Aðalfundur Chelsea klúbbsins á Íslandi

Aðalfundur Chelsea klúbbsins á Íslandi var haldinn þann 28. október 2017.

Að venju var fundurinn haldinn á Grand Hótel Reykjavík og var ágætlega sóttur. Á dagskrá voru bæði lögbundin og hefðbundin fundarstörf ásamt árlegu happdrætti klúbbsins sem var veglegt að vanda. Kosið var sérstaklega til formanns og gaf Karl H. Hillers kost á sér til áframhaldandi formannsstarfa. Hlaut hann einróma kosningu og uppskar lófaklapp fundargesta.

 

Eftir sérstaka kosningu formanns klúbbsins voru aðrir stjórnarmenn kosnir. Stjórnarmenn frá fyrra ári gáfu allir kost á sér að undanskildum Þórhalli Sverrissyni sem baðst undan endurkjöri. Eru honum færðar bestu þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins um árabil. Á fundinum var Bjarni Bjarkason kosinn til stjórnarsetu, en hann mun skipa stjórn klúbbsins ásamt formanninum Karl H. Hillers, þeim Braga Hinrik Magnússyni, Eyjólfi Aðalsteini Eyjólfssyni, Helga Rúnari Magnússyni, Kristjáni Þór Árnasyni, Pétri Bjarka Péturssyni og Pétri Péturssyni. Skýrsla stjórnar og reikningar félagsins voru einróma samþykkt á fundinum en reikningarnir voru einnig samþykktir af endurskoðendum félagsins.
Í hinu árlegu happdrætti félagsins var margt um veglega vinninga.

Fyrst var dregið í flokki barna og unglinga, því næst var dregið úr potti þeirra félagsmanna sem höfðu greitt árgjald klúbbsins fyrir fyrsta heimaleik í Úrvalsdeildinni á keppnistímabilinu. Vinningar í þessum flokkum voru m.a. árituð treyja Englandsmeistaranna ásamt ferðavinningi frá Gaman Ferðum, gjafabréf frá Jóa útherja, gjafabréf frá Yokohama – Dekkjahöllinni, gjafabréf frá Grand Hótel, Kjötsmiðjunni og Orkunni – og enn mætti lengi telja!
Því næst var dregið í happdrætti fundargesta. Glæsilegir vinningar voru í þeim flokki einnig en í fyrsta vinning var áritaður bolti frá Englandsmeisturunum ásamt ferðavinning frá Gaman Ferðum. Þá má nefna gjafabréf frá Yokohama – Dekkjahöllinni, gjafabréf frá Kjötsmiðjunni og Kormáki og Skildi. Auk þess fékk klúbburinn veglegar gjafir frá Marko Merkjum, Bræðrunum Ormsson, Hagkaupum, Fabrikkunni, Reykjavík Scoup, Laugarásbíói og Hárlínunni. Í þessum flokki hreppti hinn heppni Einar Ö. Birgisson hnossið og á meðfylgjandi mynd má sjá að almenn ánægja var með boltann góða. Öllum þeim aðilum sem ljáðu okkur stuðning eru hér með færðar hinar bestu þakkir fyrir!

Að loknum fundarstörfum var komið að veitingum og gæddu fundargestir sér á þeim og ræddu við Willum Þór Þórsson um gengi okkar ástkæra liðs og horfðu loks saman á leik Bournemouth og Chelsea. Þrjú stig í hús og þó nokkur gleði á ,,gleðistundinni” á Grand Hótel.

Stjórn félagsins kom saman eftir aðalfund og skipti með sér verkum samkvæmt lögum félagsins. Þá var kosinn varaformaður Pétur Pétursson, ritari Kristján Þór Árnason og gjaldkeri Pétur Bjarki Pétursson. Aðrir stjórnarmenn sinna sínum störfum sem meðstjórnendur.

Upp