Óður til knattspyrnunnar – Svanasöngur Roman Abramovich – Fyrri hluti –

21. okt. 2025

Allt frá því að breska ríkisstjórnin ákvað í byrjun mars 2022 að frysta allar eigur Roman Abramovich í Bretlandi og taka þátt í refsingum og viðskiptaþvingunum (sanction) þeim sem Bandaríkin og flestar Evrópuþjóðir lögðu á þá sem höfðu tengsl við Pútin og Rússland eftir að innrás í Úkraínu hófst hálfum mánuði áður, þar á meðal heilt knattspyrnufélag eða Chelsea, var Abramovich gert að selja Chelsea snimmhendis og átti ágóðinn að renna til  fórnarlamba stríðsins. Salan gekk fljótt og vel en haldlagður ágóðinn (af bresku  ríkisstjórninni) hefur ekki skilað sér enn á stríðshrjáða svæðið. Má segja að að þar með hafi  lokið einhverju glæsilegasta tímabili (innanlands og erlendis) sem nokkurt félag í Englandi hefur átt. Frá því að Abramovich keypti Chelsea af Ken Bates (1982-2003) á miðju ári  2003 og þar til þennan kalda dag í mars 2022 stóð Chelsea sig með eindæmum vel á  knattspyrnuvellinum. Nítján ár af velgengni þar sem 21 titlar og bikarar unnust. UEFA  Champions League tvisvar, UEFA Europa League tvisvar, UEFA Supercup og FIFA Club  World Cup einu sinni. Premier League fimm sinnum, FA Cup fimm sinnum og League Cup þrisvar. Geri aðrir betur og svarið er einfaldlega NEI.

Mynd: 360TV
Mynd: 360TV

Abramovich elskaði þessa íþrótt (fótboltann) og vildi að Chelsea léki fallega en  árangursríka knattspyrnu. Hann keypti því úrvalsleikmenn til félagsins og fékk reynda, hæfa og kappsama stjóra til að sjá um að næstum alltaf glitti í nýja silfurlitaða muni í  verðlaunaherbergi félagsins. Hann gerði miklar kröfur til leikmanna og knattspyrnustjóra og skipti hikstalaust um kallinn í brúnni ef árangur var óásættanlegur (að hans mati) og jafnvel  þótt vel gengi (sbr. Mourinho í byrjun tímabils 2007/08 þrátt fyrir frábæran 2006/07 árangur og Di Matteo eftir Meistaradeildarsigurinn 2012). Þessi 19 ár Chelsea í eignarhaldi  Abramovich voru því sannkölluð hamingjuár flestra okkar Chelseapunga þótt við höfum  þurft að taka súrum ósigrum á stundum enda uxu væntingar til liðsins með veldisvísi og þá  mögulega “úr hófi”. En sigrunum fjölgaði og hamingjustundirnar hafa verið því verið mun fleiri í kjölfarið. Kröfur um árangur og titil á hverju ári varð normið en ekki undantekningin.


Mynd: Chelseafc.com

Nú erum við að tala um KARLALIÐ Chelsea en við getum alveg þakkað Abramovich fyrir  að byggja upp knattspyrnu”akademíu” í heimsklassa. Akademía sem hefur skólað hundruði  barna og unglinga í íþróttinni það vel að þeir eru margir eftirsóttir í bestu  knattspyrnudeildum heims. Leikmenn (karlalið) akademíunnar unnu 20 titla í öllum  aldursflokkum í tíð Abramovich.

Ekki síður má gleyma kvennaliði Chelsea sem Abramovich efldi til muna en ári eftir komu  hans (2004) vann kvennalið Chelsea sér rétt í efstu deild og hefur verið þar síðan. Síðustu 10 árin hefur sigurganga kvennaliðs Chelsea verið nánast óslitin. Yfir tíu titlar (deilda- eða  bikarkeppni) unnust á tíma Roman og eiginlega samfellt síðan. Allt má þakka áhrifum og  áherslum sem Abramovich setti sínu félagi. Við eigum Abramovich því mikið að þakka en  þetta voru sigursælustu ár Chelsea í 120 ára sögu þess. Hann rak félagið af ástúð og  umhyggju fyrir íþróttinni en ekki gróðahyggju.

