Graham Potter hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum fyrir stundu en Potter, sem er 47 ára gamall, skrifaði undir fimm ára samning við Chelsea.
Hann tekur við liðinu af Thomasi Tuchel sem var rekinn í gær en Potter hefur stýrt liði Brighton í ensku úrvalsdeildinni frá árinu 2019.
Potter er samningsbundinn Chelsea út keppnistímabilið 2026-27 og þurfti Chelsea að greiða Brighton 21,5 milljónir punda fyrir þjónustu Potters, en hann verður eftirmaður Thomas Tuchel sem var rekinn eftir tapleikinn í Meistaradeildinni. Chelsea fékk ekki aðeins Potter frá Brighton því Kyle Macaulay, Billy Reid og Bjorn Hamberg fara með Potter til Lundúna.
Þá fengu Thomas Tuchel og aðstoðarmenn hans um 15 milljónir punda fyrir brottreksturinn frá Chelsea og var því um dýr þjálfaraskipti að ræða fyrir Lundúnafélagið.
Graham Potter vonar að stuðningsmenn Brighton skilji ákvörðun sína.
„Ég vona að þið skiljið ákvörðun mína á þessu stigi ferlisins míns. Ég mun ávallt varðveita minningarnar og samböndin sem ég eignaðist hjá Brighton. Leikmennirnir og starfsteymið gáfu allt í þetta. Hjartað í þessu öllu saman voru svo þið stuðningsmennirnir. Tengingin á milli ykkar og leikmannanna á AMEX-vellinum var einstök og þegar við spiluðum á útivelli mættu þið alltaf í þúsundatali til að öskra okkur áfram.
Til þess sem tekur við af mér, hver sem það verður, segi ég bara til hamingju. Þú ert að fara að vinna hjá frábæru félagi með frábæran leikmannahóp, eiganda og stjórn. Það mikilvægasta er þó að stuðningsmennirnir munu alltaf styðja liðið, bæði heima og að heiman.“