Keppni: Enska Úrvalsdeildin – 6. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagur 27. september kl: 14.00
Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir
Dómari: Simon Hooper
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Í ljósi þess hversu brösulega hefur gengið var kærkomið að eiga einn leik í þriðju umferð enska deildabikarsins (Carabao Cup). Þá áttust við Lincoln City úr League One og Chelsea á LNER Stadium, heimavelli Lincoln. Leikurinn vakti mikla athygli þar sem Lincoln, sem er í þriðju efstu deild Englands, tók á móti Chelsea í ekta stemmningu sem einkennir neðri deildir Englands. Lincoln byrjaði leikinn af krafti og náði óvæntri forystu á 42. mínútu þegar Rob Street nýtti sér varnarmistök hjá Chelsea, nánar tiltekið hjá miðjumanninum Enzo Fernández, sem sendi skelfilega lélega sendingu þvert yfir eigin vítateig sem missti marks. Markið kveikti í heimamönnum, sem héldu út hálfleikinn með 1-0 forystu. Chelsea, sem stillti upp blöndu af aðal- og varamönnum, virtist nokkuð ringlað í fyrri hálfleik gegn skipulögðu árasargjörnu varnarspili Lincoln. Í seinni hálfleik kom Chelsea til baka með látum. Aðeins þremur mínútum eftir leikhlé jafnaði hinn ungi Tyrique George metin með fallegu skoti utan teigs, sem fann fjærhornið stöngin inn. Aðeins fimm mínútum síðar, á 50. mínútu, skoraði Facundo Buonanotte sigurmark Chelsea eftir glæsilega samspilshreyfingu við George, þar sem hann kláraði með laglegu poti framhjá markverði Lincoln, Lukas Jensen. Lincoln reyndi að jafna undir lokin, en vörn Chelsea hélt þétt og tryggði 2-1 sigur. Leikurinn sýndi baráttugleði Lincoln City, sem skildi Chelsea eftir skelkað, en gæði úrvalsdeildarliðsins skiluðu þeim áfram í fjórðu umferð. Áhorfendur, rúmlega 10.000 talsins, sköpuðu frábæra stemningu, og leikurinn var talinn einn af hápunktum þriðju umferðar deildabikarsins. Lincoln geta borið höfðið hátt fyrir frækilega frammistöðu. Leikurinn skildi þó óþægilega tilfinningu fyrir stuðningsmenn Chelsea. Fyrri hálfleikurinn var afleitur og um tíma leit út fyrir að Chelsea myndu hljóta sömu deildarbikarörlög og Manchester United. Tyrique George var valinn maður leiksins en leikmenn eins og Andrey Santos og Facundo Buonanotte sýndu leiftrandi tilþrif. Það sama verður ekki sagt um vörnina og Filip Jörgensen. Tvær frammistöður í röð hjá þeim danska hafa virkað mjög ósannfærandi og kalla jafnvel á að Gabriel Slonina, þriðji markvörður liðsins, fái loksins tækifæri til að sýna sig.
Þetta gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig þar sem fleiri leikmenn hafa reporterað sig inn í sjúkraherbergið. Við fjölmennan hóp bættust Wesley Fofana og Tosin Adarabayo. Fofana glímir við afleiðingar heilahristings og verður ekki með í næsta leik gegn Brighton um helgina. Tosin meiddist í kálfa og verður á meiðslalistanum fram að landsleikjahlé ásamt Cole Palmer sem ýfði upp nárameiðslin sem hafa verið að angra hann að undanförnu. Marc Guiu var tæpur vegna meiðsla og lék ekkert gegn Lincoln, og alls óvíst er með þátttöku hans í leikjum sem eru framundan. Raunar gæti það farið svo, að ef meiðslin verða þrálát hjá Guiu er hætt við því að hann spili alls ekkert, í ljósi þess að hann geti farið á láni aftur í janúar. Ef hann leikur með Chelsea, þá girða reglur FIFA fyrir það að hann geti leikið með þremur liðum á einu tímabili. Málin standa þannig að Fofana, Tosin, Badiashile og Colwill eru meiddir – fjórir miðverðir, hvorki meira né minna af níu leikmönnum í heildina. Þetta minnir óneitanlega á meiðslabíóið sem æfingar Pochettino kostuðu okkur hér um árið. Desemberálagið er því heldur snemma í ár, líkast til vegna þátttökunnar í heimeistaramótinu í sumar. Ekki bætir úr skák þegar Buonanotte getur ekki leikið vegna þess hann er á láni frá Brighton.
