Ajax í Meistaradeildinni

20. okt. 2025

Keppni: Meistaradeildin 3. umferð
Tími, dagsetning: Miðvikudagurinn 22. október  kl. 19:00
Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir
Dómari: Felix Zwayer
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Björgvin Óskar Bjarnason

ree

Ég hef gagnrýnt Maresca fyrir að vera kaþólskari en páfinn er kemur að hinni einu sönnu Marescataktík. Sem felst einfaldlega í að mynda kassalaga miðju með því að láta annan hvorn bakvörðinn fá miðjumannsábyrgð og skapa þannig „yfirmönnun“ á miðjusvæðinu. Því miður hafa mörg ef ekki flest lið fundið ýmsar  aðferðir til að þurrka út þá yfirburði á miðjunni sem þetta kerfi á að bjóða upp á. Tvisvar á stuttum tíma hefur mér fundist Maresca bregða liðinu í dulargervi og spilað inn á “fordóma” annarra stjóra á Marescaboltanum.

Undantekning frá reglunni.
Annar leikurinn var gegn Evrópumeisturum PSG í úrslitaleiknum um heimsmeistaratitil félagsliða í júlí sem leið. Þar lék Chelsea þó með “fullskipað” lið þar sem enginn (nema Lavia og Badiashile) voru á meiðslalista. Hinn leikurinn var gegn Englandsmeisturum í byrjun mánaðar. Þar stillti Maresca upp verulega löskuðu liði þar sem sjö leikmenn voru á sjúkralista og tveir í banni. Miðvarðarpar Chelsea var fimmta og sjötta val í stöðuna og enduðu þeir báðir á sjúkralista áður en leik lauk. Í þeirra stöður fóru  bakverðirnir enda allir miðverðir uppurnir.

Líkt og í PSG leiknum þá notaði Maresca okkar kantmenn (Neto og Garnacho) til að halda sókndjörfum bakvörðum andstæðinganna í skefjum meðan okkar bakverðir (James og Cucurella) sáu um hættulega vængmenn félaganna. Venjulega hefur Cucurella myndað hluta af “kassanum” en í leiknum gegn Liverpool þá gætti hann Salah rækilega og lokaði hálfsvæðinu og sendingarleiðinni út á vænginn sín megin. Aukinheldur að taka þátt í sókninni þar sem það er ekki á verkefnalista eða starfslýsingu Salah að verjast á eigin vallarhelmingi (Smá hugleiðing. Móri segist ekki hafa látið Salah fara frá Chelsea en maður veltir því fyrir sér hvort varnartilburðir Salah hafi  einfaldlega farið öfugt ofan í The Special One). Meginsóknir Chelsea gegn Liverpool fóru í gegnum Cucurella og Garnacho/Gittens vinstra megin og enn og aftur sýndi Cucurella að hann er einn okkar mikilvægasti leikmaður í sókn og vörn.

Í báðum þessum leikjum átti Gusto (Roadrunner) stóran þátt í hvernig fór en hann virtist vera í einhverju miðjufrelsingjahlutverki í fyrri hálfleik í Liverpoolleiknum og þeyttist upp og niður hægri vallarhlutann til að skapa usla, en fór síðan í hægri bakvarðastöðuna þegar Badiashile meiddist. Ég hef gagnrýnt Gusto fyrir lélegan varnarleik og því miður einnig slakan sóknarleik sem einkennist af slæmum sendingum og skotum þegar leikmaðurinn er kominn í kjöraðstæður. En sem hvítur sóknarstormsveipur til að valda usla hefur hann verið frábær í þessum tveimur leikjum. Andstæðingurinn veit ekkert hvað Gusto ætlar að gera og stundum veit hann það ekki sjálfur þannig að hið óvænta gerist oft.

Þjálfari Liverpool lagði greinilega upp með að reyna að manndekka á okkar miðjumenn og eyðileggja þar með kassann góða. Málið var að Chelsea notaði ekki þetta kerfi í leiknum þannig að Liverpoolmiðjan var ekki með á hreinu hverja átti að dekka og Chelsea náði oft að búa til eyður (þar á meðal í fyrra markinu) vegna þessa. Eins má segja að Pedro hafi haldið báðum miðvörðum Liverpool við efnið því hvorugur vill eða líður vel að sækja fram á miðjuvæðið. Ólíkt leikmönnum Newcastle í vor þar sem miðverðirnir rústuðu Marescakassanum með því að sækja fram á miðjuna.

