Barcelona og Chelsea eigast við í Meistaradeild Evrópu á Camp Nou miðvikudagskvöldið 14. mars n.k. en þetta er seinni leikur liðanna í 16 liða úrslitum keppninnar. Forkaupsréttur okkar á miðum á þennan leik er mjög skammur eða til kl. 12:00 mánudaginn 12. febrúar. ATHUGIÐ að reglan „One ticket per member“ er hér í fullu gildi, sama má segja um hlutfallsregluna, þ.e. ef eftirspurn eftir miðum verður meira en framboð verður okkur úthlutað miðum í hlutfalli við umsóknir annarra stuðningsklúbba félagsins.
Því er rétt fyrir þá sem vænta þess að fá miða fyrir milligöngu stjórnar Chelsea klúbbsins á leikinn að bíða með að kaupa flug og gistingu fyrr en það fyrir liggur hversu marga miða við fáum nema þá að menn vilji taka sénsinn og það þá algjörlega á eigin ábyrgð. OG rétt er að taka fram að þeir sem verða svo heppnir að hljóta náð fyrir augum Chelsea hvað varðar miðakaup á þennan leik þurfa að vitja miðanna á leikstað, þ.e. í Barcelona og framvísa við það tækifæri staðfestingu frá félaginu um miðakaupin, Chelsea félagsskírteini sínu sem og vegabréfi.
Einnig þarf að skila inn upplýsingum um vegabréf, hugsanlegan ferðamáta og gististað á Spáni áður en umsóknir fá endanlega afgreiðslu. Nánar verður tilkynnt um afhendingarstað og stund í Barcelona þegar það liggur fyrir hverjir fá miða á leikinn fyrir milligöngu stjórnar Chelsea klúbbsins. Tekið er við miðapöntunum á netfangi chelsea@chelsea.is
Frekari upplýsingar má fá í síma 864 6205.