Við í stjórn Chelsea klúbbsins kynnum til sögunnar nýjan vef. Sá gamli var ágætur á margan hátt en þar sem við viljum alltaf gera betur, þá er eðlilegt að vera á tánnum varðandi vefsíðuna okkar.
Helstu breytingar eru þær að spjallkerfið verður ekki lengur virkt á vefsíðunni enda fer mesta spjallið fram á Facebook síðunni https://www.facebook.com/groups/chelseaiceland/. Það sýndi sig að spjallkerfið var einn helsti veikleiki síðunnar varðandi öryggi, en Þar sem tippleikurinn fór hins vegar fram á spjallsíðunni þurfti að leysa það mál.
Það gleður okkur því að kynna tippleikinn í nýju formi og það er von okkar að hann leggist vel í mannskapinn. Nú er komið sér kerfi sem heldur utan um tippleikinn og auðveldar mikið alla vinnslu vegna hans. Til þess að fara inn á tippleikinn er smellt á linkinn í valmyndinni efst á síðunni.
Þar þarf svo að skrá sig inn. Notandanafnið og lykilorðið frá gömlu síðunni ættu enn að vera í gildi. Í einhverjum tilfellum hefur lykilorðið ekki flust rétt yfir og þá þarf einfaldlega að smella á „Gleymt lykilorð“ og setja inn tölvupóstfangið sem notað var til að stofna aðganginn. Þá er sendur einfaldur tölvupóstur sem hefur að geyma upplýsingar um hvernig hægt er að endursetja lykilorðið. Ef eitthvað vandamál kemur upp er hægt að senda tölvupóst á vefstjori@chelsea.is og við reynum að hjálpa fljótt og örugglega.
Í tippleiknum er nú hægt að tippa á þrjá leiki fram í tímann. Það er gert með því að setja úrslit í rétta reiti í leikjalistanum og velja markaskorara úr listanum þar til hliðar. Hægt er að breyta og aðlaga hvenær sem er og alveg fram að leik. Um leið og leikur hefst er ekki hægt að gera meiri breytingar.
Eins og áður þá fæst eitt stig fyrir að giska á réttan sigurvegara, þrjú stig fyrir að giska á rétt úrslit og þrjú stig fyrir að giska á réttan markaskorara og þannig hægt að fá mest 7 stig úr hverjum leik fyrir sig.
Ef það skyldu koma einhverjir hnökrar upp munum við reyna að leysa það eins fljótt og örugglega en mikilvægt er að ef þú, notandi góður, verður var við eitthvað sem mætti betur fara… þá gæti verið að við vitum ekki af því og þá værum við þakklátiir ef þú myndir láta okkur vita með því að senda póst á vefstjori@chelsea.is.
Af öðru sem er að frétta þá birtast alltaf efst hægra megin allar tilkynningar frá Chelsea klúbbnum og því um að gera að hafa auga með því svæði. Undir klúbbafréttunum birtast svo fréttir um Chelsea af erlendum vefsíðum. Þar er hægt að fylgjast með öllu því nýjasta sem er að gerast og ef þið vitið um góðan miðil sem væri þess virði að hafa þarna með, þá er um að gera að láta okkur vita. Skoðanakönnunin er svo á sínum stað þar fyrir neðan. Við hvetjum ykkur til að taka alltaf þátt í henni.
Í miðjusvæðinu birtast ýmsar fréttir og greinar. Þetta geta verið pælingar frá okkur stjórnarmönnum eða aðsendar greinar, sem okkur þykir ákaflega skemmtilegt að fá. Neðst er þessa stundina myndasafn frá Instagram síðu Chelsea FC, en fljótlega munum við skipta út eða bæta við myndasafni frá Chelsea kúbbnum á Íslandi. Verið er að vinna í því.
Vinstra megin á vefsíðunni eru svo alltaf allar upplýsingar um úrslit og næstu leiki, ásamt twitter færslum allra leikmanna Chelsea. Það er þrælgaman að fylgjast með því. Þær uppfærast reglulega ásamt f´rettunum hægra megin og því sniðugt að detta inn á síðuna reglulega og fylgjast með öllu því nýjasta.
Það er okkar von að ykkur líki vel við þessa nýju síðu.
Með vinsemd og virðingu,
Stjórn Chelsea klúbbsins á Íslandi.