Lincoln og deildarbikarinn

23. sep. 2025

Keppni: Deildarbikarinn – 3. umferð
Tími, dagsetning: Þriðjudagur 23. september kl: 18.45
Leikvangur:  LNER Stadium, einnig þekkt sem Sincil bank, Lincolnskíri
Dómari:  Matt Donohue
Hvar sýndur:  Viaplay
Upphitun eftir:  Hafstein Árnason

ree
Það er oft sagt, þegar það rignir, þá hellidembir. Það er óhætt að segja að það er staðan. Leikmenn Chelsea komu býsna þreyttir úr landsleikjahléi þegar liðið náði jafntefli gegn Brentford. Það fór í sneypuför til Bæjaralands í Þýskalandi og létu Harry Kane og félaga pakka sér saman. Við höfðum væntingar til að ná góðum úrslitum á Old Trafford. Manchester United er í sögulegri lægð. Rauðu djöflarnir hafa ekki verið svona lélegir í einhver 40 ár og Chelsea hefur ekki unnið á Old Trafford í meira en áratug. Núna var tækifærið til að brenna skipin og ráðast til atlögu eins og Hernán Cortes forðum daga. Ef eitthvað brann þann daginn, þá var það leikplanið sem Maresca lagði upp með og það tók fimm mínútur. Sjálfur horfði ég ekki á leikinn í beinni útsendingum en fékk meldingar í símann. Robert Sanchez rauk útúr teignum og braut á Bryan Mbeumo sem var sloppinn í gegn. Brotið var í raun býsna harkalegt og heimskt. Brottvísunin verðskulduð. Þessi spænski markvörður minnir mann á söguna um Dr. Jekyll & Mr. Hyde. Sú saga segir frá manni sem breytir um persónuleika, en það hefur átt sannarlega við um Sanchez. Í sumar á Heimsmeistaramótinu sýndi hann takta sem flest lið gætu verið stolt af og hann var valinn besti markvörðurinn, fram yfir sjálfan Gigi Donnarumma. Nú hefur hann breytt um persónuleika og sýnt hæfileika markmanns sem sæmir neðri deildum Spánar. Vissulega eru meiðsli að hrjá vörnina og liðsmenn ekki eins samstilltir og í sumar, en boltinn hjá Paquetá í West Ham leiknum og þessi brottvísun hefur sannfært mig að það sé ekki hægt að treysta á hann. Þessar óstöðugu frammistöður koma niður á leik liðsins. Framan af sumri var hávær umræða að Mike Maignan væri á leiðinni til Chelsea. Ef til vill fékk sú umræða okkar mann upp á tærnar, en um leið og hún koðnaði niður og staðan varð kósý, þá er ekki ósennilegt að draga þá ályktun að menn eins og Sanchez verða værukærir. Ekki bætir úr skák, að varamarkvörðurinn, þessi danska pylsa með tómat og sinnepi, ógnar stöðu Sanchez nákvæmlega ekki neitt. Það kom berlega í ljós í mörkum Manchester. Öll viðbrögð fálmkennd og klaufaleg. Þeir þurfa báðir að fara.
ree
Við þennan brottrekstur Sanchez, ákvað Enzo Maresca að sýna sínar verstu hliðar sem leikstjóri, og þá sérstaklega undir álagi. Fórnarkostnaðurinn við að hafa unga þjálfara með takmarkaða reynslu, eru svona atvik. Maresca ákvað að taka Estevao útaf fyrir Jörgensen til að fylla markið, sem er faktíst séð auðvelda ákvörðunin. Að taka unga og óreynda leikmanninn fyrst útaf – sem mótmælir engu og segir ekki neitt. Næsta ákvörðun var hrókering í leikskipulaginu sem ég fæ seint skilið. Tosin miðvörður inn á fyrir Pedro Neto. Þar með var öllum hraða skipt útúr leiknum og leikplanið að harka af sér í 80 mínútur. Valkosturinn hefði verið að treysta á miðverðina sem voru fyrir og beita öflugum skyndisóknum. Síðan gerist það örskömmu seinna að Cole Palmer fer af velli, líkast til vegna meiðsla sem hafa verið að hrjá okkar mann að undanförnu. Fyrir hann kom Andrey Santos inná, þannig að jafnvægið í liðinu var farið að forgörðum. Hvað var þá leikplanið? Afhverju fórnaði hann ekki Palmer fyrst hann var ekki heill heilsu? Hvers vegna hélt hann ekki kvikum hröðum leikmönnum ekki inná velli? Afhverju treystir hann ekki Fofana og Chalobah? Þrjár skiptingar farnar og Man United höfðu skorað tvö mörk barnalega auðveld mörk. Þegar Casemiro fékk sitt seinna gula voru tækifæri til breytinga af skornum skammti til bregðast við, í ljósi þess að of mörg slot voru notuð til að skipta leikmönnum og þrír leikmenn þegar farnir af velli. Chelsea klóraði aðeins í bakkann með ágætu skallamarki frá Chalobah í blálok leiksins og enn einn ósigurinn á Old Trafford er staðreynd. Það er hægt að skrifa eitthvað á heimskupör Sanchez en röð rangra ákvarðanna var það sem sturtaði þessum leik niður í klósettið. Rigningin í Manchester fangaði augnablikið. Við stöndum í storminum.
ree


