Chelsea gegn Liverpool

4. okt. 2025

Keppni: Enska Úrvalsdeildin 7. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagurinn 4. október  kl:16:30
Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir
Dómari: Anthony Taylor
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Hafstein Árnason & Þráinn Brjánsson

Ferðalagið á Chelsea leikinn – frásögn eftir Hafstein Árnason
Það var bjart yfirlitum þegar Chelsea klúbburinn á Íslandi ákvað að bjóða upp á hópferð á fyrsta heimaleik Chelsea í meistaradeildinni, undir forystu Blákastliðanna Ómars Freys og Stefáns Marteins.  Verðið fyrir ferðina var afar hagstætt. Flug til og frá London með hótelgistingu við Stamford Bridge. Þegar þarna var komið var ekki búið að draga í meistaradeildinni, en við vissum fyrirfram að það yrði fyrsta eða önnur leikumferð, en gegn hverjum var ekki vitað fyrr en drættinum lauk. Valmöguleikarnir voru Barcelona, Benfica, Ajax og Pafos.

Flestir ef ekki allir, sem höfðu hug á að fara í ferðina, pöntuðu sæti í þessa óvissuferð. Fyrsti heimaleikur Chelsea í meistaradeildinni í háa herrans tíð.  Uppúr því varð svo ljóst að Benfica ætti fyrsta leikinn á Stamford Bridge. Flestir mjög sáttir með þá niðurstöðu.  Þetta náði svo hápunkti þegar fyrstu umferð Meistaradeildarinnar lauk, með því að Benfica ráku þáverandi þjálfara sinn og réðu engan annan en José Mourinho. Fyrsta heimaleikurinn með sjálfum kónginum í heimsókn.  Þetta var toppurinn.  Eftirvæntingin hjá öllum var áþreifanleg í aðdraganda leiksins þar sem menn kepptust um að skipuleggja dagskrá í hópspjalli á Facebook messenger. En svo rann upp mánudagsmorguninn 29. september. Ég var nýkominn til vinnu árla morguns að setja afleysingastarfsmann inn í mín mál á vinnustaðnum þegar síminn titraði. Skilaboðin var skjáskot frá Keldunni, þar sem tilkynning frá Play var í forgrunni. Tilkynningin sagði að Play væri hætt starfsemi og öll flug féllu niður.  Afleysingastarfsmaðurinn spurði mig að einhverju, en ég heyrði ekkert í honum. Ég heyrði lágtíðnisuð og starði á skjáinn á símanum. Manni varð svo órótt með þetta að ég gat ekki lesið afganginn af fréttatilkynningunni. Flugið fyrir hópinn var áætlað með Play og það var illt í efni.

Út frá þessu hófst atburðarás sem er erfitt að koma í orð. Fyrsta sem kom í minn huga að var að bóka strax annað flug til London og tók það nokkrar tilraunir til, þar sem bókunarkerfi Icelandair var gjörsamlega á hliðinni. Úr fríðu föruneyti Chelsea klúbbsins fækkaði jafnt og þétt þar sem tími til ráðstafanna var af skornum skammti og verðin ekki sérlega kræsileg með svona skömmum fyrirvara. Í upphafi vorum við ca 12 sem ætluðum að fara en úr varð að við urðum einungis þrír eftir; Hafsteinn Árnason, Trausti Már Falkvard og Jóel Jens Guðbjartsson. Jóel Jens beið ekki boðanna og bókaði ferð með Lufthansa sem þýddi smá viðkomu í Frankfurt yfir nóttina áleiðis til London, bæði fram og til baka.  Trausti Már ákvað að slást í för með mér í Icelandair fluginu sem fór klukkutíma seinna en Play flugið var áætlað. Leiðin heim hjá honum var hinsvegar töluvert skrautlegri, en það var flug til Íslands með EasyJet frá flugvellinum í Luton, klukkan 6 eða svo að morgni með viðkomu í Póllandi. Sjálfur átti ég önnur erindi erlendis í framhaldinu, en þetta lögðu strákarnir á sig. Við bókuðum flugferðir með herkjum og undarlegum, misvísandi atriðum. Þegar ég lagðist sáttur á koddann að kvöldi mánudagsins, eftir akstur frá Akureyri, fékk ég skjáskot frá Jóel eða hann væri kominn núþegar upp í Leifsstöð. Hans ferðalag var rétt að byrja.

