Myndir frá Aðalfundi klúbbsins og skýrsla stjórnar – Vel heppnaður hittingur og mikil stemming

Það verður varla hægt að segja annað en að Aðalfundur klúbbsins þann 28. september 2024 hafi verið með eindæmum vel sóttur og var mikil stemming í salnum.

Fundarsköp og góð umgjörð í alla staði auk veitinga sem virtust fara vel í mannskapinn. Þökkum við Grand Hótel Reykjavík sérstaklega fyrir alla umgjörð.

Dagskráin var með hefðbundnum hætti og átti Willum Þór Þórsson gott spjall fyrir leik og tók á móti spurningum úr sal. Líflegar umræður og þökkum við Willum enn og aftur fyrir sína þátttöku.

Kosning fundarstjóra fór fram og var Ingvar J. Viktorsson þess heiðurs aðnjótandi. Skýrsla stjórnar vegna nýliðins starfsárs kom svo í hlut formanns og er birt hér í lok þessarar greinar.

Reikningar félagsins vegna nýliðins reikningsárs og voru samþykktir. Gerðar voru lagabreytingar sem lúta að stjórnarkosningum og fela í sér að þeir stjórnarmenn sem ekki tilkynna áframhaldandi veru sína í stjórn sjö dögum fyrir aðalfund, sitja áfram. Fyrri regla fólst í að skila inn skriflegu samþykki um áframhaldandi þátttöku í stjórn.

Formaður verður áfram Karl. H. Hillers, aðrir stjórnarmenn endurkjörnir sem og endurskoðendur og meðlimir laganefndar klúbbsins.

Heiðursfélagar voru heiðraðir með nýju Gullmerki auk þess sem Willum var gerður að heiðursfélaga Chelsea-klúbbsins á Íslandi. Einnig var kynnt nýtt barmmerki Chelsea-klúbbsins á Íslandi.