Það er ærið verkefni fyrir Maresca að leysa úr. Nánast allir miðverðir og trequartistarnir tveir verða ekki með. Það er morgunljóst að Josh Acheampong verður paraður með Trevoh Chalobah, eftir að hafa jafnað sig af veikindum. Sennilega tíunda miðvarðaparið sem Maresca þarf að stilla upp. Chelsea aðdáendur hljóta að fara með bænirnar á hverju kvöldi í von um að Marc Cucurella og Reece James meiðast ekki. Álagið er töluvert mikið á þeim spænska, en sá klukkaði yfir 5000 leikmínútur á síðasta tímabili og það stefnir í annað eins. Fyrirliðinn okkar er enn í ströngu álagsaðhaldi og spilar sjaldan heilan leik, hvað þá helgina fyrir meistaradeildarleik. Það er því klárt mál að James og Gusto munu skipta hægri bakvarðarstöðunni bróðurlega á milli sín, í aðdraganda leiksins gegn Benfica. Á miðjunni erum við aðeins betur settir þar sem Andrey Santos er að koma sterkur inn í liðið. Því fleiri mínútur sem hann fær mun liðið verða betra og betra. Enzo Fernández, líkt og Cucurella, hefur spilað feykilega mikið að undanförnu, en í ljósi þess að bæði Palmer og Buonanotte verða ekki með, þá er líklegt að hann verði færður upp völlinn og Caicedo verði með Andrey Santos aftar á vellinum. Við megum ekki við fleiri skakkaföllum hjá miðjumönnum, þegar öryrkinn Lavia ætlar aldrei að verða klár, og Essugo á enn langt í land með sín meiðsli. En inn í svona tilvistarkrísum leynast tækifæri.
Úr Cobham akademíunni eigum við þó enn efnilega leikmenn eins og Reggie Walsh sem fékk fáeinar mínútur gegn Lincoln. Á móti kemur er að samtímis eiga U21 og U18 liðin líka leiki í sínum deildarkeppnum. Með kantstöðurnar þurfum við menn ferska, en það er líklegt að Pedro Neto og Estevao taki byrjunarliðssætin á sitthvorum kanti. Garnacho og Jamie Gittens eru varaskeifurnar en þeir tveir áttu hræðilegan leik gegn Lincoln, þá sérstaklega Gittens. Þessir félagar verða girða sig í brók og koma með eitthvað að borðinu, þrátt fyrir að þurfa eðlilegan aðlögunartíma, en liðin í Úrvalsdeildinni eru óvægin og andrúmsloftið getur fljótt breyst á Stamford Bridge. Maresca notaði Tyrique George í framherjastöðunni gegn Lincoln sem skilaði sér í marki og stoðsendingu, en við eigum ferkar von á því að Joao Pedro byrji leikinn gegn Brighton. Það er hjákátlegt að hugsa til þess að við lánuðum Nico Jackson sem fær varla að sjá grasið í Bæjaralandi.
Brighton mæta alltaf á hverju ári með nánast nýtt lið. Hürzeler hefur þó verið að gera ágætis hluti þótt liðið hefur einungis unnið einn sigur, gert tvö jafntefli og tapað tvisvar. Þrátt fyrir að við þekkjum til Mitoma, Baleba, Dunk og Verbruggen, þá er alveg eins líklegt að mörkin hjá þeim koma úr ólíklegri átt, hjá einhverjum leikmanni sem við þekkjum engan deili á. Brighton klúbburinn er afar vel rekinn og óhætt að segja að þeir kýli vel upp fyrir sína vigt. Hvort liðið spili leiftrandi pressubolta eða leggist í lágblokkina, þá er alveg öruggt að þetta verður erfiður leikur. Eina sem við aðdáendur getum beðið um er að eiga alvöru frammistöðu í 90 mínútur. Þessi tvíhyggja að vera gjörsamlega afleitir í öðrum hálfleik og fínir í þeim næsta gerir ekkert nema stilla okkur kyrfilega fyrir í krónísku kvíðaröskunarástandi. Við viljum auðvitað sigur í leiknum, en fyrst og fremst þarf liðið, sérstaklega varnarlínan að sýna alvöru frammistöðu og halda markinu hreinu í eitt skipti fyrir öll. Vaki allar góðar vættir yfir votti Chalobah. Sá þarf að sýna leiðtogahæfileika í fjarveru allra hinna.
Við hjá CFC segjum að þessi leikur fari 2-0 þar sem Estevao og Joao Pedro skori sitthvort markið. Það myndi samt ekki koma á óvart ef úrslitin yrðu á annan veg. Áfram Chelsea og KTBFFH! P.s. Munið að skrá ykkur í Chelsea klúbbinn. Þannig fáum við forgang í miðakaupum. Við fáum ódýrari miða á leiki, rétt eins og með Benfica leikinn í meistaradeildinni. Verðið fyrir sætið var £66. Rétt rúmlega 10 þúsund kr. + umsýsluþóknun hjá Chelseaklúbbnum. Miðarnir komnir í Chelsea appið, líkt og við þekkjum með Stubb appið í íslenska boltanum. Súper einfalt. Keypt beint af bónda en ekki af einhverjum braskara út í bæ. Skráið ykkur í klúbbinn – þetta er fjárfesting í ykkur sjálfum. Allar leiðbeiningar eru á www.chelsea.is – við komum svo með ferðasögu eftir Benfica leikinn í næsta pistli.
Birt með góðfúslegu leyfi cfc.is
https://www.cfc.is/post/chelsea-vs-brighton