Það verður því kærkomið að fá tækifæri í deildarbikarnum. Framundan er leikur gegn Lincoln City í Lincolnskíri. Chelsea hefur mætt fimm sinnum á Sincil bank sem sumir kannast við af myndum úr elstu Championship manager leikjunum. Chelsea hefur unnið þar tvisvar og gert jafntefli tvisvar en tapaði einum leik, árið 1907, en það eru 118 ár síðan. Lincoln sitja í þriðja sæti í League 1, en hafa dólað sér í neðri deildum, þá aðallega League 1 og League 2 á undanförnum áratugum. Besti árangur þeirra var í næstefstu deild á fyrri hluta 20. aldar. Gengið liðsins hefur verið býsna gott í League 1, þar sem þeir sitja í þriðja sæti deildarinnar og ósigraðir í síðustu 10 leikjum. Liðið spilar 4-4-2 og James Collins, írski framherjinn er markahæstur í liðinu með fjögur mörk í níu leikjum. Liðið skorar flest mörkin sín úr opnum leik, átta samtals, en þrjú hafa komið úr föstum leikatriðum. Liðið er því ekkert lamb að leika sér við, þannig séð. Miðað við gengið á Chelsea liðinu er við öllu að búast.

Meiðslalistinn er tómur hjá Lincoln en hjá okkur er þáttaka Cole Palmer tvísýn. Öryrkjarnir Romeo Lavia og Benoit Badiashile eru ekki klárir til leiks en eru þó byrjaðir að æfa með liðinu samkvæmt Maresca. Chelsea eru líklegir til að stilla upp varaliði til að álagshvíla aðra leikmenn. Það er búist við því að Filip Jörgensen standi vaktina í markinu. Við giskum á að Malo Gusto byrji í hægri bakverði, Jorrel Hato í vinstri. Miðverðir geta verið Tosin, Chalobah, Fofana og Acheampong. Það er í raun ómögulegt að segja, en miðað við álag ætti Acheampong að fá tækifæri og Fofana þarf fleiri mínútur. Miðjan verður án efa Andrey Santos og Enzo. Línan fyrir framan þá verður Garnacho, Estevao og Pedro Neto. Marc Guiu fær svo að terrorisera vörn Lincoln. Það má líka búast við því að einhverjir úr unglingaakademíunni fái tækifæri, en þá erum við að horfa á leikmenn eins og Genesis Antwi, Shumaira Mhueka, Reggie Walsh og Samuel Rak-Sakyi. Sumir þeirra hafa þó spilað tvo leiki síðustu vikuna, þannig að mínútu fjöldinn yrði sennilega ekki ýkja mikill.

Hvernig fer leikurinn? Ef menn taka sig ekki saman í andlitinu núna, þá er krísa. En þetta ætti að fara svona 4-0 að lágmarki. Það myndi þó ekki koma mér á óvart ef Lincoln myndu reynast okkur erfiðir, sérstaklega ef þeir iðka lágblokkina en hérna vil ég sjá Estevao, Guiu og Garnacho virkilega stimpla sig inn.

Áfram Chelsea! P.s.

Skráið ykkur í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Þannig fáið þið miða á leiki á Stamford Bridge með hagkvæmum hætti! Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is

Joii
EiríkssonKjötsmiðjan
American Bar
Car RentalHársnyrtistofan