Í annað sinn hefur félagi í Chelsea klúbbnum á Íslandi orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera valinn til setu hjá Fans´ Forum hjá Chelsea Football Club. Guðjón Sigurðsson tók sæti í ráðinu fyrir hönd „Disabled members“ og sat sem slíkur sinn fyrsta fund í Fans´ Forum í síðustu viku og fór fundurinn fram, venju samkvæmt, á Stamford Bridge. Eins og fyrr segir er þetta í annað sinn sem einn af okkar félagsmönnum tekur sæti í Fans´Forum, formaður Chelsea klúbbsins, Karl H Hillers, átti sæti í ráðinu fyrir hönd „Overseas Supporters´ Branch“ (stuðningsmannaklúbbar Chelsea utan Bretlandseyja) á árunum 2014 – 2016.
Fans´ Forum, hvað er nú það?
Fans´ Forum er vettvangur hjá Chelsea Football Club hvar ýmsir stjórnendur hjá félaginu annars vegar og fulltrúar hinna ýmsa aðildarklúbba og hagsmunaðila félagsins hins vegar hittast og bera saman bækur sínar, fara yfir hvað betur mætti fara í samskiptum þessara aðila, bæði innbyrðis og ekki síður við önnur knattspyrnufélög og samtök er koma að knattspyrnumálum, bæði innan lands sem utan. Fundarmenn geta komið tillögum um hin ýmsu mál á framfæri beint við yfirstjórn félagsins á þessum vettvangi og þá um nánast allt sem Chelsea Football Club stendur fyrir, allt nema keppnislið félagsins.
Öryggismál eru jafnan ofarlega á baugi á fundum þessum, samskipti við fjölmiðla, aðstaðan á Stamford Bridge fyrir þá er sækja leiki félagsins þar og þá sérstaklega fyrir þá er teljast til „Disabled members“ og þá jafnvel einnig á erlendri grundu, veitingar á vellinum, bæði gæði þeirra, verðlag og fyrirkomulag veitingasölu, salernismál, miðaverð, samskipti/samvinna við önnur knattspyrnufélög, svartamarkaðsbrask með miða, samskipti við yfirvöld o.s.frv., o.s.frv.
Það ber mörg viðkvæm mál á góma á fundum ráðsins og er fundarmönnum gert að gæta fyllsta trúnaðar um málefni þau sem þar eru tekin fyrir hverju sinni.
Alla jafnan sitja 25 manns fundi í Fans´ Forum, 10 þeirra eru yfirmenn/stjórnendur hinna ýmsu sviða hjá félaginu, 15 eru fulltrúar hinna ýmsu stuðningsmannaklúbba félagsins og/eða hagsmunasamtaka gagnvart félaginu. Þessir 15 fulltrúar hafa rétt til setu í ráðinu í tvö ár í senn, eftir það verða að líða a.m.k. fjögur ár þar til viðkomandi getur tekið sæti þar að nýju. Fundir í Fans´ Forum eru haldnir a.m.k. þrisvar á hverju keppnistímabili og má hrósa forsvarsmönnum Chelsea Football Club fyrir hversu mikla áherslu þeir leggja á gott við samstarf félagsins við aðildarklúbba þess. Óþarfi að taka fram að fundirnir fara jafnan fram í glæsilegum salarkynnum á Stamford Bridge og veitingar á meðan og á eftir ekki til að kvarta undan.
Guðjón Sigurðsson
Eins og fyrr segir situr Guðjón Sigurðsson í Fans´ Forum fyrir hönd „Disabled Members“ og það á heimsvísu næstu tvö árin. Stjórn Chelsea klúbbsins hefur samþykkt að styrkja Guðjón fjárhagslega vegna þessa en hver og einn hinna 15 fulltrúa verður að standa straum af kostnaði við setu í ráðinu sjálfir (þ.m.t. ferða- og gistikostnað) eða þau aðildarfélög/samtök sem þeir eru fulltrúar fyrir.
Guðjón er vart þörf á að kynna, hann hefur í mörg ár verið í forsvari fyrir MND félagið á Íslandi sem og samtaka MND sjúklinga á alþjóðavettvangi. Og að sjálfsögðu er hann eitilharður fylgismaður Chelsea Football Club, blár inn að beini og félagi í Chelsea klúbbnum til margra ára.
Stjórn Chelsea klúbbsins óskar Guðjóni til hamingju með þann heiður og traust sem Chelsea Football Club hefur sýnt honum með skipan hans í Fans´ Forum, megi honum farnast vel þar á fundum.
Hvaða nefndir eru til hjá Chelsea FC?
Til glöggvunar látum við fylgja hér með lista yfir þá er skipa Fans´ Forum hjá Chelsea Football Club, þ.e. fyrir hönd hverra þeir sitja fundi ráðsins:
- Club Finance and Operations Director
- CFC UK
- Club Head of Communications and Public Affairs
- 16-21’s
- Club Chairman
- Chelsea Supporters Trust
- Home season ticket (“ST”) holder
- Chelsea Supporters Club
- Away ST holder
- Club Director
- Disabled
- Over 65’s
- Overseas supporters’ branch
- UK branch
- Hospitality
- CFC Net
- Club Marketing Manager
- Club Head of Security
- Forum Chairman
- Chelsea Football Fancast
- Club Head of Ticketing/ Head of Supporters’ Liaison
- Member
- Chelsea Supporters Group
- Family stand
- Club Head of Concessions
- UK branch