Fulham á útivelli

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  Sunnudagur 20. apríl kl: 13:00

Leikvangur:  Craven Cottage, London

Dómari: Anthony Taylor

Hvar sýndur: Síminn Sport 3 

Upphitun: Elsa Ófeigsdóttur

Eftir tap gegn Legia Warsawa sl. fimmtudag hefur Chelsea líklega orðið eina liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum evrópukeppni undir bauli stuðningsmanna sinna. Eftir á að hyggja var ég heppin að vera upptekin á meðan leikurinn fór fram en miðað við alla umfjöllun voru þetta skammarlegar rúmar 90 mínútur. Við getum aðeins krossað putta og vonað að okkar menn mæti með hausinn rétt skrúfaðan á í undanúrslit Sambandsdeildarinnar, þar sem við mætum sænska liðinu Djurgården í tveimur leikjum í byrjun maí. 

Ýmislegt hefur verið sagt um Maresca og hans leikstíl síðustu mánuði og verða neikvæð ummæli sífellt háværari, hluti stuðningsmanna vill hann burt og hafa nokkrir fréttamiðlar velt því fyrir sér hvort dagar hans séu taldir hjá Chelsea. Þá hafa ummæli Reece James um að frammistaða Chelsea á fimmtudag hafi verið vanvirðing við Sambandsdeildina, ekki orðið til að lægja öldurnar enda setur það spurningamerki við hugarfar hálaunaðra leikmanna og hvort þeir geti, kunni eða vilji yfir höfuð sinna vinnu sinni af fagmennsku. En hverju er raunverulega um að kenna, er það skorti á taktík frá þjálfara, áhugaleysi leikmanna, andrúmsloftinu á Stamford Bridge (skv. Maresca), illa samsettum hópi leikmanna eða samspil þessara og fleiri þátta. Engin svör hjá mér, því miður. 

Við segjum bara „Áfram gakk“ og horfum fram á veginn. Næsti leikur er gegn Fulham á Páskadag og því kjörið tækifæri til að japla á súkkulaði í tæpa tvo tíma yfir fótboltaleik sem verður vonandi æsispennandi. Chelsea situr í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar, einu stigi á eftir Man. City sem er í fimmta sæti. Aðeins sex leikir eftir af tímabilinu sem verða að vinnast til að eiga möguleika á meistaradeildarsæti. Fulham með sex stigum minna en Chelsea og situr í níunda sæti deildarinnar. Þeir eiga tækifæri á að vinna sér inn sæti í Sambandsdeildina á næsta ári með því að ná í sjöunda eða mögulega áttunda sæti deildarinnar. Ef ég skil reglurnar rétt þá fá EFL-bikarhafar (EFL bikar = Carabao cup) umspilssæti í Sambandsdeildinni. Þar sem núverandi EFL-bikarhafar (Newcastle) eru í meistaradeildarsæti, mun sambandsdeildarsætið færast til þess úrvalsdeildarliðs sem endar efst á eftir þeim sem hafa unnið sér inn þátttökurétt í öðrum evrópukeppnum. Sjöunda sæti ætti því að tryggja þátttökurétt í Sambandsdeildinni en áttunda sætið gæti einnig gefið þann rétt ef sigurvegarar FA-bikarsins eru í meistaradeildarsæti – en þá fer sæti í Evrópudeildinni til þess sem er efst í deildinni á eftir þeim liðum sem hafa þegar tryggt sér sæti í Meistara- og Evrópudeild.   

Gengi Fulham hefur verið sveiflukennt í síðustu fimm leikjum, tapað þremur en unnið bæði Liverpool og Tottenham á heimavelli. Það er kannski ágætt að minnast á það að okkur gekk ágætlega í deildinni þar til við töpuðum fyrir Fulham á öðrum degi jóla og röð tapleikja tók við. Leikmannahópur Fulham er heill, fyrir utan Reiss Nelson og þá leikur vafi á því hvort Harry Wilson verði tilbúinn til leiks eftir meiðsli sem hann hlaut gegn Man.United. Ég reikna með að Silva tefli því fram sínu sterkasta liði, með eða án Harry Wilson sem var fastur byrjunarliðsmaður þar til hann meiddist. 

Hjá Chelsea eru það góðkunningjar meiðslalistans sem eru fjarverandi: Fofana, Guiu, Slonina og Kellyman. Margir stuðningsmenn eru spenntir að sjá hvort Romeo Lavia fái nokkrar mínútur í leiknum en hann byrjaði að æfa með liðinu í vikunni eftir þrálát meiðsli í læri. Það er líklegt að þeir leikmenn sem voru hvíldir á fimmtudag fái sæti í byrjunarliðinu en ég tel eftirfarandi byrja inn á gegn Fulham: Robert Sanchez; Reece James, Trevor Chalobah, Levi Colwill, Marc Cucurella; Moises Caicedo, Enzo Fernandez; Cole Palmer, Noni Madueke, Pedro Neto; Nicolas Jackson. 

Eins mikið og mig langar að spá okkur sigri þá tel ég að Fulham mæti vel peppaðir í þennan leik og með óbragð í munni spái ég þeim sigri, 2-1, Jackson setur eitt fyrir okkur. 

Áfram Chelsea. 

#KTBFFH

Færslan er birt með góðfúsleyfi leyfi frá cfc.is

https://www.cfc.is/post/fulham-%C3%A1-%C3%BAtivelli

Upp