Lionel Messi, besti knattspyrnumaður heims og fyrirliði Barcelona á Spáni, hefur beðið um sölu frá félaginu. Það er Rob Harris, blaðamaður hjá AP, sem greinir frá þessu á twittersíðu sinni í dag.
Messi, sem er 33 ára gamall, gekk til liðs við Barcelona árið 2000 frá Old Boys í heimalandi sínu Argentínu og hefur spilað með félaginu allan sinn feril. Messi er samningsbundinn Barcelona til sumarsins 2021 en hann er sagður vera með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa félagið á frjálsri sölu eftir hvert tímabil.
Messi er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar en hann hefur tíu sinnum orðið Spánarmeistari með Barcelona. Þá hefur hann sex sinnum orðð bikarmeistari með liðinu og fjórum sinnum hefur hann fagnað sigri með Barcelona í Meistaradeildinni.
Messi hefur sex sinnum hlotið Gullknöttinn eða Ballon d’Or sem veittur er besta knattspyrnumanni heims ár hvert, oftar en allir aðrir. Messi á að baki 731 leik fyrir Barcelona þar sem hann hefur skorað 634 mörk og lagt upp önnur 285. Þá á hann að baki 138 landsleiki fyrir Argentínu þar sem hann hefur skorað 70 mörk.