Serbneski knattspyrnumaðurinn Branislav Ivanovic er við það að ganga til liðs við nýliða West Brom í ensku úrvalsdeildinni en stjóri liðsins, Slaven Bilic, segir félagið og leikmanninn ekki nema nokkrar klukkustundir frá samkomulagi.
Ivanovic er 36 ára varnarmaður og án félags eins og er en hann varð samningslaus hjá Zenit í Rússlandi á dögunum. Hann er ensku úrvalsdeildinni vel kunnur enda spilaði hann fyrir Chelsea í níu ár, til ársins 2017.
„Hann verður frábær viðbót við lið okkar, hann hefur afrekað allt á ferlinum og býr yfir þvílíkri reynslu. Hann væri fengur fyrir lið eins og okkur, nýliða,“ sagði Bilic á blaðamannafundi sínum en West Brom hefur leik á morgun, fær Leicester í heimsókn.
„Við erum mjög nálægt því að semja við hann, vonandi tekur það ekki nema nokkrar klukkustundir í viðbót.“
Ivanovic átti góðu gengi að fagna með Chelsea þar sem hann varð enskur meistari 2010 og 2015, bikarmeistari 2009, 2010 og 2012, deildabikarmeistari 2015, Evrópumeistari 2012 og vann Evrópudeild UEFA með liðinu 2013.
Hann lék 261 leik með Chelsea í úrvalsdeildinni og skoraði 22 mörk og þá hefur Ivanovic spilað 92 landsleiki fyrir Serbíu og skorað í þeim 12 mörk.