Chelsea gegn Fluminense

Keppni: FIFA Club World Cup

Tími, dagsetning: Þriðjudagur 8. júlí  kl: 19:00

Leikvangur: MetLife Stadium, New Jersey 

Dómari: Francois Letexier (Frakkland)

Hvar sýndur: DAZN

Upphitun eftir: Hafstein Árnason

Það hefur drifið margt á dagana hjá Chelsea að undanförnu, bæði innan og utan vallar. Það helsta sem er að frétta er að Jamie Gittens var staðfestur sem nýjasti leikmaður Chelsea, rétt á eftir Joao Pedro kaupunum sem við fjölluðum um í síðasta pistli. Sagt er að Chelsea vilji hafa 9 framherja til taks í hópnum fyrir næsta tímabil, en það má búast samt við einhverjum hrókeringum. Hinn lúsiðni blaðasmaður Fabrizio Romano, tilkynnti nokkuð óvænt að Noni Madueke væri búinn að samþykkja samningstilboð frá Arsenal. Nú er það undir klúbbunum komið að komast að samkomulagi um kaupin. Sagt er að Chelsea sé að leita eftir að minnsta kosti 40 milljónum punda frá nágrönnunum. Það kemur í kjölfar þess að þeir keyptu Kepa frá okkur á 5 milljónir punda. Við höfum selt svo marga leikmenn komna yfir besta skeið til Arsenal, að það skapar hugrenningatengsl með að fara út með sorpið og ruslakarlateymið úr Norður Lundúnum mæta á ruslabílnum. En einhverntímann hlýtur að koma að því að við munum sjá eftir einhverri sölu. Verður það Noni Madueke? Tíminn mun leiða það í ljós. Hinsvegar er ekki annað hægt að segja, að þrátt fyrir ágæta hæfileika Madueke, sérstaklega við að sprengja upp einn-á-einn stöður, þá hefur uppskeran hjá heldur rýr þessi tæplegu þrjú tímabil sem hann hefur verið í Chelsea. 67 leikir í deildinni, 13 mörk og 7 stoðsendingar og meðaltal á 90 mínútum hefur lækkað undir stjórn Maresca. Það er helst hvað hann skapar lítið fyrir liðsfélaga sem stingur örlítið í augun verandi með svona marga byrjunarliðsleiki á köntunum. Sama mætti segja um óstöðugleika í frammistöðum. Greinarhöfundi hefur angrað sig á því hvernig viðmótið og líkamstjáning hefur verið á köflum hjá honum, en ef ásættanlegt tilboð berst frá Emirates vellinum, þá ættum við klárlega að selja. Stöðugur fréttaflutningur er frá Portúgal að Benfica séu að leita lausna til að kaupa Joao Felix, og sagt er að 30 milljónir evra sé líkleg lending. Sá verðmiði er einnig á Axel Disasi, sem stóð sig prýðilega hjá Aston Villa á láni. Villareal, ásamt ónefndum liðum í ensku úrvalsdeildinni og á Ítalíu hafa sýnt áhuga. Athugið sérstaklega að í tilfellum þeirra sem eru á löngum samningum, þá eru slíkir leikmenn bókfærðir á býsna lágu afskriftarverði per ár, í sanngirnisbókhaldinu. Þannig að sölur upp á 30 milljónir evra gæti jafnvel komið út í plús þegar upp er staðið. Djordje Petrovic er sagður á leið til Sunderland og klúbbar í Ensku Úrvalsdeildinni séu að skoða Lesley Ugochukwu þar sem lán er útilokað. Dortmund hafa þó beðið um framlengingu á láni Carney Chukwuemeka um eitt tímabil í viðbót. Þar fyrir utan erum við með „bomb squad“ sem verður líklega að telja Raheem Sterling, Ben Chilwell, Armando Broja, Renato Veiga og mögulega Christopher Nkunku, en orðrómurinn um hann til Manchester United lifir enn. Undarlegasta sagan sem flýgur núna er Emiliano Martínez, markvörður Aston Villa, en hann kemur með verðmiða uppá 40 milljónir punda eða svo. Líklega er það eitthvað umboðsmannahjal eða Aston Villa að bjóða hann til annara liða, í ljósri þröngra fjárhagsstöðu félagsins. Það féll í grýttan jarðveg hjá William Gallas. Nýr markvörður myndi þýða ansi mikla hrókeringar á markvarðastöðum með Robert Sanchez líklegan til brottfarar, en í ljósi þess að hann fyrsta val Maresca er ekkert að frétta. Max Allegri þvertók fyrir það að Mike Maignan myndi fara frá AC Milan í sumar, en við vitum öll að samningurinn Maignan rennur út næsta tímabil. Hver veit hvað gerist þá? Eina sem Chelsea þarf núna er stöðugleiki í leikmannahópinn og þá sérstaklega vörnina. Það sem væri skynsamlegast væri að eiga varaskeifu fyrir Marc Cucurella svo álagið á þeim hárprúða manni sé stýrt af einhverju viti. Greinarhöfundur er þó harður á þeirri skoðun að Chelsea þurfa heimsklassa markvörð til að kljást um stærstu titlana. Það er engin furða að liðin sem eiga Thibaut Courtois, Gigi Donnarumma og Manuel Neuer séu langt komin á heimsmeistaramótinu. Maignan og Martínez eru prófílar skör neðar, en langt fyrir ofan það sem við höfum nú þegar. Við eigum þó efnilega markmenn í Penders og Slonina, en báðir þurfa að komast á lán hjá klúbbum sem eitthvað vit er í. Við fáum líklega ekki að sjá Mike Penders á þessu heimsmeistaramóti, þar sem Maresca er orðinn íhaldssamur á uppstillingar. En snúum okkur að mótinu vestan hafs. Chelsea mætti Palmeiras í átta liða úrslitum um liðna helgi. Bláliðarnir sýndu karakter og tryggðu sér 2-1 sigur í leik sem hélt stuðningsmönnum á sætisbrúninni. Enzo Maresca stillti upp sterku liði þrátt fyrir að Moises Caicedo væri í leikbanni og Reece James meiddist í upphitun. Andrey Santos kom inn á miðjuna og stóð sig frábærlega. Chelsea tók strax stjórn á leiknum, hélt boltanum vel og skapaði pressu. Cole Palmer setti tóninn á 16. mínútu með glæsilegu marki – yfirvegað skot sem fann netið. Fyrri hálfleikurinn var undir stjórn Chelsea, þótt Palmeiras vörnin héldi þeim inn í leiknum.