Morguninn eftir hittumst við Trausti í Leifsstöð og fór vel á með okkur. Icelandair var ekkert að spara til við þessa Lundúnaflugferð.  Boeing 767 breiðþota, þessi sem er með 2+3+2 sætaröðun. Trausti fékk sæti einhverstaðar um miðja vélina þar sem var þétt setið. Ég var í sæti 39C, sem er nánast aftasta röð. Það sem mætti manni var þykk hlandstækja eftir ameríkuflug vélarinnar (vænti ég).  Við erum að tala svo sterka lykt að það minnti mann á hlandbrunna grasrunna upp við girðingu á Hróarskelduhátíð á sunnudegi. Stækjan var svo svæsin að manni sveið örlítið í nefið, líkt og maður væri mættur í vestfirska skötuveislu. Ammoníakið kitlaði skilningarvitin. Greyið stelpan sem sat við hinn ganginn í sætaröðinni minni hélt um skilvitin sín. Mikil skarkalalæti voru neðan í flugvélinni þar sem við sátum, og það var ekki hægt að ímynda sér annað en það væri að skipta á þessum yfirfulla kamri. Til allrar hamingju þegar vélin var í flugtaki og loftræsingin orðin virk, þá féll allt í ljúfa löð.

Við lentum stundvíslega á Heathrow.  Ég bjóst við því að við myndum lenda í einhverju veseni í ljósi þess að Bretland er búið að herða landamæraeftirlitið sitt. Það var lítið mál að skrá sig inn í kerfið með þessu appi sem bresk stjórnvöld útvega til vegabréfsáritunar, en vegabréfið mitt er víst með ónýtum kubb eða hvað sem þessi rafeindabúnaður er í þessum pappírssnifsum.  Fyrir ykkur sem eruð í þannig stöðu, þá ráðlegg ég ykkur að sækja um nýtt. Starfsmenn í landamæraeftirlitinu voru heldur ráðvilltir þegar kom að þessu atriði hjá manni. Ég lenti í svipuðum vandræðum þegar ég ferðaðist á þessu vegabréfi í gegnum Tyrkland nokkrum árum áður, nema í það skipti héldu tyrkneskir landamæraverðir að vegabréfið mitt væri falsað.  Á endanum tókst það hleypa mér í inn í landið og ég var talinn ekki vera ógn við breska heimsveldið. Næst var málið að fara í lestirnar og beint niður á Fulham Broadway sem er næsta lestarstöð við Stamford Bridge. Við Trausti komum rétt uppúr hádeginu að hótelinu við Stamford Bridge.

Okkur var tjáð að væri búið að tékka okkur inn. Sá grunur læddist að okkur að það hefði verið Jóel. Við fengum því aukasett af rafkortum til að opna herbergið og vöktum okkar félaga, sem var einhverstaðar staddur milli svefns og vöku eftir ævintýralegu krókaleiðina um þýskar lendur. Það var svolítið sérstakt að deila herbergi með tveimur öðrum einstaklingum sem maður hafði ekki ferðast með áður, en allt er hey í harðindum. Chelsea bræðralagið er það sterkt og við ákváðum að koma okkar farangri fyrir og fá okkur í svanginn á mexíkóska veitingastaðnum Yucca í nágrenni vallarins. Það er óhætt mæla með þeim stað fyrir þá sem ætla á leik í vetur.  Þetta var ekki einhver Serrano búlla, þetta var alvöru eldamennska. Eftir matinn var haldið af stað á Butcher’s hook barinn sem stendur andspænis Stamford Bridge við Fulham Road.

