinu til ársins 1999 en var svo látinn taka poka sinn sem knattspyrnustjóri liðsins í september árið 2000 en þá hafði hann víst „misst klefann“ eins og gömul klisja hljóðar.

Eitt síðasta verk Vialli sem knattspyrnustjóri Chelsea var að fá Eið Smára Guðjohnsen til félagsins en það fór þó svo að Eiður náði vart að spila undir stjórn Vialli en væntanlega kann Eiður sem og flestir ef ekki allir stuðningsmenn Chelsea Football Club Vialli bestu þakkir fyrir að hafa fengið Eið til liðs við félagið.

Síðar á ferli sínum stjórnaði Vialli m.a. Watford og varð svo aðstoðarmaður góðvinar síns, Roberto Mancini, er þjálfaði á þeim tíma ítalska landsliðið sem þeir gerðu að Evrópumeisturum landsliða sumarið 2020.

Á ferli sínum sem leikmaður Chelsea lék Vialli 88 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim 40 mörk, á þeim 19 mánuðum sem hann starfaði sem knattspyrnustjóri Chelsea vann félagið til 5 sigurlauna sem gerir Vialli að öðrum sigursælasta knattspyrnustjóra í sögu Chelsea Football Club, aðeins José Mourinho hefur fært félaginu fleiri sigurlaun sem knattspyrnustjóri félagsins.

Gianluca Vialli mun ávallt eiga stað í hjörtum stuðningsmanna Chelsea Football Club og mun minning hans lifa svo lengi sem knattspyrna verður leikin í nafni félagsins.

Hvíl í friði „Maestro“, takk fyrir allt og allt.

Stjórn Chelsea klúbbsins á Íslandi.

Upp