Í dag, 16. mars 2022, eru liðin 25 ár frá stofnun Chelsea klúbbsins á Íslandi en þennan dag á því herrans ári 1997 komu saman í Ölveri 30–40 áhugasamir fylgismenn Chelsea Football Club hér á landi og stofnuðu formlega Chelsea klúbbinn á Íslandi.
Síðar þetta sama ár var Chelsea klúbburinn á Íslandi svo viðurkenndur af Chelsea Football Club sem opinber stuðningsklúbbur félagsins með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgir og er svo enn í dag.
Hafa samskipti klúbbsins við móðurfélagið verið stöðug og með miklum ágætum í gegnum tíðina og nýtur íslenski klúbburinn þess heiðurs að vera einn af 32 Platinum klúbbum hjá Chelsea Football Club, er sá flokkur fullskipaður og komast færri þar að en vilja en alls eru opinberir stuðningsklúbbar Chelsea nú á annað þúsund og koma víðs vegar að úr heiminum.
Skráðir félagar í Chelsea klúbbnum á Íslandi í dag eru 410 og hafa aldrei verið fleiri.
Þess má geta að í kvöld leikur Chelsea seinni leik sinn gegn Lille í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu hvar liðið á titil að verja og er leikur liðanna sýndur í beinni útsendingu í Ölveri sem hefur verið „heimavöllur Chelsea klúbbsins á Íslandi“ öll þessi ár að einu ári undanteknu og væri virkilega gaman að sjá sem flesta Chelsea félaga sem því geta komið við mæta í Ölver í kvöld.
Næstkomandi föstudagskvöld verður móttaka á Grand Hótel Reykjavík í tilefni afmælisins fyrir samstarfs- & styrktaraðila klúbbsins, heiðursfélaga og sérstaka velgjörðarmenn klúbbsins, starfsmenn og fyrrum stjórnarmenn undanfarin 25 ár.
Seinna á afmælisárinu stefnum við svo á veisluhöld fyrir félagsmenn Chelsea klúbbsins og munu þá væntanlega gamlar Chelsea kempur heiðra okkur með nærveru sinni, nánar um það síðar.
Til hamingju með daginn félagsmenn góðir.
Stjórnin.