Chelsea Ladies á Íslandi

Chelsea Women hefja titilvörn sína í WSL n.k. sunnudag er liðið mætir Arsenal á Emirates Stadium, í tilefni þess að boltinn er nú að fara að rúlla hjá stelpunum okkar að nýju rifjum við upp til gamans heimsókn forvera þeirra, Chelsea Ladies, til Íslands sumarið 2004.

Í júlímánuði 2004 kom kvennalið Chelsea (Chelsea Ladies) í æfinga- og keppnisferð til Íslands og hafði knattspyrnudeild Breiðabliks veg og vanda af heimsókn liðsins hingað til lands. Var heimsókn liðsins í tengslum við Gullmót Breiðabliks og JB byggingarfélags það sumarið.

Hér dvaldi liðið í vikutíma við æfingar og keppni, stúlkurnar léku tvo leiki hér á landi, fyrst við úrvalslið KSÍ, skipað blönduðu liði A-liðs kvenna og unglingalandsliðsins og fór sá leikur fram í Garðabæ en seinni leikur liðsins var gegn gestgjöfunum í Breiðablik og fór sá leikur fram á Kópavogsvelli.

Aðalskipuleggjendur heimsóknarinnar af hálfu Breiðabliks, þeir Benedikt Guðmundsson og Karl Brynjólfsson, komu að máli við formann Chelsea klúbbsins á Íslandi og buðu Chelsea klúbbnum að koma að heimsókninni á einn eða annan máta og var það að sjálfsögðu þegið með þökkum.

Til að mynda fóru hjónin Garðar Árnason, þáverandi varaformaður Chelsea klúbbsins, og eiginkona hans, Kristrún heitin Stefánsdóttir, sem leiðsögumenn með liðinu í skoðunarferð um Suðurland og var Gullni þríhyrningurinn að sjálfsögðu farinn, m.a. var snæddur dýrindis hádegisverður á Hótel Geysi í ferðinni.

Þess má geta að Garðar er nú ársmiðahafi á leiki með Chelsea Women.

Þá var stjórn Chelsea klúbbsins boðið til heljarins mikillar veislu er Breiðablik hélt til heiðurs Chelsea Ladies eitt kvöldið og var það glæsilega framtak alveg til fyrirmyndar af hálfu þeirra Breiðabliksmanna og kvenna.

Heimsókn Chelsea Ladies vakti töluverða athygli á sínum tíma, blíðskaparveður var allan tímann á meðan að á heimsókninni stóð og áttu gestirnir vart orð af hrifningu, bæði yfir gestrisni heimamanna sem og veðurblíðunni, náttúrufegurðinni og aðstæðum öllu.

Þá kom það gestunum skemmtilega á óvart hve vel var mætt á báða leikina.

Gaman er að segja frá því að heiðursgestir á leik Chelsea Ladies vs Breiðablik voru formaður Chelsea klúbbsins, Karl H Hillers og ritari klúbbsins, Birgir Blomsterberg, ásamt forseta bæjarstjórnar Kópavogsbæjar, Sigurrósu Þorgrímsdóttur og voru heiðursgestirnir kynntir fyrir leikmönnum beggja liða með pompi og pragt fyrir upphafsflautuna en rétt í þann mund er formaður Chelsea klúbbsins og fyrirliði Chelsea Ladies tókust í hendur var hringt í farsíma formannsins (sem hann var með í brjóstvasanum) og glumdi líka þessi fallegi hringitónn um Kópavogsvöll, nefnilega „Blue is the colour“ og vakti þetta mikla lukku þeirra er til þekktu.

Var formaður Chelsea klúbbsins grunaður um að hafa skipulagt þetta atriði en svo var alls ekki, ein af þessum skemmtilegum tilviljum, þáverandi gjaldkeri Chelsea klúbbsins, Helga Kr. Hillers, átti erindi við formanninn og gat vart hitt á skemmtilegra augnablik til að slá á þráðinn!

Chelsea Ladies var formlega stofnað 1992 en það var ekki fyrr en þetta sumar, 2004, sem liðið varð fullgildur aðili að Chelsea Football Club og vann sér svo rétt til að leika á meðal þeirra bestu að loknu keppnistímabilinu 2004 -2005 svo stúlkurnar virðast hafa haft gott af Íslandsheimsókninni.

En þá var áhugi hins nýja eiganda Chelsea Football Club, Romans Abramovich, líka vaknaður!

Upp