Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Sunnudagur 16. mars kl: 13:30
Leikvangur: Emirates stadium, London
Dómari: Chris Kavanagh
Hvar sýndur: Síminn sport
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Chelsea kláraði viðureignina gegn FCK í Sambandsdeildinni á fimmtudagskvöldið. Leikar fóru 1-0 og Kieran Dewsbury-Hall skoraði laglegt mark. Við enduðum þá á því að slá út Kaupmannarhafnarliðið samanlagt 3-1. Frammistöðurnar í báðum leikjunum voru ekkert sérstakar. Það vantar herslumuninn. Cole Palmer er ískaldur á meðan Nico Jackson er meiddur. Það er enginn að hlaupa inn fyrir eins og Nico, og skapa þar með pláss fyrir Cole. Pedro Neto spilar eiginlega frekar eins og fölsk nía og Nkunku vill ekki gera þetta eins, þegar hann er settur í þessa stöðu. Þetta er mjög bagaleg staða. Kredit til Maresca fyrir að spila unglingnum Shumaira Mheuka í strikernum á Parken, en sá er ekki næstum því klár í hlutverkið. Sannkallað hallæri og sóknin okkar höktir og pústar. Mörkin eru því að koma yfirleitt utan við teig upp á síðkastið. Við erum ekki að sjá neinar hraðar sóknir með fyrirgjöfum í markteig eða á vítapunkt. Andstæðingurinn þrýstist niður á vítateig og verst á öllum leikmönnum sem veldur því að lítið pláss er til athafna. En það var fyrir einstaklingsframtak Dewsbury-Hall að við kláruðum þennan leik. Sem betur fer hélt vörnin hreinu en þeir dönsku léku vel yfir allar 180 mínúturnar. Næstu andstæðingar verða Legía Varsjá frá Póllandi. Sigurvegarinn úr því einvígi mætir annað hvort Djurgården frá Svíþjóð eða Rapid Vín frá Austurríki. Öll þessi lið eru nokkuð veikari en FCK myndi maður halda, þannig að við eigum vísa flugbraut inn í úrslitaleikinn (sennilega gegn Fiorentina eða Real Betis) í lok maí, ef liðið heldur einbeitingunni. Við sjáum þennan Sambandsdeildarbikar í hillingum þar sem okkur vantar hann í bikarstellið.
Það dróg til tíðinda á leikmannamarkaðinum í gær og í dag. Stjörnuumboðsmaðurinn Jorge Mendes var klárlega að gera okkur einhvern greiða, fyrir að hafa tekið ómagann Joao Felix að okkur fyrr á tímabilinu. Í fyrsta lagi bárust þau tíðindi að Chelsea hefur fjárfest í hinum 17 ára Geovany Quenda frá Sporting Lissabon fyrir 40 milljónir punda á langtímasamning. Quenda hefur varið á radarnum hjá mörgum toppklúbbum en talið var að hann myndi enda hjá Manchester United þar sem Ruben Amorim þekkir hann vel, eftir að hafa gefið honum tækifærið hjá Sporting. Það fór á annan veg, í ljósi þess að United ákváðu að bjóða ekki í Quenda og leysa vængbakvarðastöðuna með Patrick Dorgu. Það spilaði einnig í ákvörðun hjá Quenda að hann vill ekki spila vængbakvarðastöðuna og sér sig frekar sem kantmann, sem er sjónarmið sem Chelsea tekur undir. Stefnan er að hafa fimm vængmenn í liðinu. En það sem sannfærði Sporting til að selja, var að Chelsea voru reiðubúnir að láta hann spila á láni á næsta tímabili hjá Sporting líka, þannig að hann kemur til okkar leiktíðina 2026-27. Við hjá ristjórn CFC erum einróma um að það sé sniðug ráðstöfun þannig að leikmenn á þessum aldrei fái nóg af mínútum til að þróa sinn leik enn frekar. Þetta á líka við um Estevao hjá Palmeiras og Kendry Paez hjá Indipendent Dalla Valle, en þeir eru einmitt fæddir sama ár. Transfermarkt fjallaði einmitt um hæfileikaríkustu leikmenn fædda það ár og ég leyfi ykkur að njóta myndarinnar.

Þessi mynd var birt fyrir ári síðan, og segir okkur hvaða leikmenn séu hæfileikaríkastir úr þessum árgangi. Samkvæmt heimildum the Athletic sjá stjórnarmenn Chelsea það fyrir sér að Quenda verði á vinstri kantinum, þar sem Estevao er yfirleitt á hægri kantinum. Cole Palmer og Enzo Fernandez munu ýta svo upp í línuna samkvæmt leikplani Maresca. Þó ber að nafna að Kendry Paez er hugsaður í hlutverkið hjá Enzo þegar hann er ekki með. Hérna er mikilvægt að staldra örlítið við og hugsa hvað stjórnin er að gera. Þeir hafa fjárfest miklu í „bestu“ ungu leikmennina, í staðinn fyrir að kaupa þá fyrir meira fé, þegar þeir eru komnir lengra með ferilinn. Hinsvegar er alltaf áhætta fyrir því að leikmenn ná ekki þeim hæðum sem búist er við. Við þekkjum það t.d. sjálfir af eigin raun með Gaël Kakuta. Hafa ber einnig í huga að launastrúkturinn er með allt öðrum hætti þegar ungir leikmenn eru keyptir á svona löngum samningum. Við eigum að sjá eftir nokkur ár, hvort þetta reynist farsæl strategía hjá stjórninni.