Hér gefur að líta nokkrar myndir frá vel heppnuðum fundi

Ræðu formanns má svo lesa hér fyrir neðan

Ágætu fundargestir.
Starfsárið 2023 – 2024 var með hefðbundnu sniði, af innlendum vettvangi ber helst að nefna að félagsmönnum fækkaði lítils háttar frá fyrra ári, í lok starfsársins töldust þeir vera 426 og hafði fækkað um 19 frá árinu áður.
Aðalfundur klúbbsins fór fram á Grand Hótel Reykjavík laugardaginn 12. nóvember 2023 og var vel sóttur.
Á aðalfundinum voru þeir Guðjón Sigurðsson og Karl Emil Gunnarsson tilnefndir í flokk heiðursfélaga Chelsea-klúbbsins og eru þeir báðir vel að þessum heiðri komnir en alls hafa ellefu einstaklingar hlotið þennan heiður í tuttugu og sjö ára sögu Chelsea-klúbbsins.
Á fundinum var samþykkt að fjölga í stjórn klúbbsins og skipa nú átta félagar stjórnina en nýir meðlimir hennar voru kjörnir þeir Ómar Freyr Sævarsson, Starkaður Örn Arnarson og Stefán Marteinn Ólafsson, aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir og sama gilti um endurskoðendur klúbbsins sem og félaga í laganefnd.
Margir stjórnarfundir voru haldnir á starfsárinu, viðfangsefnin voru margvísleg og af ýmsum toga, líkt og áður fór töluverð vinna í að rækta sambandið við félagsmenn, samstarfs- og styrktaraðila klúbbsins og afla nýrra slíkra, einnig að afla vinninga til nota í happdrættum félagsins og Tippleik Chelsea.is, þá var vinna við endurnýjanir og nýskráningar fyrir félagsmenn tímafrek.
Samskipti við móðurfélagið taka ávallt drjúgan tíma, formaður Chelsea-klúbbsins sótti tvo fundi í London fyrir okkar hönd en stjórnin leggur mikið upp úr að rækta hið góða samband sem verið hefur á milli viðkomandi aðila.
Í desember var gerð tilraun til hópferðar á leik Chelsea vs Brighton & Hove Albion en því miður náðist ekki næg þátttaka og var ferðin því blásin af.
Veittur var styrkur úr Minningar- & Styrktarsjóði til eins af félögum okkar er glímir við erfið veikindi og fylgdarmanni hennar til farar á fyrrgreindan leik en sjóðurinn stendur mjög vel fjárhagslega, almenni bankareikningur klúbbsins mætti hins vegar standa betur eins og ársreikningurinn ber með sér.
Vorfundur fór fram á Ölveri þann 1. júní (!) og voru þar meðal annars veittar viðurkenningar fyrir árangur í Tippleik Chelsea.is auk þess sem dregið var í vorhappdrætti Chelsea-klúbbsins, metþátttaka var í happdrættinu sem er orðin helsta tekjulind klúbbsins.
Stjórn Chelsea klúbbsins færir öllum þeim fjölmörgu er fjárfestu í miðum í happdrættinu og þá ekki síður þeim samstarfs- & styrktaraðilum klúbbsins er lögðu til vinninga bestu þakkir.
Þá ber að þakka þeim er lögðu til vinninga í Tippleik Chelsea.is en alls voru veittir 18 vinningar til 9 vinningshafa yfir keppnistímabilið.
Einnig var efnt til Pub Quiz á Ölveri og sáu fulltrúar Blákastsins, stjórnarmennirnir Ómar Freyr Sævarsson og Stefán Marteinn Ólafsson um framkvæmdina fyrir hönd Chelsea-klúbbsins í samstarfi við Blákastið. Var gerður góður rómur að framtakinu og frammistöðu þeirra félaga.
Og þá að erlendum vettvangi:
Nýir eigendur Chelsea Football Club héldu áfram í ruglinu, virðast hafa haldið að því vitlausara því betra ætti best við er varðaði rekstur félagsins, best að hafa sem fæst orð um þann þátt.
Nýr knattspyrnustjóri var ráðinn til að stýra karlaliði félagsins og féll sú ráðning í ansi grýttan jarðveg hjá hörðustu stuðningsmönnum félagsins, ekkert sem lyktaði af ónefndu liði frá norður-London væri nógu gott né ásættanlegt fyrir Chelsea Football Club.
Gengi liðsins undir stjórn Argentínumannsins Mauricio Pochettino var ansi brokkgengt, sérstaklega framan af keppnistímabilinu, óstöðugleiki í leik liðsins var með eindæmum, ömurleg frammistaða annað veifið, frábærir leikir þess á milli og margir voru farnir að munda stígvélið, tilbúnir að sparka stjóranum.
En eigendur félagsins héldu tryggð við þennan frekar litlausa stjóra, líflínur hér og þar, úrslitaleikur í Deildabikarnum á Wembley sem klúðraðist reyndar á ótrúlegan hátt, gott gengi í ensku bikarkeppninni hvar liðið náði alla leið í undanúrslit á Wembley en tapaði ósanngjarnt gegn firnarsterku liði ensku meistaranna og svo allrar sanngirni sé nú gætt, frábær endasprettur í Úrvalsdeildinni sem skilaði sæti í Sambandsdeild Evrópu, eitthvað sem virtist fjarlægur möguleiki er örfáar umferðir voru eftir af mótinu.
Leikmenn komu og fóru, sumir máttu missa sig en söknuður af öðrum, fengur af sumum af nýjum leikmönnum, öðrum ekki, upp úr stóð í öllu þessu vafstri koma Cole Palmer, hvílíkur happafengur þar fyrir félagið.
Chelsea Women stóðu sig vel að vanda, vörðu Englandsmeistaratitilinn fjórða árið í röð, komust í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu sem og í Ensku bikarkeppninni og í úrslit í Deildabikarnum.
Það var ógleymanleg stund á Kingsmeadow á fallegu sunnudagskvöldi í maí er stúlkurnar rústuðu Bristol City með átta mörkum gegn engu í kveðjuleik Emmu Hayes á heimavelli og tryggðu sér þar nánast Englandsmeistaratitilinn fimmta árið í röð, vel við hæfi að kveðja þennan stórkostlega knattspyrnustjóra með stórsigri.
Önnur lið félagsins, bæði yngri sem eldri, stóðu sig misvel en þó er alveg ljóst að efniviðurinn er til staðar, það er bara að vanda til verka og þá er framtíðin björt hjá Chelsea Football Club.
Góðir fundargestir, hér hefur verið stiklað á stóru, bæði heima og erlendis, á starfsárinu sem var hið ánægjulegasta í flesta staði þrátt fyrir allt.
Takk fyrir komuna á aðalfund Chelsea-klúbbsins og njótið dagsins.
Lifið heil.
Stjórn Chelsea-klúbbsins á Íslandi.

Upp