Síðasta heila ár Chelsea undir stjórn Abramovich 2021 sá hann lið sitt verða Evrópumeistara (Champions League) í annað sinn og nú undir stjórn Thomas Tuchel (kom til Chelsea í janúar 2021). Tuchel og Chelsea náðu fjórða sætinu í Úrvalsdeildinni, komust í úrslit í FA bikarnum,  komust í fjórðu umferð Deildabikarsins og EVRÓPUMEISTARAR (Champions League).

Tímabilið 2021-2022 byrjaði einnig vel en Chelsea var í efsta sæti Úrvalsdeildarinnar næstum  fram að jólum en síðan dró aðeins af liðinu eftir áramótin og það endaði í þriðja sæti.  Chelsea lék til úrslita í bæði FA- og Deildabikarnum, komust í fjórðungsúrslit í Meistaradeild Evrópu, unnu UEFA Super Cup sem og FIFA Club World Cup. Allt undir styrkri  stjórn hins frábæra Tuchel. Því miður þurfti Abramovich að sjá af augasteininum sínum,  Chelsea, áður en tímabilinu lauk.


Mynd: Getty Image/BBC Sport

Nýir eigendur – Ný viðhorf.
Þeir sem keyptu Chelsea eru að stærstum hluta bandarískir FJÁRFESTAR, þ.e.  Fjárfestingarsjóðurinn Clearlake Capital (í meirihluta) ásamt Tod Boehly, M. Walter og H.  Wyss. Stofnað var rekstrarfélaga um herlegheitin er nefnist BlueCo. Við kaupin á félaginu  lýsti Boehly því yfir að þeirra (BlueCo) framtíðarsýn væri á hreinu. “Að GERA  áhangendur félagsins hreykna og viðhalda velgengni félagsins sem og að hlúa að og yrkja ungviðinn (akademían) og jafnframt fá til félagsins hæfileikaríkustu leikmennina  hverju sinni”. Þessi ummæli virkuðu háleit þrátt fyrir að áhangendur Chelsea hafi þótt  innihald þeirra og merking sjálfsögð og eðlileg í Romanveldi.

En BlueCo hafði greinilega ákveðna fyrirmynd í Brighton & Hove Albion þegar kaupin fóru fram.  Gagnadrifin kaup á ungum leikmönnum sem frelsaðir eru einhvers staðar frá, tuktaðir og  slípaðir til og seldir með miklum hagnaði til annarra liða, þar á meðal til Chelsea (Cucurella,  Caseido, Pedro og Sanches). Hið sama skyldi nú yfirfærast á Chelsea. Einnig skyldi nýta sér Akademíuna sem var vannýtt AUÐLIND að mati BlueCo og mátti hámarka hagnað í.  Boehly og kó fékk Paul Winstanley (Sporting Director hjá Brighton) og Graham Potter þjálfara  Brighton til starfa fyrir Chelsea. Það átti sem sagt að yfirfæra Brighton viðskiptamódelið,  eins og það kom af skepnunni, yfir á Chelsea. Gallinn á þeim gjörningi var sá að Brighton  er bara pulsusjoppa meðan Chelsea er Michelin matsölustaður. Eina silfurtauið sem Brighton hefur unnið á efsta stigi er Charity Shield fyrir HUNDRAÐ OG FIMMTÁN ÁRUM síðan.  Aldrei unnið fyrstu deildina hvað þá Úrvalsdeildina, hvorugan BIKARINN (FA eða Deilda) og þá enga titla í Evrópu. Þannig að þessu eru ekki saman að jafna. Pylsur geta þó verið ágætar.

