Fran Kirby hefur verið kjörin leikmaður keppnistímabilsins 2020/2021 af enskum íþróttafréttamönnum og er það í annað sinn sem Kirby hlýtur þennan heiður, fyrra skiptið var fyrir keppnistímabilið 207/2018.
Kirby hefur verið algjörlega frábær á keppnistímabilinu, 16 mörk og 11 stoðsendingar, samvinna hennar og Sam Kerr alveg baneitruð fyrir andstæðinga Chelsea en Kerr hlaut einmitt gullskóinn fyrir flest skoruð mörk í WSL á tímabilinu eða 21 mark alls, mörg þeirra eftir stoðsendingar frá Kirby.
Afrek Kirby er athyglisvert í ljósi þess að hún missti nánast alveg af keppnistímabilinu 2019 en hún greindist með alvarlegan vírussjúkdóm (pericarditis) í nóvember 2019 og var jafnvel talið að ferill hennar sem knattspyrnukona væri á enda.
En sem betur fer fyrir kvennaknattspyrnuna fór ekki svo, Kirby mætti aftur til leiks síðasta haust, hafði frekar hægt um sig til að byrja með en svo datt hún svo sannarlega í gírinn og samvinna hennar og Kerr eftir það búin að vera alveg mögnuð.
Kirby, sem er fædd 29. júní 1993, hóf feril sinn með Reading hvar hún er fædd en gekk til liðs við Chelsea sumarið 2015 en til gaman má geta þess að hún setti 6 mörk á nýafstöðnu keppnistímabili gegn Reading.
Þess má geta að Sam Kerr varð í öðru sæti í fyrrnefndu kjöri.
Til hamingju Francesca með kjörið, svo sannarlega verðskuldað!