Þetta var aðeins hægt vegna þess að Caicedo var eiginlega tveggja manna maki í svæðinu fyrir framan okkar vörn. Sannanlega besti varnarmiðjumaður í Englandi og þó víðar væri leitað og núna þrususkotmaður (þrjú mörk) sem lið hljóta að óttast. Og ekki má gleyma þætti Enzo sem sér um að útfæra taktíkina hans Maresca með frábærum sendingum nú þegar Palmer er á sjúkralistanum endalausa. Maresca játaði að hafa klúðrað innáskiptingum í síðustu leikjum (Man Utd og Brighton) þar sem unnir leikir enduðu með tapi vegna agaleysis (brottrekstur) og varnarsinnaðra skiptinga. Á 75. mín. skipti Maresca  þremur unglingum inn á (Guiu, Gittens og Estevao) sem allir frískuðu upp á leikinn og héldu varnarmönnum Liverpool við efnið. Þar á meðal bakverðinum Robertson sem var farinn að færa sig heldur betur upp á skaftið. Mark Estevao á lokasekúndum leiksins var hápunktur á flottum baráttuleik okkar leikmanna.  Þannig að leikstjórnun Maresca í þessum leik var alveg til fyrirmyndar og vonandi  verður áframhald á.

ree

(S)Nottingham gegn Chelsea
Agaleysi Chelsea á leikvellinum bæði í fyrra og í ár er mjög dapurt og því miður mest vegna tilgangslausra brota. Sjálfur stjórinn sat upp í stúku á City Ground (vegna rauðs spjalds í Liverpoolleiknum) þegar Chelsea lék við Nottingham Forest. Þessi leikur var engin undantekning frá agareglunni. Fjögur tilgangslaus og fíflaleg gul spjöld þar af tvö á Gusto sem þýðir auðvitað  fimmta rauða spjaldið í síðustu sex leikum. Fyrstu 40 mínútur leiksins voru skelfilegar þar sem nokkrir leikmenn okkar reyndu allt hvað þeir gátu að tapa leiknum með kjánalegum og ófagmannlegum sendingum. Það var með ólíkindum að Forest (xG=2.12 en 0 mark) skoraði ekki mark eða frekar mörk eftir svona subbuvarnarleik. Síðustu mínúturnar fyrir hálfleik girtu leikmenn Chelsea (xG=1.66 en 3 mörk) sig í brók og sýndu aðeins klærnar. Enn og aftur las Maresca rétt í leikinn og gerði skiptingar. Leikmenn Chelsea komu síðan einbeittir í seinni hálfleikinn (Guiu, Caicedo og Gittens skipt inn á á 46. mín.) og jú Guiu fór í senterinn og Joao Pedro í tíuna sem breytti að mér fannst leiknum. Guiu var þrælduglegur gegn varnarjöxlum Forest sem þýddi að Josh var laus í fyrsta marki Chelsea og skallaði nett í netið. Síðan kom mark af æfingarsvæðinu með smá barbabrellu James og Pedro Neto og var það kærkomið. Chelsea gerði síðan annað mark úr föstu leikatriði (James) og er allt annar bragur á þeim málum en í fyrra. James og Neto voru frábærir, Josh og Sanches góðir sem og  Caisedo og Cucurella  sem að venju léku báðir sinn leik (lesist=góðan). Guiu var öflugur eftir að hann kom inn á og Pedro lifnaði aðeins við eftir að hann fór í tíuna og því aðeins aftar. Eins og ég hrósaði Gusto hér að ofan (að vísu fyrir aðeins tvo leiki) þá fannst mér hann mjög „sérstakur“ í þessum leik. Ekki það að hann reyndi ekki allt sem hann gat til að vinna boltann og verjast manninum  heldur vegna lélegra sendinga, skrýtinna ákvarðana og gufuruglaðra og tilgangslausra brota. Það hefur glatt mig mikið undanfarið hversu James   virðist njóta þess að leika knattspyrnu að því virðist meiðslafrír (sjö, níu, þrettán). Óskandi að það ástand haldist því James er ótrúlega mikilvægur þessu liði.  Ég græt það ekki að Forest tapaði þessum leik þrátt fyrir yfirburði á stundum og opin marktækifæri sem okkar menn sköpuðu fyrir þá og þeirra framherjar nýttu ekki. En þetta Forestlið er ekki svipur hjá sjón undir stjórn (að vísu ekki lengur) Ástralans.

ree

Chelsea – Ajax.
En framundan er leikur við Ajax frá Niðurlöndum. Ajax er auðvitað stórveldi í Evrópuboltanum (6. sigursælasta Evrópuliðið á tuttugustu öldinni) og hefur haft áhrif á hvernig knattspyrna er leikin í dag. Fyrir 50 árum síðan tók við liðinu Rinus Michels sem hafði undir höndum leikmenn eins og Cruyff og Neeskens. Undir handleiðslu Rinus lék Ajax fótbolta sem var langt á undan sínum tíma eða “Total Voetball” og var eiginlega fullkomnaður af Cruyff þegar hann tók við Ajax og síðar Barcelona. Evrópusaga Ajax er mun glæsilegri en saga Chelsea en þeir hafa bæði unnið fleiri Evróputitla og Evrópusigra en Chelsea. En frægðarsól Ajax hefur hnigið aðeins á stóra sviðinu þótt þeir séu yfirleitt jafnbesta liðið í heimalandinu og þekktir fyrir að “skapa” góða knattspyrnumenn úr ungum efniviði. Margir frægir leikmenn hafa alist upp hjá félaginu og/eða spilað með Ajax. Má nefna Marco van Basten, Frank Rijkaard, Dennis Bergkamp, Edwin van der Sar, Clarence Seedorf, Edgar Davids, Michael Reiziger, Winston Bogarde og Frank og Ronald de Boer svona til að nefna einhverja. Og hver man ekki eftir Nwanku Kanu, Jari Litmanen og Danny Blind?

