Chelsea gegn Wolves í deildarbikar

29. okt. 2025

Keppni:     Carabao EFL deildarbikar 4. umferð
Tími, dags:     Miðvikudagur 29.10 kl: 19:45
Leikvangur:     Molineux Stadium, Wolverhampton
Dómari:     Thomas Bramall
Hvar sýndur:    Viaplay Ísland
Upphitun eftir:     Þráinn Brjánsson

ree

Jæja þá er okkur boðið upp á miðvikudagsleik og nú er það Carabao cup eða enski deildarbikarinn. Um er að ræða fjórðu umferð þar sem við förum í heimsókn á Molineux leikvanginn í Wolverhampton og njótum gestrisni úlfanna að þessu sinni. Miðvikudagsleikir eru oft hressandi og það sérstaklega eftir leiðindaúrslit helgarleikjanna á undan og þau urðu örlög okkar Chelsea manna, en eftir góða byrjun gegn Sunderland og fyrsta mark Garnacho duttu okkar menn í gamla gírinn og gleymdu að spila fótbolta og misstu leikinn í jafntefli og síðar tap á síðustu mínútunum. Sem betur fer þá töpuðu fleiri lið sem höfðu tyllt sér í efri sæti deildarinnar svo munurinn er kannski ekki svo mikill. Í ljósi þess að svona mörg lið eru að gera fína hluti þá megum við bara fjandakornið ekki við því að missa mikið af stigum og þar af leiðandi hin liðin fram úr okkur, en ég hef svosem ekki gríðarlegar áhyggjur ennþá. Ef við höldum okkur aðeins lengur við Sunderland leikinn þá var hann bara alls engin skemmtun og við höfum allt of oft séð þetta gerast áður. Ég veit ekki hvort þetta er vanmat, en vil helst ekki trúa því þar sem Sunderland er að gera virkilega fína hluti í deildinni. Þeir eru klárlega spútniklið deildarinnar hingað til. En jákvæði punkturinn er þó að nýjasti Argentínumaðurinn okkar opnaði sinn markareikning með stæl og skulum við vona að hann fylgi þessu eftir. Mér fannst einhver þreyta einkenna leikmenn í þessum leik og það vantar enn að liðið keyri betur á andstæðinginn eftir að hafa komist yfir snemma leiks, og haldi uppi þyngri pressu strax á eftir og notfæri sér það að andstæðingurinn þarf að endurmeta stöðuna og ná aftur vopnum sínum. Það er þessi tilhneiging til að slá af og “taka  því rólega” þegar við komumst yfir snemma í leiknum og því þarf að breyta. En aftur að leiknum sem framundan er. Það verður að segjast að andstæðingar okkar, Wolves hafa ekki verið að gera sérstaklega gott mót til þessa og eru neðstir í deildinni með tvö stig og virðast í tómu tjóni eftir að hafa náð í eitt stig gegn Tottenham og eitt gegn Brighto. Hinn skapheiti þjálfari þeirra, Portúgalinn Vitor Pereira, er sennilega í einu heitasta sæti deildarinnar sem stendur. Samkvæmt öllu á þetta að vera tiltölulega auðvelt en sannið þið til, þetta verður engin garðganga!

Wolverhampton Wanderers:
Já það er ekki hægt að segja að hlutirnir séu að detta með Úlfunum þessar vikurnar og eftir níu umferðir eru aðeins tvö stig í pokanum og hvorki gengur né rekur. Vitor Manuel de Oliveira Lopes Pereira þjálfari þeirra hefur látið skapið hlaupa með sig í gönur og samband hans við stuðningsmenn er orðið eldfimt. Úlfarnir héldu sér með naumindum uppi eftir síðustu leiktíð og þá var víst stemmningin betri en er orðin súrari en meðal þorrabakki þessa dagana. En gleymum því ekki að liðið hefur fóstrað margan góðan knattspyrnumanninn og má þar helstan nefna Diogo Jota sem lék með Úlfunum frá 2017 til 2020 eða þar til hann gekk til liðs við Liverpool. Þó staðan sé ekki góð hjá liðinu þá segir það ekkert til um stemmninguna í leiknum sem framundan er og bikarleikir þróast oft öðruvísi en aðrir leikir. Úlfarnir leggja efalaust allt í sölurnar og tefla vafalaust fram sínu sterkasta liði, en þeir eiga til að mynda tvo brasilíska landsliðsmenn þá André og Joao Gomez, fyrirliðann Toti Gomes og fleiri prýðisleikmenn.

ree

Chelsea:
Ég tel víst að teningakastið hjá Enzo okkar Maresca sé hafið og á blaðamannafundi sagði hann að hann ætlaði sér að rótera nokkuð liðinu frá síðasta leik og nokkrir lykilmenn verða að öllum líkindum hvíldir. Góðar fréttir eru þær að Liam Delap er að koma til baka og mun vera leikfær en þó ekki í 90. mínútur. Miklar líkur eru á að þeir Enzo Fernandez, Joao Pedro og Moses Caicedo verði hvíldir fyrir átök næstu helgar svo ungstirnin fá væntanlega að láta ljós sitt skína. Það yrði nú gaman að sjá ungu mennina í miklu stuði og gefa okkur nokkur góð mörk og stimpla sig rækilega inn í liðið. Það er allavega ljóst að það má ekkert gefa eftir og þetta er ekki neinn venjulegur deildarleikur og vanmat á andstæðingnum er bara ekki í boði og þetta á að klára með stæl.

Liðsuppstilling og spá:
Ég á ekki von á að negla liðið eins rækilega og Guðni Reynir gerði fyrir Sunderland leikinn, en það er alltaf partur af þessu öllu og ég er nokkuð viss um að 4-2-3-1 kerfið verður enn og aftur fyrir valinu. Robert Sanchez verður á milli stanganna og fyrir framan hann verða Reece James, Chalobah, Acheampong og Cucurella. Á miðjuna ætla ég að setja þá Andre Santos og Romeo Lavia og á kantana fara þeir Garnacho og Pedro Neto og í holuna set ég Gittens og fremstan set ég Mark Guiu. Ég held að þetta geti orðið skemmtilegur leikur og nú má ekki detta í einhverja meðalmennsku. Ég vil sjá sóknarþunga frá fyrstu mínútu og ég er viss um að fleiri fá mínútur og þar á meðal Delap og það er alltaf ógn af honum þegar hann tekur sprettinn. Ég ætla að skjóta á 0 – 3 og Guiu setur eitt, Neto eitt og Estevao kemur inná í seinni og setur eitt.

Góða skemmtun og áfram Chelsea!!

P.S. Við minnum fólk enn og aftur að skrá sig í Chelsea klúbbinn. Fáum þannig miða á hagstæðu verði og jafnvel loyalty punkta fyrir bikarleik eins og þennan. Allar nánari leiðbeiningar fyrir skráningu og miðakaup má finna á www.chelsea.is

Birt með góðfúslegu leyfi cfc.is
https://www.cfc.is/post/chelsa-gegn-wolves-%C3%AD-deildarbikar

Joii
EiríkssonKjötsmiðjan
American Bar
Car RentalHársnyrtistofan