Keppni: Sambandsdeildin 8 liða úrslit
Tími, dagsetning: Fimmtudagur 10. apríl 2025 kl: 16.45
Leikvangur: Stadion Miejski Legii, Warsaw Poland
Dómari: Serdar Gozubuyuk
Hvar sýndur: Stöð 2 sport 2.
Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson – maður sem enn trúir á kærleika, réttlæti og fjórða sætið

Svo virðist sem Chelsea sé búið að beita allri skynsemi í söluferli, leikmannakaupum og uppstillingum með sömu nákvæmni og maður sem reynir að græja IKEA-skáp án leiðbeininga. Og eftir vetur vonbrigðanna – þar sem meiðslalistinn hefur verið lengri en jólagjafalistinn hans Todd Boehly – þá er Sambandsdeildin okkar síðasta hálmstrá. Og það hálmstrá er farið að mygla. Þar sem sigur í þessari deild er eina von okkar manna um titil og dollu þetta árið. Nú liggur leiðin til Póllands þar sem sigursælasta lið pólskrar knattspyrnu Legia Warszawa verður okkar næsti andstæðingur. Það er þó ljóst að ef við horfum á tvo síðustu leiki okkar manna þá er bjartsýnin ekki á neinum yfirsnúningi. Við höfum unnið Tottenham, sem er orðið eins og að vinna í einelti – enginn virkilega fagnar því, en það lítur vel út á pappír. En þegar við mætum Brentford og ákveðum að stilla upp framlínu sem minnir helst á gömlu sendiferðina sem maður reynir að starta á 15. vakt – þá kemur ekkert nema hósti og vonbrigði.
Uppstillingin fyrir þann leik vakti upp margar spurningar, en Jackson og Palmer voru bekkjaðir og Nkunku, Sancho og Madueke áttu að sjá um framlínuna. Þar skjátlaðist Maresca hrapallega þar sem bitið í sóknarleiknum var svipað og í gömlum smjörhníf. Þeir eru saman eins og flatbrauð og kæfa – ekki alveg það sem þú vilt í forrétt. Ég er löngu hættur að átta mig á Nkunku og þó að hann hafi staðið sig ágætlega á einhverju æfingamóti áður en hann lagðist svo í meiðsli, þá er þetta bara ekki leikmaður sem stendur undir fyrri afrekum í þýsku deildinni. Hann bara enn eitt dæmið um leikmann sem stendur sig fínt í lélegri deildum og er hæpaður upp, en höndlar svo engan veginn að standa á stóra sviðinu, en Chelsea hefur því miður og allt of oft lagt allan peninginn á einhverjar vonarstjörnur úr slakari deildum sem hafa svo floppað, samanber Kezman, Mutu, Werner, Havertz og Falcao.
Það vantaði ekki að við vorum miklu betri á öllum sviðum gegn Brentford, og Sanchez sýndi oft á tíðum meistaratakta inn á milli, þá vantaði allt bit og áræðni í leikmenn og eitt annað er skrítið að þegar við erum í dauðafæri til að ná í þrjá punkta og styrkja okkur í baráttunni um meistaradeildarsæti, þá þarf alltaf að missa leiki í jafntefli. Baráttan um fjórða sætið hefur aldrei verið erfiðari þar sem Newcastle er með sama stigafjölda og Chelsea. Manchester City er einu stigi undir og Aston Villa tveimur, þannig að róðurinn er og verður erfiður. En auðvitað er þetta ekki bara dauði og djöfull, en nú er bara að gólfa kvikindið eins og maðurinn sagði og klára dæmið almennilega. Ég er þeirrar skoðunar að liðið eigi helling inni og væri alveg til í að sjá bestu hliðarnar næstu vikurnar.