Tod Boehly hafði að vísu gert Abramovich þriggja milljarða punda tilboð í Chelsea árið 2019 sem Roman hafnaði. Tod Boehly hefur reynslu af rekstri íþróttafélags en hann á 20% eignarhlut í Los Angeles Dodgers (hafnarbolti) og 27% meðeignarhlut í Los Angeles Lakers  (körfubolti). Egbali og J. Feliciano, stofnendur fjárfestingasjóðinn Clearlake Capital, koma báðir úr bankageiranum og eru sérfræðingar í “yfirtöku fyrirtækja” frekar en rekstri  íþróttafélaga. Enda kom fljótt í ljós hin raunverulega ástæða og forsenda kaupa Clearlake  Capital á Chelsea þegar Egbali (Clearlake Capital) lét eftirfarandi frá sér fara:

“Við töldum Chelsea sem eign vera í hreinskilni sagt fyrirtæki sem var ekki sérstaklega  vel stjórnað eða rekið hvað snertir knattspyrnuna sjálfa, íþróttastarfsemina í heild og því  síður kynningarstarf fyrir félagið, svo þetta eru þýðingarmikil tækifæri sem gefast fyrir  félagið sem við munum skoða nánar fyrir okkur, þar á meðal möguleika á að kanna  eignarhald fleiri félaga (multi-club). Við skoðuðum það vel og ítarlega og komumst að  þeirri niðurstöðu að evrópsk íþróttafélög séu líklega um 20 árum á eftir bandarískum  íþróttafélögum hvað varðar háþróun og fágun hvort sem er á viðskiptasviðinu eða á  notkun gagna til að ná tilætluðum árangri á íþróttasviðinu. […] Þetta (Chelsea) eru  alþjóðlegar eignir, alþjóðlegur áhorfendahópur sem við teljum að við getum örugglega  hjálpað til við að stækka.“ …………..“ „Við teljum að það sé til leið að hafa stjórn á  launakostnaði en samt að “framleiða gæðavöru” einfaldlega með því að nota gögn  (data), með því að nota fjölklúbbaeignarhald.“ …………..“[Og] það er hin fullkomna leið  til að þróa hæfileikaríka leikmenn þar sem þú þarft ekki að eyða brjálæðislegum  peningum í launakostnað. [Við] réðum þjálfara frá Brighton (Potter) en við teljum að  þeir (Brighton) séu eitt best rekna liðið í ensku Úrvalsdeildinni. Eigandi þess er með  bakgrunn í rekstri íþrótta tengdra félaga og gagnavinnslu”.


Mynd: Financial Times. Gögn. 21st Club

Ég efast ekki um að Abramovich hefði getað rekið Chelsea á hagkvæmari og  hagnaðardrifnari máta en það var ekki það sem vakti fyrir honum. Hann vildi sjá fallegan  fótbolta og glæsta sigra og vinninga. Þar lá hans ástríða og við, áhangendurnir, nutum góðs og ánægju af.

Gary Neville lét þessi ummæli falla um Abramovich eftir söluna á Chelsea:
Chelsea hefur notið mikillar velgengni síðustu 20 árin. Það hefur ekkert endilega með  peninga að gera, við höfum séð félög eins og Manchester United og Arsenal og fleiri  sem sett hafa milljarða í liðið og ekki náð þeim árangri sem Chelsea hefur náð á þessum  tíma. Chelsea getur verið öruggt með að þeir muni eiga ríka eigendur en munu þeir eiga  eigendur sem eru skynsamir knattspyrnuunnendur? Því það hefur Abramovich verið.“

Hverjar sem forsendur BlueCo voru við kaupin á Chelsea þá var starfandi stjóri við völd  þegar yfirtaka átti sér stað. Þjálfari sem hafði staðið sig frábærlega þann stutta tíma sem  hann hafði verið.

