Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, var ómyrkur í máli eftir tap liðsins gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í Wolves. Leiknum lauk með 2:1-sigri Wolves en Pedro Neto skoraði sigurmark Wolves á fimmtu mínútu uppbótartíma eftir skyndisókn.
Olivier Giroud kom Chelsea yfir í upphafi síðari hálfleiks áður en Daniel Podence jafnaði metin fyrir Wolves á 66. mínútu.
„Ég er fyrst og fremst svekktur að hafa tapað leiknum,“ sagði Lampard í samtali við Sky Sports eftir leik en þetta var annað tap Chelsea í deildinni í röð.
„Við vorum með góða stjórn á leiknum í stöðunni 1:0 en við höfum líka oft spilað betur en við gerðum í kvöld. Við áttum líka að eiga betur við skyndisóknir þeirra. Við spiluðum nokkra leiki í röð án þess að tapa og kannski voru leikmenn liðsins komnir of hátt upp í skýin. Þegar að þú heldur að þú sért að spila vel þá geta svona hlutir gerst og það er ekki boðlegt að hugsa svoleiðis í ensku úrvalsdeildinni.
Við þurfum allir að gera betur,“ bætti Lampard við.