Porto næsti andstæðingur í Meistaradeildinni

Rétt í þessu var dregið í höfuðstöðvum UEFA um hvaða lið mætast í 8 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og dróst Chelsea gegn FC Porto. Fyrri leikur liðanna fer fram í Porto 6. eða 7. apríl.  Það kemur svo í ljós seinna í dag hvenær þessir leikir fara fram en 8 liða úrslitin hefjast þriðjudagskvöldið 6. apríl 2021 og lýkur miðvikudagskvöldið 14. apríl. 

Við flytjum ykkur að sjálfsögðu fréttir um leikdaga og leiktíma í viðureignum Chelsea um leið og staðfesting berst frá UEFA. Hafi Chelsea betur í þessum viðureignum mun liðið mæta sigurvegurunum í viðureign Real Madrid og Liverpool í undanúrslitum keppninnar.

Uppfært

Leikdagar og leiktímar hafa nú verið ákveðnir í viðureignum Chelsea og FC Porto í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Fyrri leikur liðanna fer fram á heimavelli FC Porto, Estádio do Dragao, miðvikudagskvöldið 7. apríl og hefst hann kl. 19:00 að íslenskum tíma.

Seinni leikur liðanna fer svo fram á Stamford Bridge þriðjudagskvöldið 13. apríl og hefst einnig kl. 19:00 að íslenskum tíma.

Og eins og áður hefur komið fram mun það lið sem hefur betur í þessari viðureign mæta sigurvegurunum í viðureign Real Madrid og Liverpool í undanúrslitum en þau munu fara fram 27/28. apríl annars vegar og svo 4/5. maí hins vegar. Ef Chelsea nær í undanúrslitin mun seinni viðureignin fara fram á Stamford Bridge.

Ladies

Þá má geta þess að UEFA hefur ákveðið, í ljósi Covid-19, að leikir Chelsea vs Wolfsburg í 8 liða úrslitum Meistaradeildar kvenna fari báðir fram á Ferenc Szusza leikvanginum í Újpest í Ungverjalandi. Fyrri leikur liðanna fer fram miðvikudaginn 24. mars n.k. og hefst kl. 16:00 og telst hann heimaleikur Chelsea, seinni viðureignin fer svo fram á sama stað viku síður, þ.e. miðvikudaginn 31. mars og hefst hann kl. 12:00.

Í millitíðinni skjótast stelpurnar okkar heim til Englands og etja kappi við Aston Villa Women í WSL League á Kingsmeadow sunnudaginn 28. mars og hefst sá leikur kl. 13:30.

Upp