Thomas Tuchel var aðeins búinn að vera stjóri í rúmt ár hjá Chelsea en samt unnið (ásamt  liðinu) til fleiri verðlauna en margir stjórar á lífsleiðinni. Margir væntu því mikils af  samstarfi þessa nýja eignarhaldsfélags (BlueCo) og Tuchel. Farið var í miklar fjárfestingar á  leikmönnum til að gera klárt fyrir tímabilið 2022-23. Greinilegt var að núverandi  viðskiptamódel BlueCo var ekki fullmótað, það er ALDURSTAKMARK (<26ár) og  LÁGLAUNASTRÚKTUR var ekki hafður til hliðsjónar þegar 250 milljónum punda var  eytt í Sterling, Koulibaly, Aubameyang, Cucurella og Fofana. Einnig voru keyptir  Slonina, Chukwuemeka, Casadei og Zakaria fenginn að láni.

Greinilegt var að Boehly með sína reynslu úr íþróttageiranum vildi kaupa þekkta  reynslubolta í bland með efnilegum leikmönnum og fyrir þá reynslu þarf maður að borga  hærri laun, þ.e. hin hefðbundna almenna aðferð betri liða við kaup á leikmönnum: 1. Að  greina þörfina. 2. Að finna bestu leikmennina (á lausu eða ekki) sem henta í  stöðuna/leikkerfið. 3. Reyna að kaupa þá með öllum mögulegum aðferðum, eiginlega á  hvaða verði sem er. 4. Að bjóða mjög góð laun sem aðdráttarafl.

Egbali var (og er) á annarri skoðun en Boehly og á endanum hefur hans skoðun verið ofan  á í leikmannakaupum eftir þessi risakaup fyrsta árið. Semsagt það módel sem félagið býr  að í dag. Að kaupa unga framúrskarandi leikmenn, á hagstæðum verðum og greiða þeim lág  laun en hafa árangurstengdan launahvata sem gulrót. Og afskrifa kaupverðið á löngum tíma (7-9 ár).


Mynd: Darren Walsh/Chelsea FC – Getty Images

Þegar tveir ólíkir íþróttaheimar mætast er óhjákvæmilegt að verulegir árekstrar gerist. Ekki  síst þegar stjórinn er með jafn ákveðnar skoðanir og Tuchel. Tuchel fannst eigendurnir vera að vasast of mikið í daglegum rekstri og var mjög óánægður þegar þeir létu Granovskaia og  Cech fara en þau höfðu unnið náið með Tuchel. Ekki veit ég hvort eigendurnir mættu með  fylgdarliði og jafnvel fjölskyldu í búningsklefann hjá Tuchel og leikmönnum í hálfleik eins  og tíðkast í Bandaríkjunum (gerðu það hjá Lampard) en í byrjun september hafði Chelsea  unnið 3 leiki, tapað 2 og gert 1 jafntefli (í Deildinni). Þann 6. september tapaði liðið “úti”  sínum fyrsta leik í Champions Leage gegn Dynamo Zagreb. Daginn eftir var Tuchel látinn  fjúka og stjórinn (Potter) frá fyrirmyndarfélaginu var ráðinn. Eftirmæli Boehly um  fráfarandi stjóra voru þau “ að það væri hrein martröð að vinna með Tuchel”.

BlueCo missti sig enn meira í vetrarglugganum (2023-23) og keypti leikmenn fyrir um 300  miljón punda eða um 575 milljón þetta tímabil. Seldi aðeins fyrir um 75 milljónir þannig að  fyrsta tímabil BlueCo var HÁLFUM MILLJARÐI PUNDA eytt í leikmannakaup.  Chelseahatarar eins og Carragher og álíka kumpánar fengu bullandi útrás við að úthúða  heimsku og vankunnáttu þessara nýju eigenda og fundu þeim og félaginu allt til foráttu.  Þeirra tuð hafði svo sem lítið breyst frá því Abramovich keypti Chelsea, aðeins hefur verið  skipt um nöfn eigenda í gífuryrðunum.


