Aðalfundur Chelsea klúbbsins á Íslandi 2019 fór fram í Hvammi á Grand Hótel Reykjavík laugardaginn 2. nóvember síðastliðinn og var mæting mjög góð, 48 félagsmenn mættu á fundinn sem verður að teljast býsna gott. Dagskrá fundarins var með hefðbundnu sniði, formaður félagsins ávarpaði fundargesti og bauð þá velkomna, að því loknu tók Sölvi Sveinsson við fundarstjórn í fjarveru Ingvars J Viktorssonar og stýrði fundi af röggsemi.
Formaður las skýrslu stjórnar og var þar stiklað á stóru varðandi starfsemi félagsins starfsárið 2018 -2019, gjaldkeri félagsins fór að því loknu yfir ársreikning þess og útskýrði tölur er þar komu fram, bæði tekjur sem og gjöld og kom þar fram að rekstur félagsins er í góðu jafnvægi og réttu megin við núllið eins og ávallt.
Skýrsla stjórnar og ársreikningur voru samþykkt einróma af fundarmönnum.
Fram komu tvær tillögur um breytingar á lögum félagsins og voru þær báðar samþykktar, annars vegar að fækka stjórnarmönnum úr átta í fimm, hins vegar að komi ekki framboð til stjórnar fyrir tilskilinn frest þar um í lögum félagsins og stefni í að stjórn verði undirmönnuð skuli félagsmönnum heimilt að tilkynna um framboð til stjórnar á aðalfundi félagsins.
Karl H Hillers var kosinn formaður félagsins og í stjórn með honum voru kosnir Helgi Rúnar Magnússon, Kristján Þór Árnason, Pétur Pétursson og Pétur Bjarki Pétursson en allir sátu þessir aðilar í fyrri stjórn félagsins.
Úr stjórn hurfu Bjarni Bjarkason, Bragi Hinrik Magnússon og Eyjólfur Aðalsteinn Eyjólfsson og eru þeim færðar þakkir fyrir þeirra framlag til félagsins á undanförnum árum.
Endurskoðendur félagsins voru báðir endurkjörnir en þeir eru Sölvi Sveinsson og Þórður Óskarsson.
Þá voru endurkosnir í laganefnd þeir Birgir Ottó Hillers og Friðrik Þorbjörnsson, stjórn félagsins mun svo skipa formann laganefndar á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar, lögum félagsins samkvæmt.
Á aðalfundinum var Birgir B Blomsterberg kjörinn heiðursfélagi í Chelsea klúbbnum og er hann fjórði einstaklingurinn sem verður þess heiðurs aðnjótandi, áður höfðu Eyjólfur Þ Þórðarson, Ríkharður Chan og Ingvar J Viktorsson verið kjörnir heiðursfélagar.
Því næst var dregið í árlegu happdrætti aðalfundar, vinningshafar fjölmargir og vinningar af ýmsu tagi.
Að þessu öllu loknu ávarpaði nýkjörinn formaður fundarheim, þakkaði traustið og hlýjar kveðjur og fullvissaði fundarmenn um að nýkjörinn stjórn myndi vinna að framgangi félagsins af bestu getu með hag þess og félagsmanna að leiðarljósi.
Fundarstjóri sleit svo í framhaldinu fundi.
Rúsínan í pylsuendanum var þó eftir, bein útsending frá leik Watford og Chelsea í Úrvalsdeildinni hvar leikmenn Chelsea fóru á kostum, það gerði Willum Þór, sparkfræðingur Chelsea klúbbsins einnig.
Öll umgjörð, veitingar og þjónusta af hálfu starfsmanna Grand Hótels Reykjavíkur var til fyrirmyndar.
Stjórn Chelsea klúbbsins færir öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að gera þennan dag bæði ánægjulegan og vel heppnaðan bestu þakkir.