Aðalfundur Chelsea-klúbbsins fór fram á Grand Hótel Reykjavik laugardaginn 1. nóvember og var vel sóttur að venju, kræsingar í boði klúbbsins að loknum fundarstörfum og svo bein útsending frá leik Tottenham Hotspur v Chelsea, ekki skemmdu úrslit leiksins fyrir mannskapnum og þá ekki heldur skemmtileg umfjöllun Willums Þórs með fundargestum, bæði fyrir leik, í leikhléi og að loknum leik.
Í skýrslu stjórnar kom fram að starfsárið hafi að mestu verið með hefðbundnu sniði, mikill tími stjórnarmanna fór í að annast endurnýjanir og nýskráningar félagsmanna, efla sambandið við samstarfs- & styrktaraðila og svo ekki síst við móðurfélagið, Chelsea Football Club.
Þar kom einnig fram að fjöldi félagsmanna stóð nánast í stað frá árinu áður, hafði þó fjölgað um tvo og töldust félagsmenn vera 428 í lok starfsársins.
Á fundinum voru samþykktar nokkrar breytingar á lögum klúbbsins og ber þar helst að nefna að framvegis skuli aðalfundur haldinn á vormánuðum (maí – júní) í stað að hausti ár hvert. Þá var samþykkt að reikningsár klúbbsins verði frá og með 1. maí ár hvert til og með 30. apríl næsta árs. Báðar þessar breytingar lúta að því að vera meira samstíga móðurfélaginu í þessum efnum, sérstaklega ef til koma breytingar á stjórn klúbbsins sem og að ársreikningur klúbbsins sé kynntur félagsmönnum fyrr en tíðkast hefur.
Gjaldkeri klúbbsins kynnti ársreikning klúbbsins og var hann samþykktur einróma af fundarmönnum, engar athugasemdir verið gerðar, hvorki af enduskoðendum klúbbsins né af hálfu móðurfélagsins. Lítils háttar hagnaður var af rekstri klúbbsins á stafsárinu og tekjur vs útgjöld í góðu jafnvægi.
Stjórn klúbbsins var endurkjörin og skipa hana Freysteinn Guðmundur Jóhannsson, Helgi Rúnar Magnússon, Karl H Hillers (formaður), Kristján Þór Árnason Helguson, Ómar Freyr Sævarsson, Starkaður Örn Arnarson og Stefán Marteinn Ólafsson.
Endurskoðendur klúbbsins (Sölvi Sveinsson og Þórður Óskarsson) sem og félagar í Laganefnd (Birgir Ottó Hillers, Friðrik Þorbjörnsson og Helgi Rúnar Magnússon, formaður) voru allir endurkjörnir.
Á fundinum var Bragi Hinrik Magnússon tilnefndur í flokk heiðursfélaga klúbbsins og var honum afhent heiðursskjal því til staðfestingar ásamt gullmerki klúbbsins og að sjálfsögðu fylgdi blómvöndur frá klúbbnum til handa Braga.

Karl Hillers, Starkaður Örn, Bragi Hinrik og Helgi Magnússon

Bragi Hinrik Magnússon, heiðursfélagi Chelsea klúbbsins árið 2025

Að auki var gullmerki félagsins afhent tveimur heiðursfélögum klúbbsins, þeim Páli Ásmundssyni og Þórði Óskarssyni en þeir félagar voru fjarstaddir er gullmerkið var afhent heiðursfélögum klúbbsins á aðalfundi síðasta árs.

