ree

Nokkrir hafa komið frá Ajax til Chelsea og ber auðvitað fyrstan að nefna Winston Bogarde sem fékk 40.000 pund á viku (tæp 70.000 í dag) í fjögur ár fyrir heila ellefu leiki í treyju Chelsea. Það er auðvitað pjatt í samanburði við Raheem Sterling sem fær fjórum sinnum meira borgað fyrir að sitja á rassinum og horfa á samning sinn renna út (eins og Bogarde). Mario Melchiot (bakvörður) og Jesper Grönkjær léku einnig með Chelsea um aldamótin 2000. Grönkjær var algjör „Speedy Gonzales“ og spændi upp bæði vinstri og hægri kantinn eftir smag og behag en ekki tækni. Mjög oft var völlurinn “búinn” þegar hann reyndi fyrirgjöfina. Rúmum fimmtán árum seinna fengum við mjög teknískan kantmann frá Ajax eða Hakim Ziyech sem hafði skorað 38 mörk fyrir félagið í 112 leikjum. Hann lék 64 leiki fyrir Chelsea og skoraði heil 6 mörk og olli held ég flestum miklum vonbrigðum. Og nú í sumarglugganum fengum við ungan bakvörð Jorrel Hato sem  verið er að blóðga í hinni hörðu Úrvalsdeild. Útkoman á eftir að koma í ljós.

Í fyrsta Meistaradeildarleiknum lék Ajax heima gegn Inter Milan og tapaði 0-2. Síðan léku þeir úti gegn Marseille og töpuðu 0-4. Í báðum leikjunum hafði Ajax boltann mun meira en andstæðingarnir, en virtist fyrirmunað að skora. Wout Weghorst er þar fremsti maður með 15 mörk í 31 leik sem telst þokkalegt.

Ég horfði á seinni leikinn (vitandi að ég ætti að fjalla um Chelsea-Ajax). Í þeim leik vildi Ajax halda boltanum og pressaði stíft með “hárri línu” þegar hann tapaðist. Þannig að einfaldur bolti inn fyrir Ajaxhávörnina skapaði yfirleitt hættu og jú fjögur mörk. Ajax gengur ekkert betur í Eredivisie deildinni þar sem liðið er í fjórða sæti eftir níu umferðir (fjórir unnir, fjögur jafntefli og eitt tap). Nú um helgina tapaði Ajax heima fyrir AZ Alkmaar 0-2 þrátt fyrir að Ajax héldi boltanum mun meir og ætti fleiri skot á mark en AZ.

Nú er það spurningin hvernig Maresca vill að Chelsea leiki gegn Ajax. Hvort hann vilji nota þeirra helsta veikleika (hápressa) gegn þeim eða hvort hann leggur áherslu á að Chelsea haldi boltanum og þvingi Ajax í lágvörn. Það meiddist enginn okkar manna í síðasta leik, þannig að á meiðslalistanum eru DeLap, Colwill, Essugo og auðvitað hékk Badiashile aðeins heill í smá tíma. Meiðsli Palmers eru óráðin gáta, en nárameiðsl eru því miður ekkert grín því þau geta verið svo margvísleg og erfið að greina og laga. Enzo kvartaði undan „minni háttar“ hnémeiðslum þannig að við gerum ráð fyrir honum fljótlega. Tosin, Fofana og Lavia eru á batavegi og virðast leikhæfir. Aðrir EIGA að vera heilir þannig að Maresca hefur úr góðum hóp að velja. Næsti leikur í deildinni er heima um næstu helgi gegn Sunderland sem er sýnd veiði en ekki gefin. Þannig að ég held að Maresca leyfi yngri mönnunum að spreyta sig gegn Ajax. Liðið verður því þannig:

Jörgensen, Gusto, Acheampong, Fofana, Hato, Santos, Lavia, Gittens, George, Guiu, Estevao. Með reynsluboltanum á bekknum til að grípa inn í ef með þarf.

Ég ætlast til að Chelsea vinni þennan leik gegn að því virðist getulitlu Ajaxliðinu.
Björgvin Óskar

(Bob) P.S. Við minnum svo enn og aftur á að skráningar í Chelsea klúbbinn á Íslandi eru opnar. Greiðsla á árgjaldinu gefur aðgang að ódýrari miðum fyrir þá sem hyggjast sækja leiki með Chelsea í vetur. Chelsea klúbburinn á Íslandi aðstoðar við að koma öllum slíkum arranseringum í réttar skorður. Nánari upplýsingar á www.chelsea.is

Joii
EiríkssonKjötsmiðjan
American Bar
Car RentalHársnyrtistofan