Í kvöld bárust svo önnur tíðindi að Chelsea hefur keypt hinn tvítuga Dário Essugo einnig frá Sporting. Sá er portúgali af angólsku bergi brotinn. Hann er einnig á mála hjá Jorge Mendes umboðsmanni. Chelsea borguðu fyrir hann 22 milljónir evra. Þessi kaup koma beint eftir tímabilið, en koma örlítið á óvart. Essugo er núþegar á láni hjá Las Palmas. Hann er varnarsinnaður miðjumaður, ekki ósvipaður Moises Caicedo, mikill boltabítur en virðist vera með þokkalega löpp samkvæmt þessu myndskeiði. Þessi kaup setja spurningamerki við nokkra leikmenn í okkar eigu. T.d. Andrey Santos, sem við eigum, en er á láni hjá Starsbourg. Verður Essugo lánaður til Strasbourg í staðinn? Efast um það þar sem tilkynning Fabrizio Romano sagði að hann yrði partur af liðinu. Sama mætti segja um Lesley Ugochukwu sem er á hræðilegum stað í ömurlegu Southampton liði. Stærsta spurningamerkið er Romeo Lavia. Hefur Chelsea efni á því að vera með þannig meiðslapésa á launaskrá? Svo getur vel verið að Essugo sé keyptur á slikk, til þess að verða seldur með hagnaði, þar sem stjórnin virðist vera keyra tvær mismunandi stefnur, að hagnast á leikmannasölum annars vegar, og svo til að styrkja aðalliðið. Við aðdáendur köllum eftir fókus á þann hluta. Eitt örlítið smáatriði. Essugo og Quenda koma til Chelsea fyrir nánast þann sama pening og Viktor Gyökeres kostar hjá Sporting. Við þurfum striker, augljóslega – en fyrir þetta virðist benda til þess að fókusinn hjá stjórninni á framherja, er á öðrum einstaklingi. Ritstjórn CFC.is telur það augljóslega vera Victor Osimhen. Hann kemur í sumar – vonandi.
Framundan er stórleikur á Emirates. Undirritaður er þó ekki sérlega bjartsýnn – þrátt fyrir fjóra sigurleiki í röð, þá hafa frammistöðurnar verið heldur brokkgengar – gegn andstæðingum sem eru í neðri hluta deildar, eða í veikari deild. Það er allt undir hjá Arsenal. Formið þeirra hefur ekki verið neitt sérstakt að undanförnu, þrátt fyrir stórsigur 7-1 í meistaradeildinni á PSV Eindhoven á útivelli. Liðið tapaði óvænt 0-1 fyrir West Ham, gerði markalaust jafntefli við Nottingham Forest og 1-1 jafntefli við Manchester United í síðasta deildarleik. Arsenal vantar sárlega framherja þar sem Kai Havertz og Bukayo Saka eru fjarverandi vegna meiðsla, ásamt Tomiyasu og Gabriel Jesus sem eru meiddir út tímabilið. Að öðru leyti ættu allir að vera með – nema Raheem Sterling sem er á láni frá okkur. Þrátt fyrir þetta hallæri í sókn Arsenal, þá eru þeir til alls líklegir þar sem varnarmennirnir okkar hafa verið okkar veikasti hlekkur, þegar árans markvörðurinn okkar Robert Sanchez er ekki mættur með silfurfatið, eins og hann gerir gjarnan. Ef Maresca er klár þá myndi hann bakka með liðið og beita skyndisóknum, en líklega er hann jafn mikill þverhaus og Pep og láti liðið fara upp völlinn með allt plássið til baka. Þetta verður því áhugaverð skák hins spænska Arteta okkar ítalska Maresca.
Hvernig verður byrjunarliðið? Við vitum að Robert Sanchez byrjar í markinu. Vörnin verður Marc Cucurella í vinstri bakverði, Colwill og Fofana miðverðir og Reece James í hægri bakverði. Miðjan verður að venju, Moises Caicedo, Enzo Fernandez og Cole Palmer. Ég á ekki von á öðru en að Nkunku verði á vinstri kantinum og sennilega Sancho á hægri. Pedro Neto verður svo í framherjastöðunni. Hvernig fer leikurinn? Undirritaður spáir því að þetta verði drepleiðinlegt 0-0 jafntefli. Við tökum samt alltaf stigið fyrirfram.
Áfram Chelsea!
Færslan er birt með góðfúsleyfi leyfi frá cfc.is
https://www.cfc.is/post/arsenal-%C3%A1-emirates