Eitthvað eru okkar ástsælu eigendur að grufla í kassanum og tilkynntu um sölu á kvennaliðinu til móðurfélagsins Blueco og hugðust létta á rekstrarreikningum, en FIFA var víst ekki á sama máli og telur að þetta séu frekar vafasamir viðskiptahættir. Það er ljóst að Todd Boehly og Behdad Eghbali eru með lausnir á þessu máli, þar sem fáir eru hæfari í að finna glufur á þessum fjármálareglum, þó kunnátta þeirra á lögmálum fótboltans séu umdeilanlegir. En nú nálgast sumarið og ég held að það sé kominn tími á að innkaupastjórar klúbbsins fari að líta vel í kring um sig. Ég held í vonina um að við fáum nýjan markvörð þrátt fyrir sæmilega spretti hjá Sanchez, en það bara gengur ekki að maður fái blóðsykurfall í hvert einasta skipti sem maðurinn sendir boltann frá sér. Einnig langar mig að sjá alvöru markaskorara með Palmer þarna frammi og það eru jú nokkrir feitir bitar á markaðnum. Nú vil ég sjá alvöru metnað í innkaupum, en svo er jú alltaf spurning að sæti í meistaradeild að ári yrði ágætis gulrót fyrir margan framherjann.
Chelsea
Liðið er í allgóðum málum meiðslalega séð þessa dagana með örfáum undantekningum þó og Wesley Fofana er á kunnuglegum slóðum og er frá út tímabilið. Ég held, satt best að segja, að það sé fullreynt með hann, og réttast væri að losa okkur við hann fyrir einhver pund, ef einhver hefur þá áhuga á þessum meiðslapésa. Lavia er væntanlegur í þessum mánuði og fær kannski einhverjar mínútur fyrir lok tímabils og ef Palmer fer í skotskóna aftur, þá verður gaman að lifa. Enzo og Caiceido hafa verið nokkuð þéttir og Cucurella berst eins og ljón alla leiki og er farinn að skora og er það vel. Nú fer samt hver að verða síðastur að girða sig upp að geirvörtum og sýna almennilega baráttu og vilja. Við eigum líka nóg af ungum feikna góðum drengjum sem bíða eftir að fá mínútur þannig að framtíðin er í bjartara lagi.
Legia Warszawa
Nú verð ég að viðurkenna að pólsk knattspyrna er ekki mitt sérsvið en Legia Warszawa er þó eitt sigursælasta lið Póllands. Félagið er stofnað 1916 og þjálfari liðsins er Portúgalinn Goncalo Feio. Það vekur athygli að hann er aðeins 35 ára gamall, og Legia er annað liðið sem hann þjálfar. Hann lék knattspyrnu á sínum yngri árum og var um tíma á mála hjá Benfica. Pólverjar hafa verið þekktir fyrir að spila hörku bolta og oftar en ekki hefur hann þótt fremur harður og óvæginn en að sama skapi árangursríkur. Áhorfendurnir kalla ekki allt ömmu sína og eiga vafalaust eftir að leggja sitt af mörkum í þessum leik. Legia er komið í 8 liða úrslit eftir sigur á Molde og má búast við að þeir leggi allt í sölurnar og ætli sér að ná í góð úrslit fyrir seinni leik liðanna sem fer fram á Stamford Bridge þann 17. apríl.
Liðsuppstilling og spá
Nú er ekki gott að segja hvað sá ítalski gerir á fimmtudaginn miðað við uppstillinguna gegn Brentford. Hvort hann var að álagsstýra leikmönnum er hugsanlegt, en ég held að hann þurfi að nota allar sellurnar í þetta verkefni. Ég spái að hann haldi sig við 4-2-3-1 og reikna með að Sanchez hafi orðið sér úti um líflínu og verði í markinu og fyrir framan hann verða þeir Cucurella, Colwill, Tosin og Gusto. Þar fyrir framan verður okkar besta tvíeyki eða þeir Caicedo og Enzo og bakka upp Palmer, Neto og Madueke og Jackson verður fremstur. Við komum til með að sigra þennan leik 0-2 og það verða þeir Palmer og Jackson sem skipta með sér mörkunum. Það þýðir ekkert að missa móðinn og nú ríður á!!
Áfram Chelsea !
Færslan er birt með góðfúsleyfi leyfi frá cfc.is