Eins og fram hefur komið var Eden Hazard kosinn leikmaður ársins hjá stuðningsklúbbum Chelsea Football Club og mun það koma í hlut fulltrúa East Belfast Supporters Club, Norður Írlandi, að afhenda Hazard viðurkenningu fyrir hönd þeirra klúbba er þátt tóku í kjörinu og mun sú athöfn fara fram fyrir leik Chelsea og Crystal Palace á Stamford Bridge sunnudaginn 3. maí n.k.
Stuðningsklúbbur Chelsea í Hasting var sá klúbbur á Bretlandseyjum hvar nýjum “True Blue Members” fjölgaði mest á árinu 2014, Mighty Belgium Blues hafði vinninginn í Evrópulöndum utan Bretlandseyja og Saudi Arabia í löndum utan Evrópu. Fulltrúum fyrrgreindra klúbba bíður svo heimsókn til Cobham í tilefni áfangans en til gamans má geta þess að Chelsea klúbburinn á Íslandi hefur einu sinni hlotið þennan heiður, þ.e. árið 2012.
Vorhappdrætti
Minnum á að vorhappdrætti Chelsea klúbbsins er í fullum gangi, skorum á félagsmenn að styðja við bakið á starfsemi klúbbsins og fjárfesta í a.m.k. einum miða en miðaverðið er aðeins kr. 500.- (setur engan á hausinn), veglegir vinningar að vanda.
Miði er möguleiki, enginn miði, enginn vinningur!
Orkulykillinn
Þá glittir í Chelsea Ofurdag hjá handhöfum Chelsea Orkulykils, um að gera fyrir þá sem ekki hafa virkjað eða orðið sér úti um Chelsea Orkulykil að gera slíkt hið fyrsta, ekki veitir af að keyra niður kostnaðinn við rekstur sjálfrennireiða fjölskyldunnar.
Og endurnýjanir / nýskráningar fyrir starfsárið 2015 – 2016 eru nú komnar í fullan gang, um að gera að drífa í hlutunum og tryggja sér Loyalty punktana fimm sem fyrst
Knattspyrnumót í Bandaríkjunum
Nú hefur verið ákveðið að Chelsea taki þátt í alþjóðlegu knattspyrnumóti í Bandaríkjunum og það liður í undibúningi liðsins fyrir keppnistímabilið 2015 – 2016. Sex mjög sterk lið frá Evrópu verða á meðal þátttakenda auk liða frá Vesturheimi en lista yfir þátttökuliðin má sjá hér:
Chelsea – Barcelona – Club America – Fiorentina – LA Galaxy – Manchester United – New York Red Bulls – Paris Saint-Germain – Porto – San Jose Earthquakes
Stórleikur um helgina
Minnum á stórleik Arsenal og Chelsea á The Emirates á sunnudag, fjölmennum í Ölver og litum staðinn bláan!
Sendum ykkur að lokum bestu óskir um gleðilegt sumar um leið og við þökkum fyrir samstarfið á nýliðnum vetri.
Með meistarakveðju. Stjórnin.