Mynd: The Athletic Gögn. Opta/FBref

Og hver var svo afraksturinn af kaupæðinu þetta fyrsta heila tímabil 2022-23? Chelsea  endaði í 12. sæti í deildinni og hefur aldrei lent neðar sl. 30 ár í Úrvalsdeildinni.  Mourinho/Hiddink enduðu í 10. sæti með liðið 2015-16 en öll önnur ár frá 1995-96 hefur  Chelsea aldrei lent neðar en í 6. sæti fyrr en Móri/Hiddink og Potter/Lampard komu að málum. Grínið er þó  að Chelsea varð Englandsmeistari (Mourinho) 2014-15 tímabilið og síðan aftur 2016-17 eða ári eftir “Móri Horribilis”. En áfram með Potter/Lampard og þeirra afrek þetta tímabil.  Chelsea var hent út úr báðum bikarkeppnunum í þriðju umferð eða fyrir áramót en komst í  fjórðungsúrslit í Evrópukeppninni. Potter var látinn fara í byrjun apríl og Lampard tók við.  Potter var búinn að reyna allar gerðir af leikskipulagi (sjá mynd) og nokkra til viðbótar en  ekki gekk rófan. Lampard gat því miður engu bjargað það sem eftir lifði vetrar og liðið  tapaði 8 leikjum, gerði 2 jafntefli og vann einn leik undir hans stjórn. Chelsea skoraði aðeins 38 mörk í Úrvalsdeildinni þetta tímabil.

Fyrsta tilraun BlueCo í enska boltanum, gagnadrifin eða ekki, var frekar hneisuleg. Og  lítið fékkst fyrir þennan hálfan milljarð punda í leikmannakaupum á fyrsta tímabil BlueCo.  Carragher og aðrir hatursmenn Chelsea fitnuðu eins og púkinn á fjósbitanum af hreinu eigin  monti. Loksins höfðu þeir rétt fyrir sér í eilífðargagnrýninni á Chelsea. Bara heimskir, ríkir kanar að gera sig breiða í íþrótt sem þeir hafa ekki vit á. Lítið vissu þeir hvað þeir höfðu rangt fyrir sér.

Að vísu höfðu þeir rétt fyrir sér að nokkru leyti. Í gagnavinnslu gildir lögmálið: skítur  inn=skítur út. Niðurstaðan verður aldrei betri en gögnin sem þú notar. Það er að þær  forsendur sem þú setur fyrir gagnavinnslunni og fæðir gagnagrunninn með verða að vera  “rök”réttar. Hvernig þeir komust að þeirri niðurstöðu að Mudryk væri 62+27= 89 milljón  punda virði er mér og fleirum ráðgáta. Enzo Fernandes var einnig keyptur á gufurugluðu  verði eða 107miljónir punda eða langt yfir eðlilegu markaðsverði. Þannig að verulegir  hnökrar voru á “gagnavinnslunni” á fyrsta tímabili BlueCo hvað snertir leikmannakaup.

Lampard hafði verið ráðinn til bráðabrigða eftir að Potter var rekinn þannig að finna þurfti  nýjan stjóra fyrir næsta tímabil, það er 2023-24. Leit hófst að slíkum manni og á endanum  var Mauricio Pochettino ráðinn til tveggja ára eftir að “íþróttateymi” félagsins hafði  ígrundað rækilega alla aðra kosti. Stjórn Chelsea var “hreykin af ráðningarferlinu” að sögn  eigenda félagsins eins og haft er eftir þeim á heimasíðu Chelsea.

Seinni hluti greinarinnar mun fjalla um tímabil Pochettino og Maresca sem og spáð í  veturinn framundan og næstu framtíð.

Björgvin Óskar
Bobhornið
#1-2025

 

 

 

 

 

Joii
EiríkssonKjötsmiðjan
American Bar
Car RentalHársnyrtistofan