Palmeiras kom sterkara til baka í seinni hálfleik, drifið áfram af ungstirninu Estêvão, sem gengur til Chelsea að mótinu loknu. Á 53. mínútu jafnaði hann metin með glæsilegu skoti úr mjög þröngu færi, sláin-stöngin-inn, sem kveikti í brasilísku stuðningsmönnunum á vellinum. Frammistaða Estêvão var áminning um hvers vegna Chelsea tryggði sér þennan 18 ára snilling, þótt það hafi verið sárt að særa sitt framtíðarlið. Leikurinn varð æsispennandi, með báðum liðum að sækja af krafti. Levi Colwill og Tosin Adarabioyo stóðu vaktina í vörn Chelsea, þótt Colwill hafi fengið gult spjald sem útilokar hann frá undanúrslitum. Þegar leið á virtist framlenging blasa við, en Chelsea náði inn óvæntu sigurmarki. Á 83. mínútu kom Malo Gusto, sem átti frábæran leik, með nákvæma fyrirgjöf. Boltinn tók óheppilega snertingu af varnarmanninum Agustín Giay og síðan markverðinum Weverton, sem var illa staðsettur, og endaði í netinu. Sjálfsmarkið var sárt fyrir Palmeiras, en Chelsea fagnaði láninu. Lokamínúturnar voru kaotískar, en Bláliðarnir héldu út og tryggðu sæti í undanúrslitum. Eftir leikinn tók Estêvão smá spjall við Cole Palmer þar sem falleg orð fóru á milli manna, með hjálp Dario Essugo, sem sá um að miðla málum á portúgölsku og ensku. Við vonum þó að sá brasilíski læri enskuna fyrr en seinna.

