Thomas Tuchel segir að mikil þreytumerki hafi verið á hans liði í bikarsigrinum gegn Sheffield United í gær, en liðið hafi komist í gegnum erfiðan kafla eftir að hann tók við og sé búið að ná tveimur markmiðum. Eftirköst álagsins þegar Chelsea sló Atlético Madrid út í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöldið báru glögglega merki um þreytu.
Chelsea er nú taplaust í fjórtán leikjum frá því að Þjóðverjinn tók við af Frank Lampard. „Ég fann að það var þreyta í liðinu eftir leikinn gegn Atlético en um leið mikill léttir, og það var mjög eðlilegt. Andlega var þetta gríðarlega stórt gegn Atlético,“ sagði Tuchel við Sky Sports.
„Þegar við mættum til leiks í gær var ég ekki hundrað prósent viss um að við gætum haldið áfram af sömu keyrslu og áður. Ég sagði liðinu fyrir leikinn að hafa ekki of miklar væntingar um frammistöðuna. Taka leikinn alvarlega, fara eftir smáatriðunum en ekki búast við einhverjum stórleik. Við byrjuðum vel en misstum svo tökin á leiknum, misstum einbeitinguna og taktinn, og vorum lengi í vandræðum. Þeir fengu tvö dauðafæri og við sluppum vel með að halda hreinu, en það er hægt að útskýra þetta á margvíslegan hátt.
Markmið okkar í fyrstu fjórtán leikjunum var að komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar og á Wembley í bikarnum og við höfum náð hvoru tveggja, þannig að liðið á mikið hrós skilið,“ sagði Thomas Tuchel.