ree

Eftir því sem leið nær leiktíma fylltist útisvæðið af stuðningsmönnum beggja liða, en til þess að komast inn á Butcher’s hook þurfti að sýna leikmiða til að komast inn. Þar hittum við líka annan Chelsea félaga, Ásmund Pálsson sem er búsettur í London. Hann hafði sett sig í samband við nokkru áður fyrir leik upp á að hittast. Þríeykið var því að hinum fjórum fræknu. Þar innandyra voru stuðningsmenn Chelsea víða að úr veröldinni, m.a. frá Bandaríkjunum, Írlandi og Indlandi í góðum gír. Hlaðvarpsmaðurinn geðþekki Joey Knight lét einnig sjá sig og var til í spjallið. Þegar nær dróg leiktíma hófust kóræfingar fyrir leikinn. Klassískt lög í bland við nýtt eins og “Estevao – ah ha – ah ha – we like it – ah ha – ah ha” við laglínu KC and the Sunshine band. Dúndurstemmning var meðal manna þegar við héldum áleiðis inn á Stamford Bridge.

Trausti með Joey Knight
Trausti með Joey Knight

Við höfðum óskað eftir sætum í Matthew Harding stúkunni þar sem mesti söngglaumurinn er að venju. Mestu lætin voru hægra megin í stúkunni og stundum tók hornið vinstra megin við okkur einnig vel undir.  Það verður líka að hrósa stuðningsmönnum Benfica sérstaklega fyrir sinn þátt í stemmningunni.  Þeir gáfu svo sannarlega ekkert eftir og stuðið og stemmningin á leiknum var til fyrirmyndar. Sældartilfinning lék um mann þegar meistaradeildarlagið ómaði um völlinn. Okkur þótti sérstaklega vænt um þegar Matthew Harding stúkan söng José Mourinho lagið og okkar maður í Benfica boðvanginum, veifaði hægri höndinni í okkar átt í þakklætisskyni. Maður verður þess áskynja hve mikil virðing er borin fyrir José Mourinho.

ree

Leikurinn var hnífjafn á að líta. Benfica fengu nokkur álitleg færi en lítið rataði á rammann og Robert Sanchez skildi eftir silfurfatið sitt heima. Við sáum Chelsea menn lenda ágætum sóknum við og við. Færið sem Pedro Neto skaut framhjá framkallaði mikið hópandvarp meðal sessunauta okkar. Það leið ekki að löngu þar til að glókollurinn Garnacho hafði náð að brjótast fyrir og negla góðri fyrirgjöf í teiginn sem við sáum enda óvart í netinu. Ég er kannski svo sjóndapur en ég áttaði mig ekki alveg á því hver hafði skorað. Við biðum í smá óvon hvort að VAR myndi skerast í leikinn en allt kom fyrir ekki. Markið stóð og við fögnuðum vel og innilega. Leikurinn var í járnum í raun allan tímann og stuðningsmenn Benfica og Chelsea skiptust á að hvetja sín lið áfram. Lítið breyttist í seinni hálfleik þannig séð, en við fögnuðum vel og innilega við að sjá leikmenn eins og Estevao og Joao Pedro koma inná.

ree

Raunar man maður ekki mikið eftir atvikum í leiknum en Benfica fékk nokkrar öflugar sóknartilraunir sem báru ekki árangur. Síðan kom í ljós að Joao Pedro fékk sitt seinna gula spjald, og þar með rautt. Við biðum í ofvæni eftir því að dómarinn myndi flauta leikinn af. Þegar það gerðist braust mikill fögnuður fram meðal stuðningsmanna Chelsea. Leikurinn var ágætis frammistaða og mikilvæg þrjú stig komin í meistaradeildinni. José Mourinho og félagar gátu borið höfuðið hátt fyrir feikna mikla baráttu en þeir áttu í miklum erfiðleikum með Moises Caicedo sem var eins og brimbrjótur á miðjum vellinum. Geggjaður leikur og vel þess virði að leggja allt þetta ómak á sig við að komast á völlinn. Eftir leikinn var haldið út af Stamford Bridge á næsta skyndibitastað. Jóel ákvað að yfirgefa okkur aðeins á undan en á heimleiðinni náði hann að hitta á Wesley Fofana. Það er oft þannig að við aðdáendur náum litlum en merkilegum augnablikum með leikmönnum liðsins. Er þetta tilefni til að fara á Chelsea leik aftur? Heldur betur. Við látum ekki búskussa í flugrekstri eyðileggja fleiri draumaferðir. Við reynum aftur síðar í vetur og þá verður fjölmennt.