Cole Palmer var maður leiksins, en Malo Gusto og Andrey Santos sýndu mikinn stöðugleika. Noni Madueke kom inn af bekknum og bætti krafti í sóknina. Maresca fær hrós fyrir útsjónarsemi, sérstaklega í ljósi meiðsla og leikbanna. Næst mætir Chelsea Fluminense, sem sigraði Al-Hilal 2-1, í undanúrslitum 8. júlí á MetLife Stadium (heimavelli New York Giants og New York Jets). Í hagstæða hluta útsláttarkeppninnar er draumurinn um annan FIFA Club World Cup titil innan seilingar. Þessi sigur sýndi hjartað í Chelsea. Stuðningsmenn í Fíladelfíu fengu kvöld til að muna, og nú er horft til næstu áskorunar.

Fluminense hefur sýnt óvænta styrkleika í keppninni, undir forystu hins fertuga Thiago Silva. Með þremur „hreinum lökum“ gegn Borussia Dortmund, Mamelodi Sundowns og Inter Milan, og 2-1 sigri á Al-Hilal, hefur liðið sannað sig sem ógnvekjandi keppinaut. Sýnd veiði en ekki gefin. Thiago Silva, með alla sína reynslu og leiðtogahæfileika, stýrir vörn og skipuleggur liðið á vellinum, sem skilaði óvæntum sigrum á evrópskum og asískum risum. Fluminense spilar agaðan varnarleik með hröðum skyndisóknum og geta líka pressað þegar sá háttur er á þeim. Þeir hafa stillt upp bæði þriggja og fjögurra manna varnarlínum, ýmist í 3-5-2 og 4-3-3. Hinn kólombískí Jhon Arías og argentínski félagi hans German Cano skipta sköpum sem fremstu menn ásamt því að djúpi varnarmaðurinn þeirra Hercúles hefur skorað tvö mörk komandi af bekknum. Chelsea verður að loka á sendingaleiðir til Cano og takmarka pláss á köntunum til að lágmarka hættuna. Matheus Martinelli og Juan Freytes verða í leikbanni, en bakvörðurinn Rene kemur til baka eftir að hafa tekið út leikbann gegn Al Hilal. Það sem er einnig áhugavert við Fluminense er að Ganso er í hópnum þeirra, en hann var talinn ein bjartasta von Brasilíu á sínum tíma ásamt Neymar. Football Manager nördar kannast væntanlega við þann kappa. Hann er hinsvegar 35 ára í dag… en aldursforsetinn í liðinu er markvörðurinn Fábio sem er hvorki meira né minna en 44 ára! Hvernig stillum við upp? Með Levi Colwill og Liam Delap í banni, og Romeo Lavia enn meiddan (er þó byrjaður að æfa), en Reece James verður með og örugglega í byrjunarliði í hægri bakverði. Robert Sanchez verður í markinu sem fyrr. Marc Cucurella vinstri. Beniot Badiashile er meiddur þannig að það er öruggt að Trevoh Chalobah og Tosin Adarabayo verða miðverðir. Miðjan verður því Moises Caicedo og Enzo Fernandez með Cole Palmer í holunni. Pedro Neto verður án efa á öðrum kantinum og ætli Noni Madueke fái ekki startið frekar en Nkunku, ef marka má síðasta leik? Nico Jackson verður til taks eftir en hann fékk ekki mínútu gegn Palmeiras. Er rauða spjaldið að segja til sín? Sennilega, og við hjá CFC segjum að Joao Pedro fái að spreyta sig uppá topp, einmitt gegn uppeldisfélaginu sínu. Hvernig fer leikurinn? Þetta verður lokaður leikur, fer 1-0 fyrir Chelsea og Cole Palmer skorar, en ekki hver?

Áfram Chelsea!

Birt með góðfúslegu leyfi cfc.is

https://www.cfc.is/post/chelsea-gegn-fluminense

Upp