Jóel Jens með Wesley Fofana

Jóel Jens með Wesley Fofana

Upphitun fyrir Liverpool leikinn, frásögn eftir Þráinn Brjánsson

Jæja nú er að duga eða drepast! Sjöunda umferð ensku úrvalsdeildarinnar framundan og Arne Slot og hans rauðliðar mæta á okkar ástkæra heimavöll. Þó gestrisni sé dyggð, þá er það ekki í boði að þessu sinni. Liverpool sem er að öllum líkindum líklegustu kandidatarnir til að sigra deildina og ógnarsterkt lið, þá eru þeir alls ekki óvinnandi þar sem þeir eru búnir að tapa tveimur leikjum núna í röð, annars vegar á móti Crystal Palace í deildinni og hins vegar í meistaradeildinni á móti Galatasaray. Tveir tapleikir í röð er staða sem Liverpool þekkir illa og nú er lag að ganga hart gegn særðu liði og hamra járnið. Til að ná góðum úrslitum þarf ansi margt að ganga upp og það er ljóst að það er ýmislegt að hjá okkar mönnum og vandamálin mörg. Mín skoðun er sú að helstu vandamál liðsins séu Enzo og Enzo. Margir kunna að reka upp stór augu við þessa fullyrðingu en skoðum aðeins málið.

Byrjum á Enzo Maresca og aðferðum hans við þjálfun liðsins. Hann er alls ekki slæmur þjálfari en hann er ekki heldur sérstaklega góður þjálfari. Þessi árátta hans að spila mönnum endalaust út úr stöðu er í meira lagi skringileg og hafa bara alls ekki gengið upp. Hann er óákveðinn með leikkerfi og skiptingar hans í leikjum eru sennilega jafn glórulausar og ákvarðanir Íslendinga í rekstri flugfélaga. Ef ég á að koma með dæmi um þetta þá má nefna tilraunir hans til að gera Reece James að miðjumanni!! Einum besta hægri bakverði heims í dag? Malo Gusto virðist aldrei vita hvað hann á að gera og þessi eilífu hlaup upp og niður kantinn skila engu. Ég held að við komum ekki til með að gera mikið annað en að berjast um sæti í meistaradeild undir hans stjórn. Ef við tökum þá fyrir Enzo Fernandez þá hefur hann ekki átt gott tímabil sem af er og það virðist sem hann hafi þá dagsskipun að hlaupa sem mest og virðist eiga að vera mjög sóknarsinnaður miðjumaður sem hentar honum ekki. Hann virðist ekki hafa lappir í þessi hlaup sem þarf hjá sóknarsinnuðum miðjumanni. Það verður til þess að seilist of langt fram sem verður til þess að Caicedo verður hálf einangraður á miðjunni, en er sem betur fer ennþá starfi sínu vaxinn og er búinn að vera frábær og farinn að þekkja sitt svæði og stjórnar því eins og kóngur.

ree

Maður sér það að seint í leikjum að Enzo er eins og sprengriðinn veðhlaupahestur eftir öll þessi hlaup sem litlu skila, en Maresca virðist vilja nota hann svona í stað þess að láta hann stýra miðjuspilinu og mata svo framherjana með sínum frægu sendingum. Ég kenni Enzo Maresca um þetta og ég held að hann hafi ekki alveg það sem þarf til að þjálfa lið á stóra sviðinu og aðdáendur Leicester hafa reyndar sagt að þeir hafi verið búnir að fá nóg af einkennilegu mati hans á aðferðum og leikkerfum. Ég vil sjá hann nota Andrey Santos meira og mér finnst ástæða til að gefa Estevao mun meiri tíma og gera hann sem fyrst að byrjunarliðsmanni. Hvað rauðu spjöldin sem við höfum verið að fá varðar þá hefur Maresca víst beðið þá að hætta þessu. Ég veit að ég er kannski ekki sá jákvæðasti gagnvart Maresca, en það þýðir ekkert að rausa lengur um það og hver veit nema hann hrökkvi í gang, sjái ljósið og detti í gírinn. Fyrir leikinn gegn Liverpool þá erum við að minnsta kosti með vindinn í bakið eftir sigur gegn Benfica í Meistaradeildinni þrátt fyrir að Benfica hafi sýnt okkur þá fádæma gestrisni að skora fyrir okkur sigurmarkið því leikurinn var ekkert meistaraverk af hálfu Chelsea en þrír punktar eru í pokanum og kvarta ég ekki yfir því.

Chelsea
Það verður áskorun fyrir þann ítalska að finna lykilinn að Liverpool þar sem nokkuð er um meiðsli og menn á rauðum spjöldum. Það er ljóst að Cole Palmer verður fjarri góðu gamni þar sem hann er meiddur og einnig er Santos frá af sömu ástæðu. Trevor Chalobah tekur út leikbann og verðum við að vona að vörnin þjappi sér vel saman og nái vopnum sínum. Það væri gaman að sjá meiri hraða og ákveðni í spilinu. Þó við höfum ekki náð sigri í þremur síðustu deildarleikjum, þá þykir mér upplagt að nú sé komið að því að fagna en við verðum þó að muna að Liverpool hafa tapað tveimur síðustu leikjum sínum. Það er staða sem er þeim ekki að skapi og þeir ætla sér klárlega að snúa því dæmi við. Í þessum pistli hef ég kannski verið full neikvæður í garð Enzo Maresca, en í sannleika sagt þá hef ég bara ekki nógu mikla trú á honum, en væri þó aldeilis tilbúinn til að tyggja sokk ef ég hef rangt fyrir mér og verð að vona það besta.

Liverpool
Það er nokkuð ljóst að Liverpool er það lið sem er lang líklegast til að vinna englandsmeistaratitilinn í vor enda er liðið ógnarsterkt og hver stórstjarnan gengin til liðs við drengina frá Bítlaborginni. Leikmannalistinn sem inniheldur nýja leikmenn er rosalegur og má þar helsta nefna Milos Kerkez, Florian Wirtz, Hugo Ekitike, Jeremie Frimpong og síðan en ekki síst Alexander Isak en allir muna sirkusinn í kring um þann flutning frá Newcastle. Þó virðist sem margar nýju stjörnurnar séu ögn lengur í gang, en á góðum degi eru afskaplega fá lið sem ganga með öll stiginn frá viðureign við Liverpool og að auki virðist meistaraheppni fylgja liðinu. Þeir hafa oftar en ekki náð góðum úrslitum á síðustu augnablikum leikjanna. Auk nýju mannanna þá þarf vart að minnast á Mohamed Salah og alla hina því það er stórstjarna hvar sem maður drepur niður fæti í þessu frábæra liði. En það er ekkert lið óvinnandi og við verðum að hafa sjálfstraustið uppi í topp.

Liðsuppstilling og spá:
Eins og ég sagði í upphafi pistils þá er nú að duga eða drepast og það er klárt að bæði lið þurfa stig. Ég vona innilega að Maresca sjái ljósið og detti niður á réttu blönduna. Sanchez verður á milli stanganna og þar fyrir framan verða Reece James, Acheampong, Badiashile og Cucurella. Á miðjunni verða meiðslapésinn Lavia og Caicedo og Enzo verður í holunni, Estevao og Pedro á köntunum og Joao Pedro verður sjóðheitur fremstur. Þetta verður barátta frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og mikið skelfing væri gaman að sjá drengina á sínum besta degi og megi One step beyond hljóma fram eftir öllum laugardeginum. Það er kannski dirfska en eftir að hafa rýnt í rúnirnar, þá er ég bjartsýnn á sigur og legg aurinn á 2 – 1 sigur og það verða Estevao og Joao Pedro sem skora mörkin.

Góða skemmtun og áfram Chelsea!!

Birt með góðfúslefu leyfi cfc.is
https://www.cfc.is/post/chelsea-gegn-liverpool

Joii
EiríkssonKjötsmiðjan
American Bar
Car RentalHársnyrtistofan